Forsíða » Nýall » Hið mikla samband

Hið mikla samband

Það sem þúsundir milljóna hafa haldið vera líf í andaheimi eða goðheimi, er lífið á öðrum hnöttum. Þessi hugsun, sem segja má með svo fám orðum, verður upphaf meiri breytinga til batnaðar á högum mannkynsins, en orðið hafa um allar aldir áður.

III

Samband við aðrar jarðstjörnur, þ. e. a. s. vitverur á öðrum jarðstjörnum, er svo fjarri því að vera óhugsandi, að það er algengt. Það á sér til að mynda stað á hverjum miðilsfundi (andatrúarfundi). Það er eigi einungis, að á slíkum fundum tali verur á öðrum hnöttum fyrir munn miðilsins, heldur ber það við, að þær geti framleitt á fundinum einhvern svip eða líkingu af sjálfum sér. Öndungar halda, að slíkt séu sálir framliðinna, sem um stund geti tekið á sig líkama, fyrir einhvern sérstakan kraft miðilsins. En margir hafa þótst vissir um, að þessir líkamningar séu ekki annað en miðlarnir sjálfir, eða þá um skynvillur að ræða, eða jafnvel lygar fundarmanna. Nú mun þó sú skoðun vera að fá meira og meira fylgi, að verur þær sem hér ræðir um, hafi í raun og veru komið fram á miðilfundum. Enda er sannast að segja ekkert viturlegt að vantreysta eins og gert hefir verið, vitnisburði jafn framúrskarandi vísindamanns eins og Crookes er, sem vandlega hefir rannsakað líkamninginn „Katie King” og ýmsa þá fyrirburði sem á miðilfundum gerast. En af því mun ég segja nokkuð í annarri ritgerð.


IV

Að þessu sinni er það „egyptski” jötunninn sem erkidjákninn Colley er til frásagnar um, sem minnst skal á. Frásögn Colleys er þannig, að sá sem hefir náð dálitlum skilningi á þessum efnum, sér að hún er ekki tilbúningur. „Andi” þessi var 80 þumlunga á hæð (enska) og aflið eftir því. Mahedi kallaði jötunninn sig og kunni ekki ensku nema stundum. Mahedi er mjög líkt Mandi, en svo nefndu Múhamedstrúarmenn Messías sinn, sem þeir hafa verið að búast við stundum. Mandi minnir líka á orðið Mahatma, meistarana sem guðspekisinnar (þeósofar) hafa svo mikinn átrúnað á. Menn skilji mig ekki svo sem ég sé að segja að það sé sama orðið. En ég hygg, að þar sem þessir Mahatmas eru, sé um samskonar fyrirburði að ræða: líkamningar eða hamfarir þeirra, sem heima eiga á öðrum hnetti. Hefi ég enga trú á því, að „meistarar” þessir eigi heima í Himalayafjöllum, eins og ýmsir ætla. Má hér minna á hvernig Grikkir hugsuðu um tíma, að Zeus og fleiri guðir ættu heima á fjallinu Olympos í Þessalíu. Hér ræðir um skylda hluti. En það mun sýna sig, að það kemur af vanþekkingu þegar menn ímynda sér að „meistararnir” (og guðir fornmanna) séu ekki annað en hugarburður.
Það má sýna, að „meistararnir” (fyrirburðir eins og t.a.m. sá, sem stofnandi guðspekifélagsins H. S. Olcott segir frá í sínum mjög svo merkilegu endurminningum Old Diary Leaves, í, bls. 379-80), eru miðilfyrirburðir alveg eins og það sem menn telja líkamninga framliðinna. Og í fornöld voru samskonar fyrirburðir skýrðir á enn annan hátt. Þá sögðu menn að þesskonar líkamningar væru guðir sem kæmu niður á jörðina. Herodot segir (í, cap. 182) að prestarnir við hið mikla hof Baals í Babylon (það var 122 fet á hvorn veg) hafi sagt sér að guðinn Baal birtist stundum í herbergi hofgyðjunnar; og að slíkt gerist einnig á sama hátt í Þebuborg á Egyptalandi. Telur hinn gríski sagnaritari slíkt ótrúlegar sögur; en þó gæti verið um miðilfyrirburði að ræða, slíka sem minnst var á. Hofgyðjurnar voru miðlarnir. En það er spor í vísindaáttina, að sjá skyldleika fyrirburða, sem eru eins eða líkir í eðli, þó að menn hafi ekki nægilega veitt því eftirtekt.
Það virðist vera ekki óalgengt, að menn fái miðilsamband við Egypta eða Araba eða aðra Austurlandamenn, sem þeir ætla vera í öðrum heimi. Og er slíkt ekki svo mjög að furða. Dulrænumenn vorra tíma í Evrópu og Ameríku, hafa, eins og Austurlandabúar, mikla trú á því sem menn nefna hið yfirnáttúrlega, en hættir mjög við að gleyma því, að það hefir þó dálítið áunnist í náttúrufræði síðan á dögum FornEgypta. Menn gleyma Brúnó, sem ruddi braut hinni nýju öld með því að skilja, að óendanlega mörg sólkerfi eru til, önnur en það sem vor jörð er í. Engan fékk hann að vísu til að trúa sér fyrst; vann hann sér um sína daga ekki svo mikið sem fylgi eins manns. En hann fékk að heyra, að hann væri ekki með öllu viti, að bera fram aðra eins firru og þá, að fastastjörnurnar væru sólir.
Aldirnar síðan hafa fengið að súpa af því, hvernig samtíðarmenn Brúnós tóku kenningum hans og hvernig þeir léku hann. Því að ekkert er eins háskasamlegt til lengdar eins og að vera á móti sannleikanum. Það má sýna fram á það lögmál í mannkynssögunni, að í hvert skipti sem einhver þau sannindi sem mest miðuðu til umbóta, hafa verið lítilsvirt, þá dynja yfir hörmungaélin; eða svo að ég orði þetta eftir persneskum hugsunarhætti, þegar menn snúast á móti guði, þá á andskotinn leikinn. Yfirleitt er versta böl mannanna því að kenna að þeir hafa svo mjög haldið að hinir ágjörnu, drottnunargjörnu og grimmu, væru nú einmitt hin sönnu mikilmenni, og slíka hafa þeir hlaðið undir og tignað, og skapað sér kúgara og kvalara. En þeir sem voru á hinni réttu leið, hinir sönnu foringjar, mennirnir sem hafa fundið þá hluti sem mannlegar framfarir er mest að þakka, hafa vanalega verið lítils virtir og stundum leiknir mjög illa. Og eðlilegur ávöxtur þessarar skökku stefnu, er hin mikla styrjöld, þetta stærsta spor í vítisáttina (The infernal line of evolution) sem mannkynið hefir ennþá stigið. Vér getum sagt það með vissu, samkvæmt sögulögmáli því sem ég gat um áðan, að áður en snerist þannig á hina verstu leið, hafi einhversstaðar komið fram, en verið metin einskis, sannindi, sem meir miðuðu að því að skapa tímamót í sögu mannkynsins, en nokkur, sem áður hafa verið í ljós leidd á jörðu hér.

V

Ennþá eru menn ekki farnir að færa sér að fullu í nyt hugsanir Brúnós og það sem áunnist hefir síðan, með því að halda í þá átt sem hann benti best. Og þó virðist sumt af því liggja svo beint við; eins og t.a.m. þetta, að gera ráð fyrir því við miðiltilraunir (nota það sem „working hypothesis”) að sambandið sem fæst (því að það þarf ekki að efa að um samband er að ræða), sé við vitverur á öðrum hnöttum. Ef menn færu þannig að við tilraunir, þá mundi árangurinn verða meiri en nú, þegar heita má, að framfarirnar séu engar. Að vísu hefir allskonar dulrænu aukist mjög fylgi á síðari árum, en skilningi á fyrirburðunum hefir lítið þokað áfram, og ennþá munu þeir vera margir, sem ekkert vilja sinna slíku, og telja það ekki einu sinni rannsóknarvert. En á því ríður, eigi framfarir að geta orðið, að festa sig ekki í trú, sem aftrar rannsóknum. Láta sér ekki verða á slíkt sem kirkjunni forðum, er hún með því að hefta hugsana- og rannsóknafrelsið, stöðvaði þá framsókn í vísindaáttina, sem byrjuð var. Eina leiðin til að komast áfram, er að reyna og rannsaka. En mjög er hér vits þörf; þarf hér í mesta lagi að halda á hinni æfðu greind vísindamannsins. Og því fremur sem menn hafa hæfileikann til þess að vera ekki sannfærðir um það sem þeir mega ekki vera sannfærðir um, og svo á hinn bóginn til að sjá hvað er, þótt ótrúlegt virðist, því fremur er árangurs að vænta. Hér á landi munu þeir vera ekki svo fáir, sem gera smávegis miðiltilraunir; og ef þesskonar tilraunamenn kæmust á þá skoðun, að það væri að minnsta kosti ekki óskynsamlegra að leita sambands við íbúa annars hnattar, heldur en við íbúa andaheims, þá mundi eitthvað umtalsverðara en nú gerist, geta komið fram við tilraunir þeirra. Auk þess mundu tilraunirnar síður hafa hættu í för með sér. Ef vér leitum sambands við andaheim, þá fáum vér samband við tilverustig álíka slæm og hér á jörð, og þaðan af verri, tilverustig nefnilega, þar sem trúað er á andaheim; er það ekki gert, nema þar sem þekking er skammt á veg komin. — En að leita sambands við aðra hnetti, er í framfaraáttina. Því fullkomnara líf sem er, því meiri og margvíslegri eru samböndin. Menn beri saman sambandið sem er á milli apanna í Ameríku og Asíu, og sambandið milli mannfólksins austan hafsins og vestan, þó að sitthvað af því hafi snúist til hins verri vegar. En raunar er með því sem fjandsamlegt er, stefnt til sundrungar en ekki sambands.

VI

Það er ekki greitt aðgöngu, að trúa því sem segir af líkamsgjörvingum þeim eða líkamningum, sem verða á sumum miðilfundum. Enda virðist svo sem sumir viðstaddir, hafi ekki verulega trúað sínum eigin augum; og komið hefir það fyrir, að menn hafa flogið á þessa líkamninga, óbifanlega sannfærðir um, að þar væri miðillinn sjálfur á ferð. En því vandlegar sem málið er íhugað, því óárennilegra verður það að halda, að þarna sé ekki um annað að ræða en svik eða villu. Líkamningarnir hafa verið ljósmyndaðir og rannsakaðir vandlega af framúrskarandi vísindamönnum. Nægir þar að nefna öldunginn William Crookes, (f. 17. júní 1831) einn af skörungum náttúruvísindanna. Mun ég í annað skipti segja nokkuð af rannsóknum hans á því sem sumir nefna andatrúarfyrirbrigði. Sé ég ekki ástæðu til að efa, að verur þessar, sem nefna má líkamninga, hafi komið fram á miðilfundum. En mikið virðist mér á skorta að menn hafi skilið verur þessar rétt; menn hafa verið of fljótir á sér að skýra fyrirburði þessa í samræmi við eldfornar hugmyndir mannkynsins um anda og andaheim. Menn hafa haldið að ekki væri nema um tvennt að velja, annaðhvort að álíta að fyrirburðirnir ættu sér í raun réttri ekki stað, þar væri aðeins um svik og villu að ræða; eða þá að aðhyllast yrði andatrúarskýringarnar, og endurreisa í mjög verulegum atriðum hugsunarhátt miðaldanna. Þó skal þess getið, að það er hvergi sagt í því sem ég hefi séð tilfært eftir Crookes, að hann aðhyllist hina „spíritisku” skýringu á fyrirburðunum; það sem hann hefir fengist við, er að rannsaka hvort fyrirburðirnir ættu sér stað eða ekki. (Rit Crookes um þessar rannsóknir er hér ekki til, svo mér sé kunnugt, og hefir mér ekki tekist að ná í það ennþá).

VII

Allar rannsóknir á því sem menn hafa haldið vera andaheim hafa verið gerðar af lítilli þekkingu. Menn hafa ekki vitað, að miðilsástandið er í aðalatriði sama eðlis og vanalegt svefnástand, og draumheimur vor er hinn sami og andaheimur miðilsins. Beri menn á móti þessu, þá er það af því, að þeir hafa ekki ennþá rannsakað þetta efni nógu vandlega. Og jafnvel í vanalegum svefni virðist geta átt sér stað líkamning eða eitthvað í þá átt. Mjög merkilegu lögmáli, sem menn hafa ekki vitað af og mjög þarf að taka til greina við slíkar rannsóknir sem hér ræðir um, má að nokkru leyti lýsa þannig: áhrifin sem verða frá fundarmönnum (the sitters, sitjurunum) á miðilinn, ákveða áhrifin sem verða á miðilinn frá „andaheiminum”, ráða því hvaða “andi” fer í hann, og hvernig sambandinu verður háttað. („Andi” sem fer í miðil, er samskonar vera þeirri sem ég nefndi draumgjafa; draumlífið verður nefnilega, eins og ég hefi minnst á stuttlega í öðrum ritgerðum, fyrir þátttöku sofandans í meðvitund annarra, sem vaka; mun skamma stund verða um það deilt, þegar menn snúa sér alvarlega að því að rannsaka þetta mál).
Lögmál þetta sem lýst var að nokkru, hefi ég fundið með rannsókn á eðli drauma; og þegar það er fundið, fer margt að verða skiljanlegt, sem að vonum hefir þótt dularfullt. Eins og t.a.m. þetta, að það eru síður „vandamenn” miðilsins sjálfs heldur en „látnir vinir og vandamenn” sitjaranna, sem tala fyrir munn sofandi miðils. Vér hættum að furða oss á þessu, sem hinum alkunna andatrúarrithöfundi og miðli Stainton Moses gramdist svo mjög og þótti svo óskiljanlegt, að á fundum, þar sem hann var miðillinn, voru það ekki þeir „andar” sem hann þráði sjálfur að fá samband við, sem töluðu fyrir munn hans, og það sem andarnir töluðu um, voru ekki hans áhugaefni, heldur fundarmanna (sitjaranna). Vér skiljum hversvegna enskur eða amerískur miðill, sem kann ekki frönsku, talar þó frönsku í sambandsástandi, þegar Frakkar eru viðstaddir; hvers vegna miðill sem kann ekkert í indversku, talar í sambandsástandi indversku, þegar Indverji er viðstaddur o.s.frv. Ef menn kynna sér frásagnir af miðilfundum, munu þeir finna fjölda mörg dæmi þess, hvernig áhrif sitjaranna á miðilinn ráða því, hver það er sem talar fyrir munn miðilsins, og hvað það er sem talað er. Sambandinu er stjórnað af eðlisnauðsyn, en hitt er misskilningur, að „andarnir” geti farið í miðilinn eftir vild, til þess að tala við þá sem á fundinum eru.
Frægasta dæmið af þessu tagi er það sem sagt er frá postulasögunni. Segir þar, að postularnir „urðu allir fullir af heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla”. Hér er um samskonar fyrirburð að ræða eins og þegar miðlar sem kunna ekki frönsku eða indversku, tala þau mál í sambandsástandi. Einnig þeir tala eins og „andinn gefur þeim að mæla.” Og vér fáum að vita, að postularnir hafi talað einmitt mál þeirra manna sem viðstaddir voru; það er sagt að mannfjöldi hafi komið þar saman og brugðið mjög við „Því að þeir heyrðu, hver og einn, þá mæla á sína tungu.” Sagan er líklega sönn og ekkert því til fyrirstöðu að hún geti verið það.
Þá má enn minna á hin óheppilegu áhrif sem próf. Flournoy hafði á hinn ágæta miðil sem hann nefnir Helenu Smith; gæti bók Flournoys sem heitir Des Indes á la planéte Mars, „frá Indlandi til Mars” (en ætti að heita „frá Mars til Indlands”) orðið efni í ekki ófróðlega ritgerð. Helena Smith breyttist á eftirtektarverðan hátt eftir að Flournoy fór að vera á fundunum, og grunar prófessorinn ekki hvernig á þeim breytingum stendur. En sjálfur var hann valdur að breytingum þessum, með þeim hætti sem getið er um áður: fyrir áhrif frá honum (induktion) breyttust sambönd miðilsins, og sambandsástand. Indversku setningarnar t.d. sem H. Smith fór að koma með eftir að Flournoy fór að vera á fundunum, stóðu í sambandi við það að Flournoy hafði hlýtt á fyrirlestra um indversku.

