Forsíða » Sýning í Landsbókasafni 2022

Sýning í Landsbókasafni 2022

Í tilefni af 150 ára afmæli Helga Pjeturss

Þann 31. mars var opnuð í Þjóðarbókhlöðu sýningin „Fræknustu sporin“ – Helgi Pjeturss – 150 ára minning.

Helgi Pjeturss (1872-1949) var einn af frumherjum raunvísinda á Íslandi og lauk fyrstur Íslendinga doktorsprófi í jarðfræði. Með rannsóknum sínum 1898-1910 lagði hann grunn þess skilnings á jarðsögu landsins, sem enn er í fullu gildi. Á seinni hluta starfsævinnar sneri Helgi sér að heimspeki og setti fram heimsfræðilegar kenningar í safnritinu Nýall, sem út kom á árunum 1918-1947. Einnig fékkst hann við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum. Á sýningunni er farið yfir feril Helga sem jarðvísindamanns og nefnd dæmi úr heimsfræðilegum kenningum hans.

Höfundur sýningarinnar er Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur.

Sýningin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Jarðfræðafélags Íslands, Hins íslenska náttúrufræðifélags, Jöklarannsóknafélags Íslands, Styrktarsjóðsins Vísinda og velferðar, Félags Nýalssinna, Heimspekistofu Helga Pjeturss og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. 

Sýningarskrá

Sýningarspjöld