Nýall er samheiti á meginritverkum dr. Helga Pjeturss sem hann sendi frá sér á árunum 1919 til 1947. Fyrst kom Nýall í þremur heftum árin 1919-1920 og 1922, síðan Ennýall 1929, Framnýall 1941, Viðnýall 1942, Sannýall 1943 og loks Þónýall 1947. Efni þeirra má greina í þrjá meginþætti, í fyrsta lagi greinar og ritgerðir almenns efnis sem birtust í tímaritum og blöðum heima og erlendis, en Helgi lét sér fátt mannlegt óviðkomandi. Í öðru lagi ritgerðir um jarðfræði sem var hans höfuðviðfang framan af ævi, og með öðru allt til æviloka.
Í þriðja lagi er sá hluti sem á vef þessum er kynntur, þ.e. kenningar, ályktanir og rökstuðningur dr. Helga við það sem hann nefnir á tiltilsíðum Nýals og Ennýals: „Nokkur íslensk drög til heimsfræði og líffræði.“ og „Nokkur íslensk drög til skilnings á heimi og lífi.“
Orðið Nýall merkir að eitthvað nýtt sé fram borið, samanber orðið ný(r) og síðari hluta orðsins annáll. Í eftirmála fyrstu bókarinnar, Nýall (The discovery of the way out) segir dr. Helgi m.a.: „Nýall er umfram allt, vísindaleg bók. Hann byggir á öllu því, sem best hefir stefnt í vísindum og heimspeki áður, og lagar og eykur við á þann hátt, að með honum hefst fyrst í sannleika öld vísindanna á jörðu hér.“
Eins og áður er sagt kom Nýall út í þremur heftum á árunum 1919-1920 og 1922, útgefandi Bókaverslun Guðmundar Gamalíelssonar. Ennnýall kom út 1929 hjá Félagsprentsmiðjunni, og Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar gaf út Framnýal 1941, Viðnýal 1942, Sannýal 1943 og Þónýal 1947.
Árið 1955 kom Nýall út á vegum Félags Nýalssinna í sex binda ritsafni. Og árið 1991 gáfu Skákprent og Félags Nýalssinna verkin út í miklu sex binda safni þar sem við var bætt úrvali ritgerða dr. Helga. Sú útgáfa er enn fáanleg, sjá „Kaupa Nýal“ hér á þessu vefsvæði.