VIII

Þegar menn fara að færa sér í nyt hinar nýju athuganir sem minnst hefir verið á í þessari ritgerð og öðrum, mun rannsóknum á því sem ýmsir nú hyggja vera andaheim, verða öðruvísi háttað en hingað til. Mun ég geta hér sumra þeirra breytinga sem ég hygg að verða muni, vegna þess að ég hygg að til gagns geti orðið, ef vel er þegið. Val á tilraunamönnum mun verða vandað betur en áður, bæði val á einstökum mönnum og samvalið. Menn hafa ekki sem skyldi gert sér grein fyrir þýðingu hvers einstaks sem á miðilfundinum er. Þeir sem taka þátt í slíkum tilraunum verða, a.m.k. nokkra daga áður, að neita sér um tóbak, áfengi og ket. Þeir verða að gera sér far um að ástunda rétta hugsun og góðgirnd. Yfirleitt munu þesskonar tilraunamenn leitast við að leggja stund á það sem miðar til samstillingar við fullkomnari tilverustig, en forðast hitt. Því fullkomnara tilverustig sem er, því betur er vitað, að eina leiðin til réttra framfara, er leið aukinnar þekkingar og aukinnar velvildar, og því betur er kunnað að fara þá leið.
Og einnig samvalið munu menn vanda betur, bæði þannig, að reynt sé að komast hjá því, að nokkrir séu þeir á fundinum sem hata eða fyrirlíta einhverja af tilraunamönnum, og eins að menn séu valdir saman eftir þekkingu, bæði tegund þekkingar og stigi. Eftir tegund þekkingar munu menn veljast saman þannig t.a.m., að á sumum fundum verði með miðlinum einungis grasafræðingar eða læknar eða stjörnufræðingar, dýrafræðingar, verkfræðingar, námufræðingar, jarðfræðingar o.s.frv. Þá munu menn breyta til um þetta ýmsa vegu og blanda t.a.m. þannig, að fundarmenn verði sumir námufræðingar en sumir jarðfræðingar ef menn vilja ná sambandi við þá í „andaheiminum” (eða réttara sagt: lífheimi annarra hnatta) sem frætt gætu um eitthvað sem til gagns gæti orðið við leit eftir nytsömum efnum. Og til þess að sýna að slíkt gæti orðið til nokkurs, má hér minna á, að 18 árum áður en stjörnufræðingar á jörðu hér vissu af Mars-tunglunum, hafði “andi”, þ.e. maður sem heima átti á annarri jörð, fyrir munn miðils, sagt enskum herforingja frá tunglum þessum. Vér fáum að vita, þar sem af þessu segir, að herforingi þessi hafi lagt stund á stjörnufræði; og þekking á lögmáli því fyrir miðilsambandi, sem áður var minnst á hefði komið oss til að gera ráð fyrir slíku, jafnvel þó að þessa hefði ekki verið getið.

IX

Menn munu, þegar þeir þekkja þau lögmál sem koma til greina, gefa nákvæmar gætur að því hvernig sambönd þeir fá sjálfir eftir miðilsamkomur, eða með öðrum orðum hvernig svefnvitund þeirra verður, hvað þá dreymir. Munu menn, þegar vel vegnar, geta fengið vitsamband við mjög merkilegar verur á öðrum hnöttum. Menn hafa kallað slíkt „astral travelling”, ferðir á stjörnusviðinu, og er nafnið mun réttara en sú þýðing sem í það hefir verið lögð, því að „astral-plan”, stjörnusviðið, þýðir ekki í dulfræðum lífheim annarra hnatta. Hafa menn haldið, og halda, að þeir „fari úr líkamanum” sem þeir kalla og væru þá á ferð á öðrum tilverusviðum. „Astralplan” samsvarar að miklu leyti því sem Swedenborg kallaði andaheim, mundus spirituum).
En það sem menn hafa haldið sína eigin sál, er hafi yfirgefið líkamann og sé á ferð í andaheiminum, er í raun réttri annar maður, sem aðra stjörnu byggir, og menn verða samvita við í svefni þannig að þeim finnst þeir sjálfir vera þessi annar maður; fer þeim líkt og hinum svafða, sem segir: því er verið að láta salt upp í mig, þó að það sé alls ekki hans tunga sem salt kemur á, heldur tunga svafnisins; hinn svafði er orðinn samvita eða samsála öðrum manni. Það er engin furða þó að mönnum verði ógreitt að átta sig á þessu, meðan þeir ástunda ekki að læra að athuga slíkt sjálfir. En þegar menn hafa áttað sig á þessu, þegar þeim er orðið ljóst að það á sér stað sem ég nefni bioinduktion, að einn líkami getur magnast af annars sál, svo að þeir verði samsála, sama „égið” í báðum, þá munu þeir sjá, hvernig vísindunum opnast svæði sem menn hafa haldið að engum vísindum yrði yfir komið. Mun hver uppgötvunin reka aðra, og hver annarri þýðingarmeiri fyrir mannlífið, þegar komið er á þessa leið. Eitt af því sem menn verða þá fljótir að skilja er það, hvers eðlis er sú tegund af vitveiki sem kölluð er paranoia. Ímyndanir hins ruglaða eru nokkurskonar draumar, sem eins og allir draumar, stafa af sálufélagi við annan mann. Það er nokkurs konar paranoia þegar hinn svafði finnur saltbragð ef salt er látið á tungu annars manns. Og líkt er það með ímyndanir hins vitveika, hann heldur að hann heyri og sjái það sem einhver annar sér og heyrir í raun og veru; og þegar vitveikin kemst á hæsta stig, heldur maðurinn að hann sé þessi annar. Því miður hefir vitveikralækna ekki grunað hversu merkilegt rannsóknarefni þeir höfðu til meðferðar; hafa þeir, sakir þess hve sálufræðin hefir búið illa í hendurnar á þeim, verið lækna ófróðastir á sínu sviði. En nú mun þetta fara að lagast. Mun þess ekki langt að bíða að byrjað verði að færa sér í nyt þær athuganir sem ég hefi gert og fleiri munu nú verða til að gera. Og sambandsfræðin eða magnanarfræðin mun líka kenna lækningaraðferðina. Þörfin á framförum í þessum efnum er mikil, því að brjálsemi, einmitt sú tegundin sem paranoia er kölluð, mun aldrei hafa orðið jafn algeng á jörðu hér og á þessum tímum.
Önnur veiki sem verður auðskilið hvers eðlis er, þegar menn vilja nota sér uppgötvanir þær sem hér ræðir um, er hysterían, móðursýkin, sem svo er mjög rangnefnd. Veiki þessi byrjar oft þannig, að manninn dreymir að hann verði fyrir áverka eða slasi sig og svo haldast verkirnir þegar hann vaknar, þó að ekki verði séð að neitt sé að líkamanum. Skýringin er sú, að maðurinn fær þátt í veru einhvers sem er veikur eða meiddur, verður honum samsála; þjáningar hins „hysteriska” eru „induceraðar” af þjáningum einhvers annars.
Fróðleg athugun þessu til upplýsingar er í ritgerð eftir Mary Monteith, sem heitir Communication by telepathy; 19. century and after, sept. 1918. Segir þar s. 510 frá því hversu ungfrú M. fær snöggvast handarverk og verður handlama, og hefir jafnframt þessu mjög eindregið hugboð um að kunningi hennar sem var í hernum hafi særst. En daginn eftir kemur bréf frá þessum kunningja hennar þar sem getið er um að hann hafi særst líkt og tilkenning sú sem hún hafði fengið í höndina sagði til um. Þetta var ekki nema snöggvast sem miss M. fann til og varð handlama; en þó er það, ásamt athugunum á svöfðum, sem finna til ef svafnirinn er klipinn eða brenndur, vel lagað til að skýra hvernig staðið gæti á „hysteriskum” lömunum og þjáningum. Á þýsku mætti segja: Sowohl Hysterie als Paranoia sind Induktionskrankheiten; die Paranoia eine Induktionspsykose, die Hysterie eine Induktionsnevrose.

X

Sumir sem ég hefi átt tal við um þessi efni, hafa verið hræddir um, að trúnni á framhald lífsins væri mjög alvarleg hætta búin af því að setja fyrirburði, sem margir hyggja stafa frá andaheimi, í samband við íbúa annarra hnatta. En þetta mun reynast mjög á hinn veginn. Ekkert greiðir eins fyrir skilningi í þessum efnum og uppgötvun þess sem ég nefni bio-induktion. Með tilraunum, sem menn höfðu þó ekki látið vitkast af eins og mátti, hefir verið sýnt að það má eins og hleypa sál eins manns á annan, eða réttara sagt „inducera” sál eins manns í öðrum; af þesskonar tilraunum og öðrum athugunum má oss ljóst verða, að hver maður leitast ósjálfrátt við að setja sinn snúð á alla aðra, eins og „hlaða” þá með sjálfum sér, eigi einungis hugsunum sínum og tilfinningum, heldur með hverri sinni lífshræringu, vitaðri og óvitaðri, þó að þessu verði lítt framgengt nema þegar sérstaklega stendur á; ennfremur er það kunnugt orðið — og þar er sú uppgötvun sem meir en nokkur önnur sem gerð hefir verið, miðar til að færa út vit mannkynsins — að vér fáum í svefni meðvitund þeirra sem aðrar stjörnur byggja; og loks má nú vita, að andamiðilsambandið er sama eðlis og það samband meðvitundanna sem draumar verða af. Allt þetta sem talið var gerir það skiljanlegt að sál mannsins getur varðveitst þó að líkaminn líði undir lok. Og vér getum jafnvel hugsað oss, hvernig sá sem dáinn er eða framliðinn, eins og er svo merkilega að orði komist, geti komið fram á annarri stjörnu. Er það forn trú, að sálin, eða sumar sálir, lifi eftir dauða líkamans á annarri stjörnu, eins og Platón getur um; segir hann að sál þess manns sem vel hefir lifað, fari aftur að byggja þá stjörnu sem henni er skyld. Timaios, 42, B (palin eis ten tou synnomou porevþeis oikesin astrou). Er þessi kenning merkileg, og ennþá merkilegri vegna þess að Platón vissi ekki að fastastjörnurnar eru sólir og hafa sér aðrar jarðir að fylgihnöttum. Mjög eftirtektarvert er það að Platón tekur fram að stjarnan hafi sama lögmál og sálin sem fram líður þangað, og verður allt þetta oss miklu skiljanlegra nú er vér vitum að sólkerfin eru mjög mörg önnur en vort, og að eigi einungis er aðdráttarsamband milli hnattanna, heldur einnig lífsamband milli þeirra sem þá byggja. Það þarf ekki að efa, að þessi forna trú er ekki á engu byggð, og þýski spekingurinn Herder (1744-1803) var þeirrar trúar. En nú fer að líða að því, að í þessum efnum geti komið vísindi í trúar stað.
Verður hin forna gríska speki ennþá merkilegri þegar hún er rétt upp tekin, og framhaldið fundið.

XI

En á þá leið sem nú segir mætti gera grein fyrir því að sál manns sem dáið hefði á jörðu hér, gæti tekið á sig líkama á annarri stjörnu. Eins og ég hefi minnst á, þá er „anda”miðillinn í sambandi við mann á öðrum hnetti, þannig að honum finnst hann vera orðinn að þessum manni; hann er „hlaðinn” eða magnaður af honum. Þegar þessi magnan af veru annars er komin á nógu hátt stig getur hin magnandi vera, sambandsveran, framleitt eitthvert líki af sér sjálfri eða ham, líkan ham sér, þarna sem miðillinn er. Vér getum nú hugsað oss, að þessi hæfileiki til að taka við veru annars, láta hlaðast eða magnast af hverri hans lífshræringu, vitaðri og óvitaðri, sé hjá þroskaðri verum en mennirnir eru á jörðu hér, kominn á miklu hærra stig, og að fyrir þesskonar magnan geti framliðnir líkamast á öðrum hnöttum, á fullkomnari hátt en líkamningar hafa orðið á jörðu hér. Undirstaðan undir slíkum tilgátum — og sú undirstaða mun ekki haggast — er uppgötvun þess, að samband við verur á öðrum hnöttum, á þann hátt sem ég hefi getið um, er lífslögmál (a biological law). Og ef til vill mun framtíðin segja, að merkilegra lögmál hafi aldrei verið fundið. Þeir sem halda, að ég sé að fara með einhvern heilaspuna, sem ekki sé óhætt að treysta, munu reka sig á það fyrr eða síðar, að villan er þeirra megin.

XII

Hinir framliðnu sem menn halda að þeir hafi fengið samband við á miðilfundum, eru ef til vill stundum líkamningar á öðrum hnöttum, þannig til komnir sem gefið var í skyn. Væri þá sambandið við sál hins framliðna í eigin líkama. En oft virðist vera um annað að ræða; sambandið sem miðillinn fær, virðist vera við geggjaðan mann á öðrum hnetti, mann sem hefir „paranoia” og heldur að hann hafi lifað á jörðu hér og dáið, og sé nú í öðru lífi. Hinn brjálaði hefir, ef þetta er rétt, fengið meðvitund einhvers sem dáið hefir á jörðu hér, og heldur að hann sé þessi maður. En að vísu væri þó einnig þesskonar samband sönnun fyrir því, að sál framliðins væri ekki liðin undir lok, þar sem hinn brjálaði maður sem miðillinn verður samvita við, væri geggjaður einmitt af því að hann hefði hlaðist af sál framliðins, og fengið meðvitund hans, og héldi að hann væri þessi framliðni. Þesskonar brjálsemi, að menn halda að þeir séu dánir og komnir til annars heims, er einnig til á jörðu hér; það er eins og sambandsástand “anda”-miðils væri orðið „krónískt”, langvinnt.
Það sem rita mætti þeirri skoðun til stuðnings að andar framliðinna sem menn halda að þeir fái samband við á miðilfundum, séu stundum í raun réttri vitfirringar á öðrum hnetti, væri yfrið efni í sérstaka ritgerð; verður hér ekki talið nema sumt af því.
Ein af bókum Staintons Mosesar, eins af merkustu rithöfundum öndunga, heitir Spirit teachings, andakenningar; kveðst höfundurinn hafa ritað ósjálfrátt, og að því er hann hyggur, fyrir áhrif anda. Bókin er fróðleg, og þó að ekki megi ætla að það séu beinlínis skoðanir „andanna” sjálfra sem ritaðar eru, þá mun þó ýmislegt vera nær átt, og sumstaðar virðist mega ráða í, til hvers stefnt er með þeirri hugsun sem Moses er í sambandi við, og aflagast hefir í meðförum hjá honum. Segir í riti þessu bls. 243, að það séu til vanstilltir andar sem komi fram á miðilfundum eins og þeir væru hinir látnu ættingjar sem menn koma á fundina til að ná sambandi við; segir svo að flestar sögurnar af framliðnum vinum sem eigi að hafa komið þannig aftur og talað fyrir munn miðils, sé að rekja til áhrifa frá slíkum öndum.
Eftir því sem mér skilst, er hér síður um glettur að ræða af “andanna” hálfu, heldur en hitt, að sambandið sé við ruglaða menn, eins og áður var að vikið. Í bókinni Raymond eftir Sir Oliver Lodge, er sagt frá athugunum sem skýra þetta betur. Er það haft eftir „Raymond” (bls. 264), að hann sé í stað nokkrum á fimmta sviðinu, og komi þar í nokkurskonar musteri, þar sem menn eru í ýmislega litu ljósi. Ræðir hér, að því er mér virðist, um ljóslækningastofnun fyrir vitfirringa. Segir Raymond, að það ljós sem sé notað til andlegra lækninga (actual spiritual healing, þ.e.: til að fá af mönnum óráðið), sé blátt. Bláa ljósið virtist laða mig meir en aðrar ljóstegundir, segir hann, og þegar ég hafði verið í því nokkra stund, fann ég að ekkert var mikilsvarðandi annað en það að búa sig undir andlega lífið (that nothing mattered much except preparing for the spiritual life). Það er ekki við því að búast, að slíkt komi réttar en þetta, fyrir munn miðilsins. En það sem um ræðir virðist vera þetta, að þegar óráðið fer að renna af „Raymond”, fyrir áhrif bláa ljóssins, þegar hann hættir að halda að hann sé Raymond Lodge, hermaður sem hafi fallið og sé nú í öðru lífi, þá fær hann aftur sinn fyrri áhuga á lífinu þar sem hann er, en sér, að hitt sem hann var að ímynda sér, var ekki annað en höfuðórar. Andlega lífið, the spiritual life, er hann nefnir svo, er lífið á hnettinum, þar sem þessi maður á heima.
Framhaldið kemur vel heim við þessa skýringu. Segir „andinn” þar, þessi sem menn halda að sé Raymond Lodge, að þegar hann sé þannig breyttur orðinn fyrir áhrif bláa ljóssins, þá sé hinn gamli Raymond eins og orðinn mjög fjarri, og finnst honum þá (þegar hann hugsar um Raymond), að hann sé eins og að hugsa um líf einhvers annars, sem hann hafi ekki haft mikið samband við, en hafi þó verið settur í samband við hann (eða tengdur við hann — as though he was looking back on someone else’s life, someone I hadn’t much connexion with and yet who was linked on to me). — Þetta eru eftirtektarverð orð, og mjög skiljanleg eftir þeirri kenningu, sem hér er verið að halda fram: Þegar „andinn” hugsar um Raymond, þá er eðlilegt að honum finnist hann vera að hugsa um einhvern sem hafi verið sér mjög fjarri, þar sem hann er að hugsa um mann sem lifað hefir á öðrum hnetti.
Og að hann talar um að Raymond hafi þó verið settur í samband við sig (festur í sig, linked on to me), er einnig mjög skiljanlegt, þar sem framleidd (induceruð) hefir verið í honum meðvitund þess manns, sem lifað hafði á öðrum hnetti. Og framleidd ef til vill einmitt fyrir áhrif frá miðilfundi.

