Formáli
Vef þessum er ætlað að vekja athygli á hugsun og kenningum dr. Helga Pjeturss, eins og þær birtast í bók hans Nýall og framhaldi hans. Í inngangi að bókinni Ennýall, sem var önnur í röðinni, er á titilsíðu ritað: „Nokkur íslensk drög til skilnings á heimi og lífi.“ Erindi okkar er að opna sýn á það sem í orðum þessum felst með því að setja fram rök og kenningar dr. Helga á einum stað. Hér er í fyrsta sinn hægt að lesa helstu ritgerðir hans á enskri tungu og opnast með því aðgangur umheimsins að þessum merku verkum.
Hugmyndir og kenningar dr. Helga Pjeturss nutu ekki mikils stuðnings þegar hann bar þær fram snemma á síðustu öld. Þær þóttu í meira lagi ótrúlegar og ekki í samræmi við þekkingu í náttúrufræði sem menn töldu sig þá búa yfir. Stjörnulíffræði (Astrobiology) var á þeim tíma alveg á óþekktu svæði innan vísindanna og sama mátti segja um draumakenningar hans, sem gengu þvert á ríkjandi kenningar samtímans. Eins þóttu kenningar hans um eðli fjarhrifa (telepathy) bæði langsóttar og ótrúlegar, og kenningar hans um lífgeislan og hugsambönd sem næðu stjarna á milli taldar alger fjarstæða.
Allan sinn vísindaferil gerði dr. Helgi sér far um að skýra óvenjuleg eða flókin fyrirbrigði á grundvelli náttúruvísinda. Og það lítur út fyrir að heimsmynd dr. Helga hafi verið á traustum grunni byggð, því þær hugmyndir sem fram hafa komið á síðustu áratugum innan t.d. vistfræði, stjörnufræði og skammtafræði, eru merkilega líkar meginþáttum þeirrar myndar sem dr. Helgi dró upp fyrir nærri 100 árum. Þannig er nú stjörnulíffræði orðin viðurkennd vísindagrein (sjá NASA vefinn); gamlar kenningar um myndun sólkerfa eru horfnar af sjónarsviðinu og vísindamenn telja nú að myndun sólkerfa sé regla en ekki undantekning, eins og áður var haldið fram (Sir James Jeans o.fl.). Nú er leit að öðrum sólkerfum í fullum gangi og í vísindasamfélaginu er talað um líkur á lífi á öðrum hnöttum, jafnt þróuðu (intelligent life) sem frumstæðu. Má í því samhengi vísa til merkrar ráðstefnu stjörnufræðinga sem haldin var í Toledo á Spáni árið 1996, þar sem m.a. kom fram að ekki sé lengur spurning um hvort líf finnist á öðrum hnöttum heldur aðeins hvenær það finnst, orðrétt sagði Mike Kaplan, forstöðumaður hjá NASA: „Þetta er ekki lengur draumur heldur eingöngu spurning um tíma.“
Skoðanir vísindanna á fjarhrifum eru nú allt aðrar en þær voru á dögum dr. Helga og á síðari árum hallast virtir vísindamenn að því að tengsl séu á milli alls lífs í alheimi og áhrif (samband) geti verið milli lífvera í rauntíma (samstundis), hvar sem þær eru niður komnar.
Með vísan til ofanritaðs er einkar forvitnilegt að lesa kenningar dr. Helga Pjeturss í ljósi þeirra framfara í vísindum sem orðið hafa eftir hans daga.
Helgi Pjeturss (1872-1949) fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hann tók stúdentspróf þar árið 1891, og í janúar 1897 lauk hann magistersprófi í náttúrufræði og landafræði með jarðfræði sem sérgrein frá Kaupmannahafnaháskóla. Allur námsferill Helga var óvenju glæsilegur og við námslok tók hann þátt í rannsóknarleiðangri til Grænlands þar sem helsta viðfangsefni hans var fornar strandlínur og aðrar sjávarmenjar eftir ísaldarlok. Þar æfðist hann í að beita skarpri athyglisgáfu og brjóta hugsun sína undan viðteknum skoðunum og kennisetningum, en þessir eiginleikar einkenndu vísindastarf hans alla ævi.
Sumarið 1899 hóf Helgi samsvarandi rannsóknir á Íslandi sem leiddu til hans merkustu uppgötvunar í jarðfræði: að ekki hafi einungis verið eitt jökulskeið, og Ísland hafi mótast á mörgum kulda- og hlýskeiðum. Hann setti niðurstöður sínar fram í ritgerðinni Om Islands Geologi (Um jarðfræði Íslands) 1905 og var fyrir hana sæmdur doktorsnafnbót frá Kaupmannahafnarháskóla í desember sama ár.
Þar með var Helgi orðinn doktor í jarðfræði, fyrstur Íslendinga, og naut hann óskoraðrar virðingar sem slíkur, hérlendis sem erlendis, og var kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska náttúrufræðisfélags og einnig jarðfræðafélagsins danska, Dansk Geologisk Forening.
Snemma á 20. öld hóf dr. Helgi rannsóknir á eðli svefns og drauma sem leiddu til kenninga hans um samhengi alls lífs og efnis í alheimi. Hann taldi heimsfræðina vera sitt mikilvægasta viðfangsefni og allt til æviloka beindist allt hans vit og þrek að því að leysa þá stóru gátu.