XIII

Miðilfundir eru aflstöðvar, sem eigi einungis verða fyrir áhrifum frá öðrum hnöttum, heldur hafa einnig áhrif yfir um geimdjúpið, til hnatta sem eru í billjóna mílna fjarlægð. Í bókinni um Raymond er athugun sem virðist geta verið fróðleg í þessa átt; bls. 212 segir að á fimmtudagskveldum verði Raymond að syngja sálma (he has to sing hymns), og er gefið í skyn að honum falli það ekki vel. Vér fáum að vita, að á fimmtudagskveldum séu haldnir fundir hjá miðlinum frú Leonard, og að þar séu sungnir sálmar. Og er sagt að Raymond og annar „andi” til, taki undir með. Indeed, a most remarkable case of being „linked on”, eins og segja mætti á ensku, og er þetta hér sagt, af því að það er svo vel fallið til að skýra hvað þýða orðin „linked on”, sem höfð eru eftir Raymond, og talað var um áðan. Virðist þarna í sannleika vera um mjög merkileg fjaráhrif að ræða; miðilfundurinn hefir svo mikið vald á þessum manni á öðrum hnetti, sem þeir halda að sé hinn framliðni Raymond; hans vera er orðin svo háð þessari aflstöð sem miðilfundurinn er, að þegar þeir syngja þar á fundinum, þá verður þessi maður í billjóna mílna fjarska að syngja með.
Það virðist afar undarlegt þetta, að menn skuli héðan af jörðu geta valdið brjálsemi á öðrum hnöttum, í billjóna mílna fjarska. Og þó má sýna fram á miklar líkur til þess að þetta sé þannig. Og af öndungaritum má sjá, að sumir menn hafa lagt mikið kapp á að hafa áhrif á hina framliðnu í andaheiminum, sem þeir hyggja vera, og haldið, að með því væru þeir að vinna þarft verk. Þeir segja nefnilega, að það sé svo algengt að andarnir viti ekki hvar þeir eru, og neiti því að þeir séu framliðnir menn, sem áður hafi lifað jarðnesku lífi. Er um þetta efni margt fróðlegt í bók Peebles: Demonism of the Ages and Spirit Obsession 10. ed. 1904. H. Forbes Kiddle hefir þar ritað kafla, sem hefst á bls. 339, um það sem hann kallar sitt Rescue Work in the Borderland of the Invisible World, eða björgunarstarf nálægt landamærum hins ósýnilega heims. Hann getur um hvernig Th. Atwood hafi verið beðinn um að halda fundi eða nokkurskonar guðsþjónustur fyrir íbúa andalandsins; hafi Atwood gert þetta árum saman, og sjái stundum, af því að hann er skyggn, að áheyrendur hans séu mjög margir. Segir Atwood að mjög oft hafi „andarnir” enga vitneskju um að þeir séu sálir framliðinna; sér hann þá stunda ýmiskonar vinnu, eins og fólk á jörðu hér; en smátt og smátt tekst þó að fá þá til að fara að muna eftir jarðlífi sínu, og verður stundum að hafa mikið fyrir því að vekja jarðlífsendurminningar andanna. Það sem mér virðist líklegast er að þarna sé í raun réttri verið að segja frá því hvernig menn á öðrum hnöttum eru gerðir brjálaðir. Kiddie segir (bls. 342) að hann hafi verið beðinn að halda í upphafi miðilfundar, ræður yfir öndunum. Segir hann að í sýn miðilsins, virðist Kiddle stundum standa á götunni er hann flytur ræðuna, en stundum í nokkurskonar ræðusal. Atwood segir hann hafi séð einu sinni þegar hann var að predika fyrir öndunum, að hann var staddur í stórri kirkju. Þetta mun koma af því að Atwood hefir vitsamband við einhvern sem er að flytja ræðu í slíku húsi, og finnst honum hann vera þessi maður; þetta er nokkurskonar paranoia. Maðurinn sem miðill Kiddles sér vera að tala á götunni, er auðvitað ekki Kiddle, heldur einhver sem sambandsvera miðilsins sér. Kiddle segir frá því bls. 362, hvernig miðill hans sér götu í einhverri borg; maður er þar fyrir utan stórt hús, og er að reyna til að vekja fólkið. Fundarmenn segja þessum manni, að hann sé dáinn og kominn úr líkamanum; en hann setur þar þvert nei fyrir. En eftir nokkra stund hrópar hann: hvar er húsið mitt? Ég sé það ekki. Það er horfið. Hvar er ég? Þeir þarna á miðilfundinum segja honum aftur að hann sé í andaheiminum. Þarna virðist vera nokkuð fróðleg saga af því, hvernig miðilfundur fer að hafa mjög óheppileg áhrif á mann á öðrum hnetti. Það sem miðillinn sér síðast til þessa „vesala anda” er að hann virðist hafa hniprað sig saman í einhverju skoti.

XIV

Af öllu því, sem ég hefi séð um þessi efni, eru athuganir Swedenborgs fróðlegastar. Getur hann oft um, að íbúar andaheimsins viti ekki að þeir séu sálir framliðinna. „Andarnir halda allir,” segir hann (Diarium spirituale 207. gr.) „að þeir séu menn, og þeim rennur í skap ef þessu er mótmælt; þeir ímynda sér að þeir hafi augu, eyru og önnur skilningarvit slík sem menn hafa. Og þegar ég var að segja þeim og sýna þeim fram á, að þetta gæti ekki verið þannig, þá varð þeim einhverra hluta vegna gramt í geði.” Og ennfremur segir Swedenborg (Diar. spir. VII. bls. 103) „oft hefi ég orðið eins og að þræta við andana, því að þeir halda að þetta sem þeir sjá og snerta á, sé líkamlegs eðlis (materialía)”; kveðst Swedenborg hafa reynt á marga lund að sannfæra „andana” um að þar sem þeir ættu heima, væri allt andlegt en ekkert líkamlegt.
Því verður ekki neitað að þeir eru býsna fróðlegir viðkynningar þessir „andar”, sem láta sér aldrei koma til hugar að þeir séu “andar”, og halda því fast fram, að það sem menn hér á jörðu hafa haldið og halda ennþá vera andaheim, sé einmitt ekki andaheimur.
Og hversu merkilegar þær eru, þessar meir en hálfrar annarrar aldar gömlu athuganir Swedenborgs, þessar „ímyndanir” sem voru svona alveg þveröfugt við það sem hann ímyndaði sér. Þessi sannfæring spekingsins um það, að rétt væri að dæma eftir því sem trúarbrögðin kenndu um verur þessar sem hann átti tal við, en taka ekkert mark á því sem þær sögðu um sig sjálfar, var alveg óbifanleg. Og þessi undarlega sannfæring, að manni á jörðu hér mundi vera kunnugra um þessar verur, en þeim sjálfum, er ekki lítið fróðlegt dæmi þess, hvílíkur þröskuldur fyrirframsannfæringar geta orðið á veginum til þekkingar. Og mun þar jafnvel vera brekkan nokkuð brött ennþá, sú sem eftir er. Beini ég máli mínu til fyrirframsannfærðra af ýmsu tagi, eigi einungis til þeirra sem geta ekki hugsað sér að „andar” séu neitt annað en andar, heldur einnig til hinna, sem eru svo langt frá því að halda að „andar” séu andar, að þeir eru þess fullvissir, að það sem trúmenn af hinni tegundinni tákna með því nafni, sé ekkert annað en heilaspuni, athuganir slíkar sem Swedenborgs, ekkert annað en höfuðórar ruglaðs manns. Hið fyrrnefnda, mætti með nokkrum sanni kalla prestasannfæringuna, hið síðarnefnda læknasannfæringuna. Þykir mér ekki ólíklegt að það verði læknarnir, sem yfirleitt láta fyrr af röngum ímyndunum í þessu efni, því að þeir eru skoðunarinnar menn, fremur en prestarnir. Því síður sem menn kunna sjálfir að sjá, því erfiðara er að eiga við fyrirframsannfæringar þeirra eða præjudicia. Og þó má í sögu vísindanna finna margt dæmi þess hversu erfiðir jafnvel skoðunarinnar menn, náttúrufræðingar af ýmsu tagi, hafa verið gagnvart nýjum sannindum, og þeim sem fundu einmitt þau sannindi sem öðrum fremur opnuðu nýja útsýn og ný starfsvið. „Die Richtigkeit grosser Entdeckungen wird anfangs meistens bestritten”, segir hinn mikli eðlisfræðingur og heimsfræðingur Svante Arrhenius.
Ég tel það ekki efamál, að réttara muni að hafa fyrir satt það sem „andar” Swedenborgs sögðu um sig sjálfir, heldur en það sem spámaðurinn sænski hélt um þá. Sé ég enga leið til að komast hjá þeirri ályktun, að þessar verur, sem kváðust ekki vera andar og ekki eiga heima í andaheimi, heldur þar sem er sjór og land og fjöll og flatlendi, líkt og á jörðu hér, hafi verið íbúar annars hnattar eða annarra hnatta. Má nú vel skilja, hvernig Swedenborg gat fundist sem hann liti augum það sem í raun réttri gerðist á öðrum hnetti, þó að hann héldi að það færi fram í andaheimi. Þegar Swedenborg kveðst hafa verið staddur á hæð nokkurri í hinum andlega heimi, þá er þetta þannig að skilja, að sálufélagi Swedenborgs eða sýngjafi (sbr. draumgjafi) var staddur á hæð nokkurri á annarri stjörnu, og fannst Swedenborg sem hann væri þessi maður og sæi það sem þessi íbúi annarrar stjörnu sá, eins og t.a.m. þennan „engil” sem spekingurinn segir hafa verið þar á flugi; er það eitt til marks um vit hins ágæta Svía, að í hans vitrunum koma aldrei fyrir englar með fuglsvængi út úr bakinu, heldur eru þeir annaðhvort í „flugvögnum”, eða svífa í loftinu af eigin rammleik. Er slíkt nú ekki dularfullt framar; en vísindin þó furðulegri miklu en dulfræðin.
Swedenborg komst ekki á vísindaleiðina í þessum efnum. Nær henni komst hann að vísu en nokkur spámaður á undan honum; en flest af því sem hann athugar, hyggur hann sé í andlega heiminum. Og jafnvel þar sem hann talar um lífið á öðrum hnöttum, er hann ekki kominn á vísindaleiðina, því hann heldur alltaf að það séu andar á öðrum hnöttum sem hann hefur samband við. Og vegna þessarar trúar fer allt hið merkilegasta fram hjá honum. Misskilningurinn gerir þoku og sjónhverfingar, en því meira sem er af réttum skilningi, því meira er að sjá. Hver ný athugun er leið að mörgum öðrum, hver góð hugsun leið að annarri betri.
En það sýnir vel hversu erfitt er að komast á rétta leið í þessum efnum, að annar eins vitringur og Swedenborg var, skyldi aldrei láta sér koma til hugar hið rétta, þó að „andarnir” segðu honum berum orðum — tækist að „koma því í gegn” einmitt af því að vitringur átti í hlut — að þeir væru menn á öðrum stjörnum. Og gremjan sem Swedenborg kveðst hafa orðið var við hjá þessum íbúum „andaheimsins”, er hann var að reyna að sýna þeim fram á, að þeir væru andar, en ekki það sem þeir sögðust sjálfir vera, kynni að standa í sambandi við það, að þessum íbúum annarra hnatta hafi ekki staðið alveg á sama, er þeir sáu hvernig mistókust tilraunir þeirra til þess að hjálpa einum af vitrustu íbúum jarðar þessarar til að uppgötva hin merkilegustu sannindi. Ef til vill hafa sumir, hinumegin við geimdjúpið, sem ekki voru nógu langt komnir, gert sér vonir um það, fyrr en ástæða var til, að orðið gæti á jörðu hér hin mikla breyting, sú vitkun sem fær mannkyn eins hnattar til að taka hina réttu leið. Hverfa frá vítisleiðinni, the infernal line of evolution, glötunarveginum, sem langa hríð er varðaður af minningamerkjum stærri og stærri styrjalda, en taka the life line of evolution, lífsins leið, sem liggur til samtaka fyrir allt mannkyn á jörðu hér, og síðan fyrir allt líf í öllum heimi. Má hér minna á að nokkru fyrir miðja 15. öld hafði spekingurinn Nikulás Cusanus spáð því að endurkoma Krists mundi verða einmitt um það leyti sem Swedenborg fór að fá samband við andaheiminn sem hann hugði vera, og sneri sér frá námufræðinni og „heimspekinni” að „himinspekinni”.

XV

Saga þekkingarinnar á jörðu hér er að mjög miklum og merkilegum hluta sagan af því hvernig tókst að leiða í ljós ávallt margbrotnara og ávallt víðtækara samband. Hugsum oss framsóknina til þekkingar, frá því mannleg meðvitund fer fyrst að gera sér grein fyrir þessum undarlegu, blikandi ljósdeplum á himinhvolfinu, sem vér nefnum stjörnur; hvernig hver þekkingarauki er aukin þekking á sambandi. Fundur aðdráttarsambandsins milli himinhnattanna, sem hverju barninu er nú kunnugt um, hefir oft verið talinn stærsti sigurinn sem mannlegt hyggjuvit hafi unnið; og síðan hafa menn fundið aflsamband af enn öðrum tegundum. Þá er uppgötvun sambandsins milli líftegundanna á jörðu hér, skyldleikans milli allra hinna margvíslegu dýra og jurta, skilningurinn á því, hvernig lífið hefir um milljónir alda streymt áfram á jörðu vorri, í fjölbreyttum myndum, án þess nokkurntíma slitnaði sambandið. Svo ólíkan svip sem lífið hefir haft á jörðu hér á hinum ýmsu jarðöldum, þá er þó alltaf um foreldri og niðja að ræða, kynslóðasambandið óslitið. En erfiðlega veitti að skilja þetta, og þó ennþá erfiðlegar að fá aðra til að skilja það. Vill svo verða um þær uppgötvanir sem mest miða til að breyta mannlegri hugsun. En engin uppgötvun sem gerð hefir verið, hefir eins miðað til að breyta mannlegum hugsunarhætti og sú, sem helst er efni ritgerðar þessarar. Kemst ég hér líkt að orði og þegar menn kalla það eina uppgötvun að finna nýtt meginland. Er það sambandsuppgötvun í mesta lagi sem hér ræðir um, aukin þekking á sambandinu milli himinhnattanna og milli lífmyndanna, lífsambandið milli hnattanna, das bioradiative Aufeinanderwirken der Lebewesen, auch von Stern zu Stern eins og ég hefi nefnt það í ritgerðinni „Á annarri stjörnu”. En margt hefi ég fundið á rannsóknarleið síðan það var ritað, þó að smávegis en nokkuð þrálátar þjáningar hafi illa tafið mig og dregið úr mætti mínum.

XVI

Saga þekkingarinnar sýnir ennfremur, hvernig hillt hefir undir það í þoku fornrar trúar og fornrar speki sem síðar verður að vísindum og vissu. Má nú glöggt skilja hvernig á þessu stendur. Er nú ljóst hvernig trú manna er upp komin (religio), allar þessar undarlegu og merkilegu hugmyndir um efni sem þekkingin var ekki farin að ná til. Uppgötvun lífsambandsins milli hnattanna gerir slíkt ljóst; trú og forn speki eiga upptök sín í vitsambandi við verur lengra komnar að þekkingu en mennirnir eru á jörðu hér. Er þetta, fljótt á að líta, talsvert líkt opinberunarkenningunni gömlu (þó að munurinn sé raunar meiri en á því sem Anaxímander kenndi og Darwin, um uppruna mannkynsins) og einmitt gott dæmi þess hvernig fyrst er trúaratriði það sem síðar, í talsvert breyttri mynd, getur orðið að vísindum.
Trúarhöfundarnir, þeir menn sem helst skapa trúarhugmyndirnar, eru bioinduktivt í nánu sambandi við mjög merkilegar verur, sem þeir nefna stundum föður. Svo náið getur sambandið verið, að slíkur maður segir: ég og faðirinn erum eitt. Á líkan hátt gæti sagt hinn svafði (hypnotiseraði), sem fengið hefir skynjan, tilfinning og hugsun svafnisins, svo að honum finnst hann vera svafnirinn: ég og svafnirinn erum eitt; og enn gæti hinn sofandi sagt: ég og draumgjafinn erum eitt; því einnig sofandinn hefir fyrir „bioinduktion” fengið sál annars manns og finnst hann vera þessi maður. En þó að sambandið milli trúarhöfundarins og guðsins sé svona náið, þá aflagast hugsanirnar mjög er þær koma fram í hinum ófullkomnari heila; og lögmálin fyrir þessum breytingum getum vér einmitt fundið með því að rannsaka eðli drauma.
Sé lífsambandið við hina æðri veru ekki eins náið, en sjálfstarfið aftur meira, þá koma fram þeir menn sem skapa heimspeki. Má aftur skipta þeim í flokka; eru sumir þeirra skyldir mjög í eðli trúarhöfundunum, eins og Pyþagoras, Platón og á síðari tímum Hegel; en aðrir fjarskyldari, eins og Demokritos, Aristoteles og Spencer.
Það er stórfróðlegt verkefni að rannsaka fyrirboða þekkingarinnar í kenningum slíkra manna og mun um slíkt margt verða ritað síðar, þó að hér sé á fátt eitt minnst. Pyþagoras talar um samstillingu (samsöng) hnattanna, harmonia tón sfairón. Hjá spekingnum gríska er þetta dulfræðikenning. Meir en 2000 árum síðar talar einnig Kepler um samstillingu hnattanna. En þessi ágæti vitfrömuður kemst á vísindaleiðina með því að finna lögmál þau sem við hann eru kennd. Ennþá meira af dulfræðikenningunni um samstillingu hnattanna verður að vísindum þegar Hooke og Newton finna aðdráttarsambandið milli hnattanna og lögmálið fyrir því. Og loks er nú, með því að finna lífsambandið milli hnattanna, stigið stærra spor en nokkurt áður, til þess að setja vísindi í dulfræði stað. Með þeim uppgötvunum sem þar koma til greina, hefst af alvöru vísindaöldin á hverjum hnetti. Mætti margt og fróðlegt um það rita hve mjög mannleg viðleitni hefir stefnt að þessari uppgötvun á lífsambandinu, enda er til mikils að vinna, því að vísindalegur skilningur í þessum efnum mun gjörbreyta högum mannkynsins, og má vel heita upphaf nýrrar jarðaldar.

XVII

Emanations- eða útstreymiskenningin, er á þá leið, að allt hið orðna sé framkomið fyrir nokkurskonar útstreymi frá æðstu veru; séu tilverumyndirnar því ófullkomnari, því lengra sem þaðan er komið. En sú speki er komin upp þar sem sakir heiðríkju eða hálendis eða hvorstveggja, var gott til sambands við æðri verur. Og í sinni bestu mynd mun hún upprunnin vera á Asíuhálendi, þar sem Íran hefir kallað verið, ekki alllangt frá Indlandi, einmitt á þeim stöðvum sem óx upp toppur mannkynsins, og beinast greri í hugunum að hinu fegursta og fullkomnasta máli. Megum vér vel skilja, þegar oss er kunnugt orðið, að hver lifandi vera geislar frá sér nokkurskonar krafti (bioradiation), og leitast við að framleiða sjálfa sig í öðrum verum (bioinduktion), að í slíkum kenningum fornra spekinga, er stefnt í áttina að mjög merkilegum sannindum. Vér verðum að hugsa oss óendanlegan verund (ég hefi þetta orð karlkyns; það hefir ef til vill verið af svipuðum ástæðum sem Empedokles segir sfairos en ekki sfaira) og einmitt af því að hann er óendanlegur, bætir hann alltaf við sig. Hinn fullkomni verundur hrindir frá sér því sem er ófullkomið, því sem snúist getur til ills, verðimegund hins illa. Þannig kemur fram hyle grískrar speki, efni heimsins. En saga heimsins er þannig, að hinn fullkomni verundur leitast við að framleiða sjálfan sig í hinu ófullkomna efni, snúa hinu ófullkomna til fullkomnunar. Saga heimsins er endanlegur þáttur í tilveru, sem er óendanleg. Og vér getum nú, með því að meta réttar forna speki og styðjast við hinar nýju athuganir, sem gerðar hafa verið, fengið betra yfirlit en áður yfir þessa sögu. Hið ófullkomna getur ekki nálgast hið fullkomna og þess vegna verður á hinn veginn: til þess að gera „efnið” sér líkt, það sem er svo ófullkomið, að grískir spekingar nefndu það „to me on”, það, sem ekki er, verður hinn fullkomni verundur að lúta að því, nálgast ófullkomnunina. Nevsis-lögmálið mætti ef til vill kalla þetta. Geislunin frá hinum fullkomna til „efnisins”, framleiðir ekki þegar í stað hann sjálfan, heldur hrindir „efninu” fram á leið verðandinnar og kemur fram sem kraftur í ýmsum myndum; magnast þá „efnið” og fer að taka breytingum; aðdráttaraflið verður til, hiti og ljós, heimsþokurnar koma fram og sólkerfin, eða réttara sagt sólhverfin, fara að skapast. Og seinna, þegar sögu sólhverfanna er nógu langt komið, kemur geislunin frá hinum fullkomna fram sem líf á hinum kólnandi hnöttum. Örlítilli ögn af hinu líflausa efni, er fyrir tilkomu kraftarins snúið til lífs, og hefst þar hin merkilegasta saga. Hinn geislandi kraftur er alltaf hinn sami, en efnið sem fyrir geislaninni verður, magnast lengra og lengra, og sífellt margbreytilegri aflmyndir koma þar fram. Því lengra sem magnanin er komin, því fullkomnari afltegund getur hið magnaða tekið við. Mætti nefna þetta anadrome-lögmálið. Þannig magnar hinn fullkomni hið ófullkomna áleiðis til sín. Það er eins og víxlstraumur sem á sér stað, viðleitni á að hefja hið ófullkomna til fullkomnunar, og svo hinsvegar nokkurskonar útsog; hinn skapandi kraftur lagar sig að nokkru leyti eftir því sem hann er að skapa, eins og til að geta náð tökum á því; eru þaðan bæði hin ýmsu náttúruöfl og hinar ýmsu dýra- og jurtategundir; kemur þar til greina þetta sem Lamarck skildi svo merkilegum skilningi. En takmarkið er fullkomin „harmoni” , samstilling allra krafta og allra tilverumynda. Þessa viðleitni til samstillingar má glöggt skilja, jafnvel á svo ófullkomnu tilverustigi, sem verið er á hér á jörðu. Jurtirnar, sem finna ekki til og hugsa ekki, eru, beinlínis eða óbeinlínis, undirstaða dýralífs, lífsins sem skynjar, finnur til og sækir í áttina til þess að hugsa. Viðleitnin til samstillingar kemur á einkar fróðlegan hátt fram í því sambandi sem er milli skorkvikinda og blómjurta. Því skorkvikindin hafa átt drjúgan þátt í að skapa hinar fögru og ilmandi verur, sem vér nefnum blómjurtir, og skapast aftur sjálf eftir jurtunum; og engin eins og hinar þörfu hunangsflugur og fiðrildin, ilmandi sum og litfegri en nokkurt blóm. Fannst Konrad Sprengel svo mikið um, er hann uppgötvaði þýðingu skorkvikindanna fyrir jurtirnar, að hann talaði um fundinn leyndardóm náttúrunnar, og var það að vonum, jafnvel þó að hinn ágæti grasafræðingur sæi ekki eins djúpt í það og menn gera nú, hversu merkileg viðleitni til samstillingar og skapandi samstarfs það er, sem þarna kemur fram. En nú er það augljóst, að á jörðu hér hefir viðleitnin til samstillingar ekki verið sigursæl; margt er ófullkomið og mjög á hinn verri veg, spillilíf (parasitismus) og rándýralíf (ferismus). Saga lífs slíks sem á jörðu hér, er saga vaxandi þjáningar. Samstillingin hefir ekki tekist. Megum vér skilja, að framvindustefnurnar eru tvær. Annað er stefna vaxandi samstillingar, vaxandi líkingar við hina æðstu veru, lífstefnan, the life line of evolution. Hitt er helstefnan, Vítisstefnan, the infernal line of evolution, stefna vaxandi ósamræmis og ósamþykkis. Þar sem svo stefnir, lifa sumar verur á því að spilla lífi annarra eða eyðileggja þær, og á skelfilegastan hátt sú veran, sem er farin að geta hugsað og langmest finnur til. Frá öpunum til niðja þeirra mannanna, er raunar að sumu leyti mikil framför, en í aðalatriði er þó afturför. Mannlífið er þjáðara en apalífið, mennirnir kveljast og kvelja svo miklu meir en aparnir, framvindan hefir verið í Vítisáttina, misklíð og slysni vaxandi. Og þar sem svo fer fram, er stefnt til glötunar. Hverfa fyrst hinar fullkomnustu lífmyndir, þær sem erfiðast áttu með að skapast; en þær lífmyndir magnast helst og þola best, sem hæfastar eru til að lifa á því að kvelja lífið úr öðrum eða spilla lífi annarra. (The survival of the fittest, in a hell, means the survival of the fittest for hell). En þó fer svo, að allt líf líður undir lok á slíkum hnetti, eftir mjög svívirðilega hnignunarsögu. Hinn magnandi kraftur hverfur, eigi einungis frá hinum lifandi verum á slíkum hnetti, heldur einnig frá hinni líflausu náttúru. Framvinduna, þar sem þannig er að hrapa, mætti kalla devolution. Jafnvel efniseindirnar, ódeilin, leysast sundur, en hinn losnandi kraftur kemur ef til vill fram sem sú geislun, er nefnd er radioaktivitet, og fundin ekki alls fyrir löngu. Hér á jörðu er að hrapa, glötunarvegur er það, sem verið er á. Lífskrafturinn er að minnka á hnettinum, toppur lífsins farinn að visna. Mun þetta efni rætt verða nánar í ritgerð um framtíð mannkynsins.

XVIII

Hinn mikli enski eðlisfræðingur, Faraday, sagði, nálægt miðri öldinni sem leið, að hver ódeilisögn (atom) hefði áhrif á allar aðrar, það er að segja, á allan heiminn. Var kenningu þessari fálega tekið fyrst, en á síðari tímum virðist athygli fræðimanna hafa beinst að þessari merkilegu setningu miklu meir en áður; getur Henri Bergson hennar í báðum höfuðritum sínum (L’Évolution créatrice, bls. 221; Matiére et Mémoire, 9. útg. bls. 26). Kenningu þessa virðist mega rekja til grískrar speki, því að krasis-kenning Zenóninga (stóumanna) virðist vera af sömu rótum runnin; virðist jafnvel ekki ólíklegt, að Leukippos eða Demokritos, mestu vísindamenn fornaldarinnar, hafi hugsað þessa merkilegu hugsun fyrst. — Vér getum haldið áfram og sagt: eigi einungis hefir hvert ódeili áhrif á allan heiminn, heldur einnig hver samögn (molecule), hvert efnasamband, hver líkami. Eigi aðeins hin mikla sól, stjórnandi hnattahverfis vors, geislar áhrifum út um allan heim, heldur má segja hið sama um hinn minnsta hnött sólhverfisins, og hina minnstu hræringu, sem í sólhverfinu á sér stað, hvort sem hún gerist í lifandi líkama eða líflausum. Og vér getum farið lengra en Faraday, hinn mikli uppgötvuður íleiðslurafmagnsins (electric induction), virðist hafa gert. Vér getum sagt, að hverju þessi áhrif alls á allt miða. Hver minnsta hræring, sem verður í heiminum, hver minnsta efniseind, leitast við að framleiða sjálfa sig um allan heim, breyta öllum heiminum í sig. Frá hverri veru, hinni stærstu og margbrotnustu til hinnar smæstu og einföldustu, stafa geislar, sem miða að því að framleiða sjálfa þessa veru.
Þetta er undirstöðulögmál. Það stendur ennþá dýpra en lögmálið um aðdráttarsamband hnattanna. Og það nær alla leið upp; best getum vér glöggvað oss á því með því að rannsaka vora eigin meðvitund. Þegar menn leggja nóga rækt við slíkar athuganir, munu þeir finna, hvernig tilfinningar annarra leika um þeirra eigin taugar; og þegar maðurinn er sofnaður eða svafður (hypnótíseraður), þá er annars meðvitund, annars sál komin í staðinn fyrir hans. Má hér nú athuga, þegar athygli mannsins á þessu hefir verið vakin, að draumvitund hans er meðvitund manns á öðrum hnetti. Framtíðin mun sanna það mál mitt, að áreiðanlegri athugun í náttúrufræði, en þessi er, hefir aldrei verið gerð. Er þar fundin hin furðulegasta og þó traustasta sönnun fyrir fjargeislun hinnar lifandi veru. Og áhrifum hennar á aðrar verur virðast ekki vera nein fjarlægðartakmörk sett. Vísindi hefi ég að mæla, þegar ég segi: lífsamband á sér stað milli hnattanna. Og lögmálin fyrir þessu sambandi eru þegar kunn að nokkru, þó að mest sé þar eftir að rannsaka. En þar er erfitt aðgerða, meðan allra hugarfar er á móti. Samhugur um hið rétta er nauðsynlegur til sambands við góða staði.

XIX

Lífsambandið milli hnattanna er við verur, sem lengra eru komnar í góðu, við verur, sem lengra eru komnar í illu, og við þær, sem líkt er komið fyrir. Þau mannkyn, sem eru á Vítisbrautinni, þekkja ekki þetta samband, vita ekki eðli drauma, vita ekki hvernig stendur á vitrunum. Hjá slíkum mannkynjum skapast trúarbrögð af fjarskynjunum og hugmyndum, sem stafa af lífsambandinu milli hnattanna. Áhrif frá lífi á hnöttum, þar sem verið er á samræmisbrautinni eða ekki mjög fjarri henni, skapa trúarhugmyndir um himnaríki og sælu, sem hinir trúuðu eiga í vændum. En af áhrifum frá hnöttum, þar sem lengra er komið á Vítisbrautinni, sprettur trú á kvalastaði og eilífar refsingar í öðrum heimi. Oft halda þeir sem taka mark á slíku, að það sem fyrir þá ber, séu sýnir úr fortíð eða framtíð þeirra eigin hnattar. Mjög eftirtektar verð dæmi þessa eru í riti eftir Annie Besant og C. W. Leadbeater um uppruna og framtíð mannlífsins (Man: Whence, How and Whither), þar sem sagt er frá stórfróðlegum fjarskynjunum á lífinu á öðrum hnöttum, og haldið, að það séu sýnir þess, sem hafi gerst og muni gerast á vorri eigin jörð; hefir svo gengið um þúsundir ára; verður hinum merku guðspekisinnum vorra tíma á að misskilja á sama hátt og prestaöldungurinn egyptski, sem Platón hefir eftir söguna um Atlantis, þá sem svo fræg er orðin. En sú Atlantis hefir aldrei til verið á vorum hnetti; það var á miklu eldra hnetti, sem það land sökk í sjó með öllu því furðulega og ferlega, sem þar hafði upp vaxið. En af vanþekkingu kemur það, er menn halda að sögurnar um Atlantis séu ekki annað en hugarburður. Mun ég ef til vill víkja að þessu efni nánar í grein um það rit Platóns, sem Kritias heitir.
Þar sem verið er á samræmisbrautinni, þekkja menn tilgang lífsins og vita, hvert þeir stefna. En í Vítunum er mjög á annan veg. Þar vita menn ekki, að þeir eru sjálfir í Víti; halda sumir, að Víti sé í andaheiminum, er þeir nefna svo, en aðrir telja allt slíkt tóman hugarburð, og gerast fráhverfir öllum átrúnaði, er þeir sjá, hve trúarhugmyndirnar koma illa heim við þá þekkingu, sem fæst, þegar helst er stefnt til réttrar áttar, þ.e. í vísindaáttina. En vísindin eru í Vítunum, jafnvel þar sem þau komast eitthvað á leið, máttlítil og skammsýn hjá því sem verður, þegar náð er til fulls vísindaáttinni; viðleitnin á að afla þekkingar hefir lítinn byr í Víti, og „þó erfitt sé að finna ný sannindi, þá er samt erfiðara að fá menn til að sjá, að ný sannindi séu fundin”. Á hinum verri öldum eru menn svo langt frá því að skilja, hversu nauðsynlegt starf er unnið með því að leita sannleikans, að vitfrömuðirnir eru hataðir og ofsóttir. Drottnunargirnd og ágirnd til fjár og landa hefir í Vítunum mestan byr. Hinir ófróðari eru þar auðugastir og máttugastir, og stærstu fyrirtækin, sem ráðist er í, þau fyrirtækin, sem menn vanda langmest til og beita langhelst samtökum við, eru morð og rán í stærri og stærri stíl. Svo fjarri eru menn því á slíkum stöðum að skilja, að ef ekki er stefnt til samtaka og samstillingar, stefnt til að eyða vanþekkingu og þjáningu og allri illúð, þá er stefnt til glötunar. Í kirkjunum þar er að vísu talað um að elska guð, en í framkvæmdinni er meira um, að menn hati hann eða lítilsvirði. Því að ef menn vilja gæta að því, hvað slík orðtæki þýða í raun réttri, þá er það að hata guð, að láta sér vera illa við þá viðleitni, sem miðar til þess að komast á hina réttu leið, og vera henni mótsnúinn. Mennirnir, sem brenndu Servede og Brúnó, létu Kepler svelta, settu Galilei í varðhald og hjuggu höfuðið af Lavoisier, hötuðu guð. Menn segja stundum, hvernig stendur á því, að guð skuli leyfa hið illa. En engin ástæða er til þess að ætla, að hinar góðu verur, sem mennirnir hafa kallað guði, hvað þá algóður verundur, leyfi hið illa; hinn veg mun vera, að af öllum mætti sé leitast við að útrýma því. En sagan sýnir, að þar er ekki auðvelt aðgerða. Þegar menn þrátt fyrir alla örðugleika hafa fundið einhver merkileg sannindi, og leitast við að kenna þau öðrum, þá hafa þeir haft það að launum ósjaldan að vera álitnir vitfirringar, og stundum verið hataðir meir en verstu glæpamenn. Saga Brúnós er gott dæmi. Hefðu samtíðarmenn Brúnós verið honum samtaka, þá væri meðalaldur manna orðinn miklu lengri en er, og þó enn meiri munur, hversu lífið væri orðið miklu fegra en nú er. Fylgisleysið við þekkingarfrömuðina, einmitt þetta hversu tómlega, fávíslega og jafnvel fjandsamlega þeim sannindum hefir verið tekið, sem voru þó eina leiðin til þess að bæta mannlífið, gerir oss skiljanlegt betur en allt annað, hversu örðugt það er fyrir hin góðu öfl að hjálpa. Því að öðruvísi verður ekki hjálpað á „guðlausri” jörð en þannig, að menn séu studdir til að hugsa einhverja þá hugsun, sem til umbóta miðar. Þeir menn eru erindrekar guðanna, sem hugsa hinar góðu hugsanir, og þeir, sem framkvæma þeim samkvæmt.

XX

Orðið Víti (infernum) má hér ekki valda neinum miðaldamisskilningi. Nafn þetta er hér vísindaorð, sem ekki verður komist hjá að nota í þessari tilraun til heildarlegra yfirlits yfir náttúruna en áður hefir verið. Helvíti er þar sem er þjáðst og dáið. Og þegar talað er um dýra- og jurtalíf af Vítistaginu, fauna og flora infernalis, þá er einkum átt við dýr og jurtir, sem helst lifa öðrum til þjáningar og dauða. Til þess konar dýralífs (fauna infernalis) teljast t.d. eiturnöðrur, krókódílar, tígrisdýr, hýenur, iðraormar; en undir flora infernalis, kólerusýkillinn og aðrir, og ryðsvepparnir t.d. Í þess konar verum hefir hin illa verðimegund orðið yfirgnæfandi; þar sem framvindustefnan er góð, skapast ekki slíkar. En því lengra sem sækir í Vítisáttina, því ferlegra verður á þeim hnetti dýra- og jurtalíf af því tagi, ránlífið og spillilífið. Til eru nokkurs konar ránjurtir, sem eru ketætur; eru þó lítil brögð að því á jörðu hér; eru það helst smákrabbar og skorkvikindi, sem ránjurtirnar veiða. En af sögum úr „andaheiminum”, það er að segja af öðrum hnöttum, getur sá, sem náð hefir nokkurri vísindalegri þekkingu á þessum efnum, séð að á öðrum jarðstjörnum eru til svo öflugar ránjurtir, að þær veiða stór spendýr og einnig menn, og éta lifandi. Á þá leið eru sumar kvalirnar í hinum verri Vítum. Mun það sýna sig, að hér er verið að rita náttúrufræði, en ekki telja trú fyrir mönnum.
Í dýra- og jurtalífi vorrar jarðar er margt, sem bendir í betri áttina, og væri margt um það að rita. Allir kunna að nefna ýmsar nytsamar og fagrar jurtir og dýr, sem eru annaðhvort eða hvorttveggja. Margir kunna að sjá hið góðlega og göfuglega yfirbragð hestsins, og hinn barnslega fríðleik á lömbum, kálfum og folöldum, ungum þessara skepna, sem mennirnir eiga svo mikið að þakka, og oft er þó ekki farið eins vel með og þær ættu skilið og raunar margur mundi gera framar en er, ef hann gæti. Þar sem komið er á rétta leið, er líklegt að mannkynið annist dýra- og jurtalíf hnattarins á þann hátt, að jafnvel það, sem best er í þeim efnum á jörðu hér, gefi litla hugmynd um slíkt. En því lengra sem komið er á Vítisbrautinni, því fremur kemur mannkynið fram sem rándýr og kvalari, enda eiga mannkynin á þeim tilverustigum mjög í vök að verjast gegn ýmiskonar rán- og eiturverum í dýra- og jurtaríki. Þegar menn fara að verða mér samtaka, og lama mig ekki með hugarfari sínu munu þeir læra sjálfir að sjá, að satt er sagt. Stjörnulíffræðin, astrobiologian, verður mjög merkileg fræðigrein, og stórum fróðlegri og fjölskrúðugri en trúarkenningarnar um sælu- og kvalastaði, sem byggjast á mjög ófullkomnum og misskildum athugunum á einmitt þeim hlutum, sem verða viðfangsefni stjörnulíffræðinnar. Og áður en hundrað ár verða liðin frá hinni merkilegu uppgötvun Mayers á því, að orkan líður ekki undir lok, heldur breytir aðeins um mynd, mun það verða vitað til sanns, að þar sem verið er að segja mönnum af lífinu á öðrum stjörnum, þar eru þeir fræddir um ástæður slíkar, sem þeir sjálfir eiga að lifa við í einhverri framtíð. Því að Platón hefir mikið til síns máls, þar sem hann, eins og áður hefir verið á minnst, er að tala um ferðalag sálarinnar til stjörnu, þar sem lífið sé henni samstillt — svo að aukið sé svolítið og bætt í þýðingunni það sem sagt er um astron synnomon. Og af hugarfari manna mun mega með vaxandi nákvæmni ráða, hvernig framtíðarlíf þeirra verður. Sumra líf verður líkt því sem verið hefir á jörðu hér, sumra á betri stöðum, og sumra þar sem ennþá háskalegra er að lifa en hér á jörðu og erfiðara. Munu menn læra að meta mikils allt sem kennir þeim að rata svo á þessu furðulega ferðalagi, sem nefnist líf, að þeir lendi ekki þar sem menn eru étnir lifandi af ferlegri verum en til eru á jörðu vorri. Þykir mér ekki ólíklegt, að morðingjar Brúnós komi fram á einhverjum slíkum stað. Því andvígari sem menn eru vitkun og allri göfgun lífsins, því ferlegri framtíð eiga þeir í vændum. Framtíð þeirra verður þar sem það er öflugast, sem því er gagnstæðast, sem þeir hafa unnið á móti. Þetta er náttúrulögmál; menn mega ekki ætla, að það sé einhver góð vera sem refsar. En hugmyndir um reiða og refsandi guði eru eitt af því sem einkennir Vítisbrautina.

XXI

Þegar menning er eitthvað komin á veg í Vítunum, kemur þar upp trúin á það sem þeir kalla endurlausn, og það er í augum uppi af hvaða rótum sú trú er runnin. Trúin á endurlausn er sprottin af hugboði um, að breyta má um stefnuna, hverfa frá Vítisbrautinni og taka leiðina til lífsins. En það sem leysir menn, breytir stefnunni, er ekki nein trúarkenning, heldur aukin þekking, fullnaðarsigur vísindastefnunnar. Að finna lífsambandið er upphaf þess sigurs, fyrsta sporið á rétta leið. En það er erfitt að taka það spor; öll vitkunar- og óviskusaga mannkynsins, saga trúarbragðanna, heimspekinnar og vísindanna, sýnir, hversu erfitt það er.
Á þeim tímum sem í hönd fara, mun mikið verða ritað í sögu frá því sjónarmiði, sem hér er bent á, og fróðlegar miklu en áður. Hvað saga heimspekinnar t.a.m. verður fróðlegri en áður, þegar menn fara að skilja, hvað það er, sem heimspekingarnir hafa alltaf verið að leita að, en aldrei fundið. Frummyndafræði Platóns (ideufræði) má nefna til skýringar því, sem ég á við. Orðið idea er nú látið þýða hugmynd eða hugtak, en Platón talar sumstaðar um ideurnar, eins og þær væru sjálfstæðar verur, og idea þýðir eiginlega það sem er séð, mynd, svip, útlit, enda kveðst hinn gríski spekingur hafa séð ideurnar með þriðja auganu, auga sálarinnar. Ideurnar eru í hugarheiminum (kosmos noetos), en verur skynheimsins (kosmos aisbetos) eru þeirra eftirmyndir (mimema). Stundum nefnir Platón ideurnar beinlínis paradeigma, sem þýðir fyrirmynd, en í staðinn fyrir orðið mimema hefir hann um það, sem er í skynheiminum, homoióma eða afomoióma, sem þýðir eftirlíking, líki. Er þetta býsna undarlega að orði komist, ef skilja skyldi eftir því, sem nútíminn gerir; en það er misskilningur. Hafa menn verið að misskilja þetta nú í meir en 2000 ár. Sá sem byrjar að misskilja það, er hinn mikli lærisveinn Platóns, Aristóteles; telur hann það orðagjálfur eða tómyrði og líkingamál á skáldavísu, að kalla ideurnar fyrirmyndir og segja, að það, sem til er í skynheiminum, hafi þátt í þeim (kenologein esti kai metaforas legein poietikas). Filó hinn hebreski, sem á Krists dögum reyndi að sameina gríska og hebreska speki, talar að vísu ennþá greinilegar en Platón um ideurnar sem sjálfstæðar verur; því að það, sem hann nefnir í einum stað ideur, nefnir hann í öðrum engla eða öfl eða völd (líkt og fornmenn nefndu goðin bönd og höft). En löngu síðar segir Brúnó, að ideur Platóns séu ekkert annað en hugarburður, og líkir þeim við þjóðsagnaskepnur, sem aldrei hafa verið til. Á sama máli er á 19. öldinni hinn nafnkunni þjóðfræðingur Tylor, og hvetur hann heimspekingana til þess að draga fram í dagsbirtuna þessar gömlu hugmyndir um ideur og sýna fram á, að þær séu rangar (Primitive Culture I, s.498). Munu nú flestir fræðimenn vera á máli Aristótelesar og Brúnós í þessu efni, og þarf ekki að efa, að þeir hafa rétt fyrir sér, ef litið er á þetta eingöngu sem hugsunarfræðispurningu. En það nægir ekki, það verður að rannsaka sjálfa náttúruna betur og uppgötva það, sem Platón uppgötvaði ekki. Ef það er gert, þá má finna hvað það er, sem kemur af stað þessum merkilega misskilningi, sem rís upp aftur og aftur í sögu heimspekinnar, t.d. á mjög fróðlegan hátt í heimspeki Leibnitz. Hugmyndir sínar um ideurnar mun Platón hafa haft að nokkru leyti frá Egyptum, en þeir kenndu, að ein af persónum hinnar egypsku þrenningar hefði framleitt frummyndir allra hluta. Ennþá merkilegar kemur þessi kenning fram hjá hinum goðmálugu mönnum, sem byggðu Asíuhálendi milli Persalands og Indlands, þar sem Íran er kallað, og víðar; sögðu þeir, að hver hlutur á jörðu hér hefði sína andlegu fyrirmynd og tilsvörun í ríki himnanna. Er það nokkurn veginn nákvæmlega tilsvaranafræði Swedenborgs (scientia correspondentiarum). Er sú fræði nokkru nær sanni en ideufræði Platóns, en hefir þó líka þennan slæma galla að vera lítt skiljanleg, meðan menn vita ekki lengra en Swedenborg vissi. En engin tilviljun er það, að hinum sænska goðorðsmanni ber svona vel saman við hina goðmálugu herja (Arya), sem nefndu hinar helgu kviður sínar gátur (gathas). Af þessara manna ætt var Óðinn, sem Snorri segir svo merkilega af í Heimskringlu og víðar, og að vísu átti sína „himnesku” tilsvörun (correspondentia) á hnettinum, þar sem er Valhöll og Breiðablik og Glitnir. Megum vér nú vel skilja, að það er vitsambandið við verur á öðrum hnöttum, sem hefir vakið mönnum allar þessar undarlegu hugmyndir. Og fyrir þesskonar samband er komin upp hin gríska kenning um nous (nús, vit), sem hefir verið svo afleitlega misskilin. Hver sem les rit Platóns eða Plótíns, mun sjá, að ýmislegt af því, sem segir um nous, er auðskilið, ef menn vilja nota þá skilningsleið, sem hér er bent á. Kosmos noetos er eigi einungis hugsanaheimurinn, heldur einnig og miklu fremur, hinn hugséði heimur, það sem Swedenborg kallar mundus spiritualis, hinn andlega heim; eða með öðrum orðum, aðrar stjörnur og lífið þar, eins og menn hafa fengið vitneskju um það fyrir sambandsástand í draumi og vitrun. Og ideurnar eru tilverumyndir þessa hugséða heims. Og er vér höfum uppgötvað lífsambandið milli hnattanna, sjáum vér, að það er alveg rétt sagt, að tilverumyndirnar á jörðu hér hafi þátt í ideunum; Aristoteles skjátlaðist, þegar hann kallaði það tómyrði að segja slíkt. En að vísu mætti kalla kenologi margt af því, sem um þetta efni hefir verið ritað síðan. Sambandið við ideurnar getur verið meira eða minna, og ríður hið mesta á því, að sambandið við góðar verur sé sem mest. Mjög mikið af viðleitni mannanna hefir beinst að því, að koma á þesskonar sambandi, og af herfilegum misskilningi mjög mikið af því. Ideurnar eru nefnilega, þó að Platón áttaði sig ekki á því, að nokkru leyti verur sama eðlis og þær, sem hann annars nefnir guði og vættir (daimón). Fór það líkt, og þegar menn héldu, að kvöldstjarnan og morgunstjarnan væru tvær stjörnur, þangað til spekingurinn Parmenides skildi, að þar er raunar sama stjarnan. Í hinni frægu sköpunarsögu í Timaios segir Platón, að heimssmiðurinn (demiúrgos) hafi ekki sjálfur skapað mennina og lífið á jörðu hér, heldur falið það goðum, sem hann hafði skapað. Þeir guðir eru fyrirmyndir (ideur) mannanna; hinn geislandi kraftur hefir, þar sem mennirnir eru, leitast við að skapa sér hami, sem líkist guðunum; þess vegna er orðið líkami (líkur hamur) svo merkilegt. En í orðtækinu um, að takmark mannsins sé að verða líkur guði (homoióþenai þeó), koma fram áhrif frá sömu hugsun sambandsverunnar, sem lýsir sér, þegar sagt er, að maðurinn sé mimema eða homoióma (eftirlíking, eftirmynd) fyrirmyndarinnar (ideunnar) í hugarheiminum eða hinum hugséða heimi (kosmos noetos). — Ideufræði sú, sem hér er haldið fram, getur vel samrýmst kenningunni um framsókn lífsins á jörðu hér, frá fyrstlingnum (prótistanum) til mannsins.

XXII

Hin fræga sköpunarsaga í Timaios, sem íslenskum lesendum mun helst vera kunn af ritgerð Jónasar um eðli og uppruna jarðarinnar, mun verða miklu frægari, þegar menn fara að skilja, hversu vel þar er stefnt í áttina til vísinda. Platón segir, að skaparinn hafi sáð sálunum á stjörnurnar (sem hann í öðrum stöðum nefnir verkfæri tímans). En þetta mun einmitt mega kalla hina réttu kenningu um uppruna lífsins á himinhnöttunum. Er það líklegast, að lífið sé komið upp fyrst fyrir lífgeislan (bioradiation); geislandi kraftur hefir fyrst snúið hinu líflausa efni til mjög ófullkominna lífmynda, sem svo þróuðust áfram og fóru að verða fyrir áhrifum frá líkum lifandi verum á öðrum hnöttum og vaxa áleiðis að því að verða hugsandi vera, sem meir og meir gæti fengið þátt í stjórn heimsins. Frumskaparinn sáði sálunum á himinhnettina til þess að þær, með því að snúa til síns eðlis hinu líflausa efni, yxu fram til að verða hið „guðræknasta dýr”; en hinum yngri, sköpuðu guðum fól heimssmiðurinn að skapa líkamina. Þeir voru ideurnar, fyrirmyndirnar, sem sköpuðu líkamina áleiðis til sín og eftir sér, og getum vér vel skilið, þegar vér vitum, að lífmagnanin, bioinduktionin, á sér stað, að í þessum kenningum er merkilegur sannleikur fólginn og eins er um þá kenningu, að framliðnir lifi áfram á stjörnu, þar sem lífið sé samkvæmt því, sem þeir hafi til stefnt með lífi sínu á jörðu hér. Stallbaum, sem af svo miklum lærdómi og skarpleik hefir gefið út og skýrt rit Platóns, segir, að spekingurinn hafi í slíkum sögum lofað ímyndunaraflinu að leika sér, þar sem ræði um þau efni, sem óviðráðanleg séu mannlegum skilningi. En þegar menn fylgja boðorði guðsins og læra að skilja eitthvað af því, sem gerist í þeirra eigin huga, þá eru þessi efni eigi óviðráðanleg framar. Áður en þessi öld er hálfnuð, mun í hverju vísindafélagi verða rætt um forlög framliðinna og lífið á öðrum stjörnum — nema til hins verra dragi. Samstilling allra krafta er tilgangur heimsins, og samstilling mannlífsins við skylt en fegra og fullkomnara líf á öðrum hnöttum, er þar höfuðatriði. Trúarbragðasaga mannkynsins sýnir, hversu rík hefir verið þörfin á sambandi við æðri verur, en einnig, hvernig svæði trúarbragðanna vill verða, öllum fremur svæði mannlegs misskilnings. Hin forna heimspeki tekur sama viðfangsefni upp á nokkuð annan hátt, reynir að hafa meiri greind við, en mistekst sakir skorts á góðum athugunum, metafysikin verður að því, sem kalla mætti kenologi (af kenos, tómur). Það er einmitt eitt af því, sem einkennir Vítin, að þar er engin heimspeki til, sem það nafn eigi skilið. Því að ég kalla ekki, að heimspeki sé, meðan menn vita ekki af lífinu á öðrum hnöttum, og framsókn lífmyndanna fram yfir mannkyn; á meðan menn hafa ekki áttað sig á framsókn lífsins, þekkja ekki tilgang lífsins, er einmitt ekki fundið það sem um fram allt þarf að finna, til þess að heimspeki geti heitið með réttu. Bókin Science et Religion (vísindi og trú), 1908, eftir hinn nafnkunna heimspeking E. Boutroux, sýnir vel, hversu vanmáttug hin nýja kenologi er gagnvart gátum tilverunnar. Trúarmeðvitund nútímans, segir Boutroux, veit ekkert um veru eða verur æðri en manninn í rúminu fyrir utan hann, og lýsir allar hugmyndir um slíkt, tilbúning einn og hugarburð (si l’on entend par transcendence une existence en dehors de l’homme, au sens spatial du mot, la conscience religieuse moderne est la premiere á déclarer qu ‘un dieu transcendent, en ce sens est un concept factice et purement imaginatif; bls. 197). Sá sem ritar þannig, er býsna langt frá því að skilja, að eins og framsókn lífmyndanna var ekki lokið með fiskum, ekki með skriðdýrum, ekki með öpum, þannig er henni heldur ekki lokið með mannkyni.

XXIII

Náttúrufræðin er það sem bjargar. Hin nákvæma athugun veruleikamannsins, realistans, áttar sig á því, að draumar eru ekki hugarburður mannsins sjálfs, heldur framkomnir fyrir inngeislun frá öðrum huga (eða hugum); og ennfremur, að þessi annar á heima á öðrum hnetti. Uppgötvun þessi er upphaf hinnar sönnu heimspeki, þokueyðandi framar öllum öðrum, sem gerðar hafa verið á jörðu hér. Með henni er fyrst á jörðu hér ljósi vísindanna brugðið yfir svæði trúarbragðanna, og verði nokkrum illa við, þá gæti hann þess, að það sé ekki fyrir samhug með ríki myrkranna. Tvennt er það sem einkennir þann samhug, miskunnarleysi, og óvild á þekkingu og þeim sem að þekkingu vinna.
Þessi uppgötvun, sem ég nefndi, er í senn uppgötvun í eðlisfræði, sálufræði, líffræði, stjörnufræði og heimsfræði. Og enn mætti nefna trúarbragðafræði. Hversu miklu fróðlegri sú vísindagrein verður, þegar menn losna við þann heilaspuna, að guðirnir, þessar afar merkilegu verur á öðrum hnöttum, sem mennirnir á jörðu hér hafa gert sér svo margar og rangar hugmyndir um, séu ekki annað en hugarburður.
Hverskonar þröskuldur þar er, sem komist er yfir, með því að skilja eðli drauma, geta menn fengið glögga hugmynd um, ef þeir lesa áðurnefnt rit hins franska snillings, eða hið mjög fróðlega safn af ritgerðum um trú og vísindi eftir nokkra enska vísindamenn.
Sá sem skilið hefir eðli drauma, veit jafn áreiðanlega, að lífsamband milli hnattanna á sér stað, eins og að hann hefir séð sól og stjörnur. Og þegar athygli manna hefir beinst í þessa átt, verður þeim ljóst, hvernig hver maður geislar sjálfum sér út og leitast við að „hlaða” allan heiminn með sjálfum sér. Ennfremur verður það ljóst, hvernig maðurinn einmitt með þessari geislun, vinnur að framhaldi lífs síns og endursköpun líkamans. Er það skiljanlegt, að framhald lífsins verði eftir því, sem til var stefnt með geisluninni. Í sköpunarsögu Platóns er á mjög merkilegan hátt vikið að þessu, þar sem talað er um endurfæðingar mannsins eftir líferni hans, og orðin virðast jafnvel segja meira en Platón vissi, eins og getur átt sér stað um það sem fengið er fyrir vitsamband við fullkomnari veru eða „opinberun” (tropon hon kakynoito, kata ten homoioteta tes tou tropou geneseós — Timaios 42 C). Einnig í karma-kenningu Indverja er nokkuð af skilningi á þessu sem nefnt var, en þó héldu indverskir spekingar, að menn hefðu lifað áður á jörðu hér. Og það er misskilningur, eins og ljóst má verða hverjum þeim, sem íhugar rækilega sitthvað í líffræði og jarðfræði, sem alkunnugt er. Veit ég vel, af hverju sá misskilningur er sprottinn, að menn séu endurbornir á jörðu hér, þó ég sleppi að ræða um að sinni.

XXIV

Vík ég nú aftur máli mínu að undirstöðuatriði því, sem áður er um getið. Af því að hver minnsta efnisögn leitast við að framleiða sjálfa sig í öllum heimi og hver einasta hreyfing, leiðir, að því nær sem er fullkominni samstillingu, því fremur verður máttur alheimsins í hverri eind og hverjum einstaklingi, lífskraftur allra í einum, og eins í öllum. Að vita þetta og læra að stefna í áttina að þessu takmarki, er upphaf guðsríkis. Kenningar þær um þríeinan og jafnvel fjöleinan guð, sem að vonum hafa þótt svo dularfullar, eru sprottnar af vitsambands- eða “opinberunar-” vitneskju um, að til eru verur, sem eru komnar mjög nálægt þessu takmarki. Þær magna hver aðra þannig, að einnar kraftur er allra og allra einnar, og þó er hver þeirra fullkomlega sjálfstæð. Í hinum fullkomlega samstillta heimi verður eindin sem eind ekki ófullkomnari en áður, heldur á hinn veginn. Í goðafræðum er margt, sem að þessu lýtur, t.a.m. sagan um ásmegin og megingjarðir Þórs. Verða allar þær sögur næsta merkilegar, þegar vér förum að skilja, að zoologian er miklu yfirgripsmeiri vísindagrein en náttúrufræðingana hefir grunað. Ræðir hér um ennþá stórkostlegri viðbót við náttúrusöguna en þá, sem varð á öldinni sem leið, þegar menn fundu, að meiri hlutinn af lifandi verum á jörðu hér, elur aldur sinn í kulda og myrkri sjávardjúpsins. Höfðu menn haldið, að í þeim myrkheimi væri með öllu líflaust. Fleiri leyndardómum trúarbragðanna, þeim sem óskiljanlegastir hafa verið, getum vér nú vel gert oss grein fyrir. Prof. Carpenter segir frá því í trúarbragðafræði sinni (Comparative religion, bls. 147) hvernig Dionysosdýrkendur slitu í sundur lifandi naut eða geit og rifu í sig blóðugt holdið. Þetta var nokkurs konar communio, þannig hugðust þeir fá þátt í guðnum, misskildar hugmyndir um guðlega magnan fyrir samstilling, komu af stað þessari andstyggð. Ennþá eftirtektarverðari sambandsathöfn eða altarissakramenti tíðkaðist hjá Aztekum. Tóku þeir fanga, fríðan sýnum og af göfugum ættum, prýddu hann einkennum guðsins Tezcatlipoca, og slátruðu honum síðan á altarinu. Líkið var því næst borið burt með virktum, skorið í smábita og étið af prestum og öðru stórmenni, sem sérlega blessuð fæða.
Saga Krists getur hjálpað oss til að skilja hvernig þessi undarlegi siður hefur komið upp. Eftir að lærisveinum Krists hafði fjölgað til muna, og hann — þess vegna — magnaðist meir en áður, fór tal hans að verða mjög undarlegt; héldu lærisveinar hans þá, að hann væri orðinn brjálaður, og yfirgáfu hann flestir. Ef þér ekki etið hold mannsins sonar, sagði hann, og drekkið blóð hans, hafið þér ekki líf í yður. Sá sem étur mitt hold og drekkur mitt blóð, sá er mér og ég í honum. En Kristur sagði einnig, að hann væri í guði og guð í honum, hann og guð væru eitt. Nú liggur nærri að ætla, að í Mexico, heimkynni Azteka, einu af mestu opinberunarlöndum jarðarinnar — slíkt fer mjög eftir landslagi og loftslagi — hafi verið ýmsir menn, sem sögðu, að guð, Tezcatlipoca, væri í þeim, og að það hafi helst verið höfðingjar, menn sem röktu ættir sínar til guðanna, er slíkt sögðu. Þegar svo slíkir menn voru handteknir í bardögum, kom sigurvegurunum það snjallræði í hug, að ef þeir slátruðu slíkum mönnum, náttúrlega trúarbrögðunum samkvæmt, og ætu þá, mundi guð verða einnig í þeim. Það hefir verið algeng trú, að menn öðluðust eiginleika þeirra manna, sem þeir ætu.
Þegar menn vita, hvernig á allri „opinberun” stendur, hvernig sú hugsun, sem fengin er fyrir vitsamband, aflagast í heila þess sem ófullkomnari er og ófróðari, og fyrir áhrif frá slíkum, þá er augljóst, að þetta undarlega tal um að eta mannshold og drekka mannsblóð, er sprottið af þekkingu sambandsverunnar á víxlmagnaninni og samorkunni, á því að lífskraftur eins getur verið allra, og allra eins. Þegar lærisveinarnir, líklega þessir sömu, sem síðan yfirgáfu hann, gefa í skyn, að þeir vilji ekki heyra slíka ræðu, færir Kristur sig nær hinni réttu átt og segir: Það er andinn, sem lífgar, holdið gagnar ekkert. Og ennþá nær þessum „leyndardómi guðsríkis”, víxlmagnaninni og samorkunni, er Kristur, þar sem hann segir: Verið í mér, þá verð ég líka í yður, eða þar sem hann talar um, að lærisveinarnir og þeir sem á hann trúa fyrir þeirra orð, geti allir orðið eitt, eins og hann sé í guði og guð í honum. Og þetta, að verða allir eitt, er einnig kallað að „vera fullkomlega sameinaðir”.
Vér skiljum nú, hvers vegna Kristur er að brýna fyrir mönnum boðorð, sem virðist eins fjarstaðlegt, eftir því sem hagar til á jörðu hér, eins og það, að menn eigi að elska náungann eins og sjálfan sig. Það er til þess, að menn geti „orðið eitt”, “sameinast fullkomlega”, orðið guðum líkir, þeim verum, sem hafa náð því takmarki eða komnar eru nálægt því. En vér ófullkomnir menn á jörðu hér verðum að reyna að halda svolítið í áttina, byrja t.a.m. á því að hata ekki þá sem vilja oss vel. Og það verður mjög affarasælt, þegar menn skilja, að allt hatur er eyðing afls, sjálfum sáð til tjóns með öllu illu, sem öðrum er gert. Með skilningi á þessum mjög merkilegu atriðum líffræðinnar er lögð undirstaðan undir vísindalega lífernisfræði (Ethik). Til þess að menn gætu skilið allan vöxt jurta og dýra, þurftu ágætir menn, Robert Brown og Mathias Schleiden að uppgötva frumukjarnann og frumuna. Og hugsun Okens þó að hafa rutt brautina á undan. Einnig þurftu menn að öðlast þann vandfengna skilning, að hin afarfjölbreyttu dýr og jurtir eiga fyrir forfeður verur, sem að eins voru ein ófullkomin fruma, og nefna mætti fyrstlinga (prótista). Fyrir það, að frumurnar héldu ekki áfram að einangrast, þegar þær skiptust, heldur gerðu með sér nokkurs konar félag eða samband, hefir hinn örsmái, berum augum ósýnilegi fyrstlingur átt fyrir niðja fjölfrumunga slíka sem skógartrén, hvali, fíla, menn o.s.frv. Sambandsviðleitin er eldri en fruman. Og hið mesta ríður á að skilja, að fjölfrumungarnir stefna aftur til ennþá merkilegra sambands. En þar sem komið er á hina réttu leið í því efni, þar er, náttúrufræðislega talað, guðsríki. Þó að víða sé í nýja testamentinu minnst á guðsríki, verðum vér af auðskildum ástæðum, lítið fróðari um það efni, af því sem þar er sagt. Miklu merkilegri lýsingar á guðsríki og fróðlegri eru í ritum Swedenborgs. En til þess að komast á vísindaleiðina í þessum efnum, þurfti að uppgötva það sem ég kalla bioinduktion, víxlmagnanina. Velvild er skilyrði fyrir því, að þessi víxláhrif geti orðið góð, og ekki orðið afmagnan í magnanar stað. En þó er velvildin ekki einhlít; það þarf réttan skilning með. Hin vandaða hugsun vísindamannsins verður meir metin og meir ástunduð, þegar menn skilja, hversu líf liggur við. Rangar hugmyndir um tilveruna, ófullkomin mannþekking, þannig, að menn haldi, t.a.m., að illmennið sé góðmenni, góðmennið illmenni, vitringurinn vitfirringur, eða þá á hinn veginn, eins og oft hefur orðið á jörðu hér, útiloka menn frá guðsríki. Eða með öðrum orðum, þar sem þekking er lítil, þar er ekki guðsríki. Hin eftirtektarverðu orð, sælir eru andlega fátækir, lúta að því, að það er betra að vera fáfróður en auðugur af þeir fyrirframsannfæringum, sem banna mönnum skilning á sannleikanum. Þessi óljósu orðatiltæki, sem þó stundum má finna talsvert af speki í, einkenna einkum þá, er beinast tala af sambandsviti, hvort sem er á Gyðingalandi eða Grikklandi, eða hvar sem er. Á Norðurlöndum og víðar, þar sem sú tunga gekk yfir, sem vér nefnum nú íslensku, var sagt, að þess konar menn færu með goðorð, og voru þeir kallaðir goðorðsmenn eða goðar. Goðmálugir menn voru þeir einnig kallaðir. Munu þess konar menn oft hafa sagt, að guðinn væri í sér, eða einhver af guðunum, en stundum sögðust þeir beinlínis vera guðir. Má hér nefna til samanburðar Grundtvig biskup, einn af ágætustu mönnum Dana á öldinni sem leið. Var Grundtvig skáld mikið og andagiftarmaður og óefað líkur um margt goðmálugum mönnum fornaldarinnar. Grundtvig varð brjálaður 4 sinnum, og sagði þá, að hann væri erkiengillinn Gabríel. Er sagt, að slíkt hafi verið ekki óalgengt í Þrakalandi, en auðvitað hélt þó enginn þar, að hann væri Gabríel, eða nokkur af þeim æðri verum, sem Gyðingar trúðu á, heldur voru það guðir Þraka, sem þeir hugðust vera. En á Norðurlöndum mun Óðinn, þessi stórmerkilegi maður, sem Snorri segir svo ótrúlegar sögur af, hafa haldið, að guð væri í sér, og nefndist hann nafni þess guðs. Eddukviðurnar sýna, að á Norðurlöndum hefir það borið við stundum, að goðmálugur maður hélt, að hann væri Óðinn. Og ef til vill megum vér þar kenna, sem Óðinn konungur er, einn af merkilegustu trúarhöfundum, mann, sem er ekki líkt því eins frægur og hann ætti skilið að vera. Hefir maður þessi verið uppi á framsóknaröld, líkri því sem var á Norðurlöndum löngu seinna, kringum 800 og kringum 1200. Er á slíkum öldum leitast við að færast nær hinni réttu átt, og mikið hrap, þegar það mistekst. Tilraun Óðins þessa mistókst, einsog allar slíkar tilraunir, og mikið af kenningu hans tapaðist og mikið spilltist. Mundum vér lítið vita um átrúnað forfeðra vorra, ef ekki hefði Íslendinga notið við. Var það afreksverk mikið að segja frá goðunum á þann hátt sem Snorri gerði á 13. öld, þegar almenningur var löngu orðinn þeirrar trúar, að guðir feðranna væru illir andar. Tökum vér nú til þar sem fyrr var frá horfið, og að þessu sinni svo að duga mun, þó að ekki verði sagt, að tekið sé til óspilltra málanna. En nú er fundin leið til þess, að það geti orðið lýðum ljóst, hvað þær eru í raun réttri, þessar misskildu og rægðu verur, sem forfeður vorir nefndu guði og vættir, og hinir goðmálugu menn eða goðorðsmenn voru til frásagnar um. Er hér ekki verið að telja trú; ekki heldur „heimspeki” eða nein tegund af kenologi, það sem ritað er, heldur náttúrufræði. Það má nú vita, að það var ekki rangt, þegar hinn goðmálugi maður sagði, að guð væri í sér. Maðurinn var magnaður af mjög merkilegri veru á öðrum hnetti, og var ófullkomin eftirmynd (mimema) þessarar veru. Var goðorðsmaðurinn eða goðinn því magnaðri, því meira fylgi sem hann hafði, en tapaði sambandinu að mestu leyti, þegar menn urðu honum fráhverfir. Þeir menn, sem öðrum fremur höfðu samband við goðin, urðu foringjar ættanna, kynkvíslanna og þjóðanna. Er þaðan bæði hersirinn og hofgoðinn, presturinn. Og konungar eru þaðan, stundum meir frá hersinum (hersir er hið sama orð og Herrscher á þýsku), stundum meir frá goðanum. Má af slíku marka, að það er ekki alveg ástæðulaust, þegar konungarnir sögðust vera af guðs náð. Bregður héðan einnig birtu yfir orsakirnar til þess, að þjóðhöfðingjar, rómversku keisararnir og aðrir, hafa verið dýrkaðir sem guðir. Fram á vora daga hefir keisari Kínverja verið kallaður sonur himinsins, þ.e. guðs son. Og líkt er um Japanskeisara, víkingalandsins, sem verður mesta ríkið á jörðu hér, ef hvítir menn geta ekki orðið sáttir. Í Japan varð þjóðhöfðingi bæði goðinn (mikado) og hersirinn (shogun). Goðorðsmaðurinn var milligöngumaður, mediator, milli guðs og manna. Fyrir hans tilstyrk gátu þeir sem honum voru fylgjandi, fengið betra samband við goðin, fremur orðið magnanar aðnjótandi frá guðunum. Og hinsvegar gat goðinn, einmitt af því að menn voru honum fylgjandi, fremur fengið samband við guðinn. Áhrifin voru gagnkvæm, hvorumtveggja til góðs, goðanum og þeim sem síðar voru kallaðir þingmenn hans. Vér getum nú litið á þetta fysiologiskt, frá sjónarmiði lífeðlisfræðinnar, og þegar tilraunir eru gerðar nógu vísindalega, þannig, að rangar fyrirframsannfæringar koma ekki í veg fyrir góðan árangur, mun það sýna sig, að hér er rétt sagt. Konungum og öðrum leiðtogum hefir oft verið það til mikils skaða, að vita ekki af þessum víxláhrifum, og hefir þeim hætt við að halda, að þegnarnir væru eingöngu vegna þjóðhöfðingjans; hafa konungar margir skoðað sig mest sem hershöfðingja, og oft verið ósparir á líf þegnanna. Annað sem verið
hefir mjög í Vítisáttina, er áhugaleysi flestra konunga og stjórnmálamanna á menntun og vísindum. Mátti þó vita fyrir löngu, að ekkert hefir eins og aukin þekking, miðað til að mýkja skap mannanna og bæta hag þeirra. Menn reyni að bera saman það sem aukin þekking hefir áunnið í þeim efnum síðustu 300-400 árin, og trúarbrögðin, um allan aldur mannkynsins áður.

XXV

Oss má nú ljóst vera, að Jesús frá Nazaret var sérstaklega fagurt dæmi þeirrar manntegundar, sem á íslensku er goði eða goðorðsmaður. Heimsfræðin sem hann kennir, er að vísu fátækleg hjá indverskri, grískri eða persneskri heimsfræði. En líferniskenning hans er svo merkileg, þessi boðorð hans, sem öllum eru kunn og enginn lifir eftir. Löngu síðar flytur Brúnó fagnaðarboðskap miklu þroskaðri en þann, sem er í biblíunni að lesa. En menn skildu hann ekki. Hefir ef til aldrei á jörðu hér komið í ljós greinilegar en eftir morð Brúnós, hversu háskasamlegt það er að vera á móti guði. Hver sem er á móti sannleikanum, er á móti guði.
Swedenborg sem var eins og til hliðar við Brúnó, ekki beint fram á leið þaðan, var uppi á þeim tímum, er spáð hafði verið 300 árum áður, að Kristur mundi koma aftur, og hélt að minnsta kosti um tíma sjálfur, að hann væri Messías; var hugsun þessa ágæta Svía hebreskuð mjög. Einnig Swedenborg var lítið sinnt, og var eftir dauða hans morðöld mikil, stjórnarbyltingin á Frakklandi og styrjaldir þaðan; er sú saga mest með Vítisblæ. Og nú eru tímamót meiri en nokkru sinni áður. Aldrei hefir áður í sögu mannkynsins verið á jafnskömmum tíma myrt og meitt og rænt og spillt einsog þessi síðustu ár: Hið helvítlega hafði máttinn, en hin rétta hugsun — því að hin rétta leið var fundin áður en þessi ósköp dundu yfir — var máttlítil og verr en vettugi virt. En séð er nú, hvernig fara muni, ef sú hugsun ekki sigrar. Eða sigraði, eins og réttara er að segja, því að nú eru það vísindin, sem komin eru til sögunnar. Nú þarf ekki annað en að nokkrir menn séu svo vísindalega skapi farnir, að reynt verði á réttan hátt að fá samband við þá sem lengra eru komnir á öðrum hnöttum. Sannleikurinn sem nú er hér svo máttlítill, mun sterkastur verða. Og þar sem sannleikurinn er hættur að verða máttlítill, þar er ekki Helvíti framar.

XXVI

Þeir lesendur mínir, sem rækilega hafa íhugað framangreinda tilraun til að sjá yfir framsókn lífsins og skilja tilgang þessarar framsóknar, hafa fengið talsvert af þeim undirbúningi, sem þarf til þess að geta virt fyrir sér með meiri árangri en áður, goðasögur og lýsingar á því sem menn hyggja vera andaheim. Verður nú í næstu köflum tekið til rannsóknar eitt og annað af því sem fróðlegast virðist af því tagi. — Skal hér enn vitnað í hina áðurnefndu bók Sir Olivers Lodge um son sinn. Raymond segir frá því fyrir miðils munn, að hann hafi séð „Krist”, en því miður er lýsingu hans á sjálfum þeim atburði sleppt. Það sem í bókinni stendur, er þó mjög fróðlegt. „Þegar ég var aftur kominn til Sumarlandsins,” segir Raymond (bls. 233), „fann ég, að ég var hlaðinn einhverju, einhverjum furðulegum krafti” (I felt when I found myself back in Summerland that I was charged with something — some wonderful power). — Þetta eru mjög eftirtektarverð orð, og þegar mönnum er kunnugt um lífstarfsíleiðinguna, magnanina (bioinduktion) má vel skilja, að einhver, sem mjög miklu lengra er kominn á hinni góðu framsóknarbraut, hafi einmitt þesskonar áhrif, sem Raymond segir frá.
Í bókinni Spirit Intercourse, ec., eftir J. Hewat McKenzie, 3. ed., er sagt frá svipaðri athugun. Er þar getið um andaheimssviðin (Spheres), bls. 158; fyrsta sviðið (Astral World) er 300, 500 og 750 (enskar) mílur frá jörðu. Sjöunda sviðið er, segir hann, frá 18000-35580 mílur frá yfirborði jarðar; Kristssviðið er það kallað, og lýsingin á því minnir mikið á “hina sönnu jörð”, sælustaðinn, eftir því sem Sókrates lýsir honum í því riti Platóns, sem Faidón heitir. Eru þar skínandi litir mjög, segir Sókrates, og gull og gimsteinar, og hvítara en mjöll, það sem hvítt er. Og þó er þetta, segir heimspekingurinn, á þessari sömu jörð, sem vér byggjum, gnæfir að eins miklu hærra upp, svo að það nær upp í ljósvakann eða uppheimsloftið (Faidón 110). Munu slíkar lýsingar síðar þykja merkilegri en nú, þegar menn ímynda sér, að enginn fótur sé fyrir þesskonar sögum; þar sé einungis um höfuðóra að ræða, eða skáldskap, tilbúning. — Um Kristssviðið eða 7. svið „andaheimsins” segir McKenzie, að þegar litið sé á það með mannlegum augum, virðist undirstaðan þar (foundations) vera úr ýmislega litum dýrum steinum, en strætin sem af gulli gerð (bls. 229). „Andi” frá 4. sviðinu, sem fær að koma upp á 7. sviðið, segir við McKenzie (bls. 230), að ferðin hafi ekki verið sér til ánægju. Þar hafi verið svo kalt og blindandi bjart. „Andinn” kveðst hafa séð inn í musteri, þar sem einhver sat í hásæti í ljóma miklum og talaði fyrir fjölda af öndum. Minnir þetta á lýsingu Sókratesar á hinni hátt gnæfandi “sönnu jörð”, því að hann segir, að þar séu guðahof og í þeim hofum séu guðirnir sjálfir (og eigi einungis guðamyndir). Þessi ljómandi vera lítur snöggvast á aðkomu-”andann”, bregður síðan upp lófanum og sendir honum Ijósgeisla af hendi sinni, og virtist þessi geislan gagntaka hann allan, svo að hann finnur til mikils friðar. Ef til vill má nefna hér til samanburðar orðin aisþeseis ton þeón úr lýsingunni á hinni „sönnu jörð”.
Því betur sem menn vita af lífgeislaninni og lífmagnaninni, því glöggar munu þeir sjá, að einmitt svona lagaðar sögur bera það með sér, að ekki er um tóman hugarburð að ræða, eða tilbúning, enda ekki erfitt að skilja hvernig slíkar sögur eru til komnar.

XXVII

Afar fróðlegar eru lýsingar Swedenborgs á Himnaríki og Helvíti. Væri um þær margt að rita, en hér skal aðeins minnst á nokkur höfuðatriði, ef orðið gæti til að skýra dálítið sumar hugmyndir. Býst ég þó við, að ýmsum mundi þykja greiðara að lesa, ef ritað væri í anda Swedenborgs og notuð slík orðatiltæki, sem eru í ritinu, „vísdómur englanna” t.d. En aðrir mundu aftur kjósa, að hiklaust væri litið svo á, að einungis væri um höfuðóra að ræða. — Swedenborg segir, að sólin sem er á loftinu þar í Himnaríki, sé guð sjálfur; hafi bæði englarnir sagt sér þetta og svo hafi hann einnig sjálfur séð það nokkrum sinnum. Á lýsingu Swedenborgs sést þó, að guð er í Himnaríki ekki einn hnöttur, heldur tveir; guð er einnig tungl bjartara en tungl jarðar vorrar, og umkringt af blikandi smátunglum. Guð sem tungl er mjög langt þaðan, sem hann birtist sem sól. Sólin í Himnaríki er rauðleit, og alltaf á sama stað á lofti, hérumbil 45° yfir sjóndeildarhring; er það sérstaklega fróðlegt að fá að vita það. Swedenborg segir ennfremur að stundum sjáist dökkt belti draga yfir sólina. Belti þetta verður dekkra og dekkra og að lokum er sólin ekki rauð heldur hvít, segir Swedenborg, og hefði lesandinn fremur búist við því, að hann mundi segja, að hún væri orðin dökk. En síðan sést þetta hvíta líða út af sólinni til vinstri handar og bæta sér við tunglið, og lýsir það þá bjartara en áður. (De Coelo et Inferno 118 og 159. gr.; de divino amore, 104. gr.).
Það er greinilegt að þarna ræðir um tíðindi úr öðru sólhverfi, og er ekki við öðru að búast en athuganirnar séu ónákvæmar, og ýmsu blandað saman, þar sem Swedenborg hafði engan skilning á því, hvað það var, sem fyrir hann bar. Hnetti annars sólhverfis — eða sólnahverfis — hyggur hann vera hinn andlega heim (mundus spiritualis) og sólina þar eða sólirnar, — því að þarna virðist vera um tvísólhverfi að ræða, — hyggur hann vera guð. En því betur sem menn hugsa málið, því síður mun þeim koma til hugar, að athuganir eins og þessar séu ekki annað en höfuðórar. Þrennt virðist það vera, sem Swedenborg blandar saman: 1. Blettmyndun á hinni rauðu sól; blettirnir eru í röðum, og séu mjög mikil brögð að þeim, gæti verið að ræða um eins og dökkt belti á sólu 2. Sólmyrkvi; yrði sólin þá dökk þegar tunglið gengi fyrir hana 3. Að hin hvíta sól gengur fyrir rauðu sólina; sýnist þá rauða sólin vera hvít um stund, og skiljanlegt að Swedenborg segir að hið hvíta, sem gengur út af sólinni til vinstri handar, bæti sér við tunglið. En það tungl er hvíta sólin.
Þar sem Swedenborg segir, að hann hafi sjálfur séð sól hins andlega heims, þá er það svo að skilja að honum finnst sem hann sjái það sem íbúa jarðstjörnu í öðru sólhverfi ber fyrir augu. Og sú jarðstjarna er orðin mjög gömul. Snúningur hennar um möndul sinn er orðinn bundinn, sem kallað er, og snýr því alltaf sömu hliðinni að sól, eða því sem næst. Sólargangi þeim, sem stafar af snúningi jarðar um sjálfa sig, virðist þar vera lokið. Að slíku stefnir einnig á jörðu hér. Þegar sólhverfi vort verður orðið nokkrum tugum áramilljóna eldra, verður sólin orðin rauðleit, blettaraðirnar á henni miklu stórkostlegri en nú, og jörðin verður allt árið að snúast einu sinni í kringum sjálfa sig, svo að sólargangur verður ekki annar en sá, sem hlýst af halla jarðarmöndulsins; er ekki ólíklegt, að maður á öðrum hnetti sem sæi sólina fyrir samskynjan, segði, að hún færðist ekki úr stað.
Herodot getur um (IV, 42), að menn, sem sigldu suður um Afríku, hafi sagt, að sólin yrði þeim á hægri hönd. Kveðst Herodot ekki trúa þessu. En þegar mönnum varð kunnugt um lögun jarðarinnar og eðli sólargangsins, skildu þeir, að af þessari sjómannasögu má einmitt marka, að satt muni vera sagt um siglinguna. Það er líkt ástatt um þessar sögur Swedenborgs af því sem hann hafði séð í hinum „andlega heimi”. Mannlíf er þar mjög langt komið í tvær áttir, eins og vera mundi, þar sem mannkyn hefði átt sér miklu lengri sögu en á jörðu hér. Hnötturinn sjálfur er farinn að snúa alltaf sömu hlið að sólu, eins og vera mundi um jörð, sem eldri miklu væri en vor. Og sólin er farin að verða rauðleit, eins og sólirnar verða, þegar ellin fer að sækja á þær. Ef til vill mætti hér líka nefna blettmyndun miklu meiri en á vorri sól. Á slíkri jörð væru öðrumegin myrkheimur, þar sem aldrei sæi sól, og öðrumegin ljósheimur, þar sem aldrei yrði dimmt af nóttu, og væri eðlilegt, þar sem svo hagar til, að tala um ríki ljóssins og ríki myrkranna. Mætti búast við því, að í ríki myrkranna væru lífmyndir ýmsar furðulega ferlegar. Er hér ástæða til að minnast þess, að á jörðu hér er til myrkraríki eða myrkheimur, fjölbyggðari miklu en sólheimur, því að í myrkri og kulda úthafsins, þar sem aldrei neinn sólargeisli nær niður, svo að menn hugðu fram á miðja síðustu öld, að engri skepnu mundi þar líft, úir og grúir af lifandi verum.

XXVIII

Það var ekki fyrr en hundrað árum eftir að Swedenborg ritaði lýsingu sína á Himnaríki og Helvíti, sem menn vissu að sólirnar breyta lit með aldrinum, eru hvítar fyrst, verða svo gular, en síðan rauðleitar. Og Swedenborg er ekki einn til frásagnar um, að sólarbirtan í „öðrum heimi” sé rauðleit; orð Vergils í Æneasarkviðu benda í sömu átt:
Largior hic campos æther et lumine vestit purpureo.
(Æn. VI, 640).
Og enn má hér nefna Sólarljóð:
Sól ek sá
setta dreyrstöfum.
En Sólarljóð virðast vera til komin eins og „En Vandrer i Aandeverdenerne” (ég hefi einungis séð dönsku þýðinguna) og “Through the mists”, lýsingar á „andaheiminum”, sem síðar verður nánar getið. Er kvæði þetta, sem svo snilldarlega er ort, til orðið fyrir vitsamband við íbúa annars hnattar, sem skáldið hyggur vera sál framliðins í andaheiminum; er svo að sjá sem þar ræði um rauðleita sól mjög; og að það sé ekki sól „þessa heims”, þessa sólhverfis, kemur fram í orðunum:
máttug leizk
á marga vegu,
frá því’s fyrri vas.
Það er fleira í Sólarljóðum, sem fróðlegt er að bera saman við orð hins sænska annarsheimsfræðings. Swedenborg hélt, að sólin, sem hann fyrir vitsamband sá á himni annars hnattar, væri guð; hann blandaði þar saman mjög lýsandi veru, sem líður í lofti, og lýsandi himinhnetti; er hér rétt að minnast þess, að „guð” og “sól” þýðir hvorttveggja hið sama; skínandi. En í Sólarljóðum er einnig blandað saman sól og guði:
Sól ek sá
svá þótti mér
sem sæjak göfgan guð;
Og í næsta erindi segir:
Sól ek sá
svá hón geislaði
at þóttumk vætki vita.
Einnig þetta kynni að lúta að því, að sá sem séð hefir, er í vafa um, hvort heldur sé sólin eða geislandi vera í mannsmynd. Swedenborg segir, að guð sé í miðri sólu, ljóshnötturinn verður fyrir skinið frá guði. Og frú Blavatsky hefir það eftir Demokrit, að guð (Deity) sé sál í hnattmynduðum eldi (Secret doctrine III, s. 323). Má nú vel skilja, af hverjum rótum slíkar sögur eru runnar og slíkur misskilningur.

XXIX

Swedenborg er ekki einn til frásagnar um, að sólargangur í “andaheiminum” sé ekki eins og „hér í heimi” heldur einmitt eins og búast má við, ef í raun réttri er sagt frá gömlum hnetti, þar sem möndulsnúningur er bundinn orðinn, og sólin flyst því ekki annað til á himninum — ef „libration” sem kynni að vera, er sleppt — en það sem verður á einu ári sakir möndulhalla. Um Elysion, sælustað fyrir framliðna, sem Grikkir hugðu vera, var sagt, að sólin settist þar aldrei. Í bók Sir Olivers Lodge, Raymond, er á þetta minnst, ekki alveg ófróðlega. Sambandsvera miðilsins, frú Leonard, segir (s. 200), að Raymond þyki það dularfullt, að í andaheiminum séu ekki reglubundin umskipti dags og nætur, eins og á jörðu hér. En ég býst við, að þið (í andaheiminum) sjáið sólina, segir O. J. L. Já, segir sambandsveran, fyrir munn miðilsins, hann sér sólina, en það virðist alltaf vera hér um bil sami hiti, hann finnur ekki til hita eða kulda, þar sem hann er. Lesandinn býst fremur við, að svarað sé: en það virðist alltaf vera hér um bil sama birta, hann (Raymond) finnur ekki mun dags og nætur þar sem hann er. En þó er ekki við því að búast, að betur sé svarað en spurt er; spyrjandinn hefir ekki, svo séð verði, neina hugmynd um, að það sem um ræðir, er líf á öðrum hnetti, og vanþekking hans og misskilningur skapar svar „andans”. Það virðist nokkur ástæða til að furða sig á því, að þeim sem á annað borð taka nokkuð mark á því sem „andarnir” segja, skuli ekki fyrir löngu vera farið að skiljast, hvað „andaheimurinn” er. Í Raymond, bls. 184 er t.a.m. sagt, að ef menn krjúpi á kné í leðjunni (í andaheiminum!), þá sé svo að sjá, sem klæði þeirra óhreinkist. Skýringartilraunir Hyslops má nefna sem sýnishorn þess, hvernig hámenntaður spiritisti fer að komast undan að skilja það, sem augljóst gæti verið. Fróðlegri fréttir af sólarganginum í öðrum heimi fáum vér í bók, sem heitir; En Vandrer i Aandeverdenerne. Af Franchezzo. Afskrevet af A. Farnese. Oversat og udgivet af B. Thorstenson. Skien 1906. — Formáli A. Farnese er ritaður í Lundúnum 1896. Bók þessi er á köflum æði þvaðurkennd, en þvaðrið er ekki ófróðlegt, því að það er auðséð, að það er framkomið fyrir áhrif frá manni á öðrum hnetti, og má víða nokkurnveginn skilja, á hverja leið sagan mundi vera, ef rétt væri frá sagt. Er frásaga þessi líkt til komin og Sólarljóð, þó að snilldarmunur sé mikill. „Andinn” sem í bók þessari segir frá því sem á dagana hefir drifið eftir dauðann, virðist vera maður á öðrum hnetti, sem einhver á jörðu hér hefir verið í sambandi við (bioinduktivt). Skulu menn íhuga hér til samanburðar, það sem áður er sagt frá því, hvernig „andi” talar um, að maður á jörðu hér hafi verið settur í samband við sig (linked on to). Þegar þessi maður deyr, verður sálufélagi hans á öðrum hnetti brjálaður (fær paranoia), og heldur, að hann sé sá sem dáinn er. Sambandið er þannig, að hann finnur til þessa rotnandi líkama, sem hann hyggur vera sitt eigið lík, og fær þetta honum mikillar skelfingar og þjáningar. Geðveikralæknar á jörðu hér mundu ekki vera í vafa um, hvað þeir ættu að kalla slíkt. Maðurinn, sem heldur, að hann sé sál framliðins og nú í „öðru lífi”, virðist vera undir læknishendi, og heimkynni hans (sem segir frá á bls. 37), með ótal klefum og mörgum göngum, virðist vera vitfirringahæli. Það er eftirtektarvert, hversu oft virðist vera um eitthvað slíkt að ræða í andasögum, og menn munu finna þegar þeir fara að rannsaka slíkt á vísindalegan hátt — en það hefir ekki verið gert ennþá — að hvergi er eins auðvelt til sambands við slíka staði, eins og einmitt á vitfirringahælum. Má hér einnig minna á það sem áður er sagt um það, sem virðast vera lækningatilraunir við „Raymond”, eða þennan mann á öðrum hnetti, sem hyggur að hann sé Raymond Lodge, dáinn og nú í öðru lífi. „Andinn” Franchezzo segir fróðlega mjög af landafræði andaheimsins. Þar í „öðrum heimi” eru, eftir lýsingu hans, belti þar sem alltaf hagar eins til um birtuna. Í þriðja belti jarðarsviðsins eru þeir staðir, sem kallaðir eru rökkurlöndin, segir hann (s. 46). Alltaf er þar rökkur, aldrei svartnætti og aldrei bjartur dagur (s. 83). Dalur er þar, sem hann lýsir lítið eitt. Hvergi er þar stingandi strá, hvergi svo mikið sem lyngkló, dökkar, gráar grjóthlíðar að, og sífelldur rökkurhiminn yfir (s. 53). Og að vísu hlýtur að vera „eilíft kvöld” einhverstaðar á hnetti þar sem lokið er sólargangi af snúningi jarðarinnar um sjálfa sig. „Andinn” segir frá stöðum, þar sem birtan er ennþá minni (s. 57); er þar nálega næturmyrkur. Hann tekur það fram, að jarðrækt sé þar alls engin, og mennirnir, sem hann sér eru dýrslega ófríðir. Í öðrum stað (s. 150) er beinlínis nefnt næturland. „Andinn” getur þar um „eitthvað, sem líkist gíg á ótrúlega stóru eldfjalli” (s. 149), og í góðu samræmi við það er, að sumstaðar sér hann í því landi grjót, sem hann lýsir mjög líkt því, sem um hraun væri að ræða; en sumt virðist vera vikursléttur “eins og öllum ónýttum vonum og hverju einu eyðilögðu jarðlífi hefði verið stráð þarna yfir”. Get ég þess, að sú skáldlega setning muni runnin frá ritara sögunnar, sem er nokkurnveginn laus við að skilja hvað um ræðir, heldur en frá andanum. „Andinn” sér á þessum stöðum feikna stórar leðurblökur, og ræðir þar ef til vill um samskonar dýr og þau, sem í Sólarljóðum eru sögð á flugi í „kvölheimum”, og kölluð sviðnir fuglar. Íslendingnum var ekki tamt að hugsa sér leðurblökur, og honum varð fyrir að ímynda sér, að þessir fjaðralausu „fuglar” mundu vera sviðnir. Ef til vill ræðir þar um fleyg skriðdýr, lík þeim sem uppi voru á miðöld jarðar vorrar, og voru 22 fet milli vængbroddanna, hin stærstu, sem leifar hafa fundist af. Jurtalífinu þarna í myrkheimi lýsir Franchezzo einnig að nokkru, og ekki ófróðlega. Eru þar dimmir, þéttir skógar af risavöxnum trjám (s. 195). „Tré” þessi eru svört og engin blöð á; þykk og fúl kvoða smitar út úr þeim; ræturnar (mycelium!) minna á slöngur; einkennileg dökk hula er yfir greinunum (sbr. capillitium sumra sveppa). Er það greinilegt af lýsingu þessari, að hér ræðir um sveppkenndar jurtir, mjög stórkostlegar, og er það einmitt þesskonar gróður, sem búast má við í myrkheimi; er furðulegt næsta, hvernig sannleikurinn nær þó að skína í gegn, þrátt fyrir algerðan skilningsskort söguritarans á því, hvað það er í raun og veru, sem hann er að segja frá. Sveppir þessir eru ránjurtir mjög geigvænlegar. Franchezzo sér “sálir”, sem fastar eru við þessi „tré” . Veina þær aumlega og stritast við að losa sig, en geta ekki; og það er ekki ótrúlegt, að það sé rétt hermt, að hljóðin í „sálunum”, sem „tré” þessi hafa náð í, séu lík því, sem er, þegar farið er að draga af mönnum. Virðist ekki ofmælt að kalla kvölheima staði þar sem jafn hryllilegur dauðdagi getur biðið manna eins og þeir fá, sem verða ránjurtum þessum að bráð. Sumar „sálirnar” voru fastar þannig, að rót (myceliumsþráður?) hafði vafist um fót þeirra; hönd einnar hafði límst svo fast við trjástofn, að ekki varð losuð; greinar höfðu lukst um höfuð og herðar einnar; og ein var hulin í net af “svörtum mosa” (capillitium sveppsins). Leðurblökur sér andinn þarna í skóginum, og ferleg rándýr eru á gangi í kringum hinar illa stöddu „sálir”, en snerta þó ekki á þeim. Er það ekki ótrúlegt. Greinar og „rætur” ránsveppanna virðast geta seilst eftir bráðinni, og rándýrin þora þess vegna ekki að hrifsa hana af þeim. L

XXX

Nú skulum vér gera annan samanburð, ekki síður fróðlegan, og mun þá koma í ljós, hvers vegna Swedenborg segir, að sólin, sem er á loftinu í Himnaríki, sé guð sjálfur. Er það mikils vert að geta haft greind við á því svæði, sem mest hefir ruglað verið, og sigra með afli skynsamlegs vits, þar sem jafnvel hinir fróðustu menn hafa sagt, að engu viti yrði við komið.
Skal nú fyrst virða fyrir sér lýsingu frá 3. öld e. K. á því sem grískir spekingar nefndu kosmos noetos, eða hugarheiminn, heim hugsunarinnar, ef þýða skal eftir því, sem menn hafa álitið rétt vera.
Til eru eftir spekinginn Plótínos 54 ritgerðir, sem lærisveinn hans Porfyrios gaf út og skipti í 6 flokka, 9 ritgerðir í hverjum (enneades, níundir). Þykir mér þar einna merkilegust 8. ritgerð í 5. flokki, um fegurð hugarheimsins, perí tou noetou kallous, og skulum vér þar athuga 10. kaflann nokkuð (Enn. V, VIII, 10). Er frásögnin ógreinileg og ekki auðskilin, og er við slíku að búast, þar sem spekingurinn vissi ekki fremur en þeir, sem eru að segja frá „andaheiminum”, hvað það er í raun réttri, sem hann er að lýsa. Til þess að það yrði vitað, þurfti að vera lögð undirstaða þeirrar furðulegu vísindasmíðar, sem sálufræði framtíðarinnar verður. Plótín segir frá því, hvernig Zevs fer sjálfur fyrstur að skoða fegurð hugarheimsins, en síðar koma aðrir guðir og vættir (daimones) og sálir þær sem megna að skoða slíkt. Og guðinn birtist þeim úr einhverjum stað, sem þeir sjá ekki, og kemur hátt á loft (sama orðið er notað og haft er um sólina: anateilas og sendir geisla sína niður um allt og fyllir allt af ljóma. Og þeir sem niðri eru, snúa sér undan og þola ekki að horfa, fremur en í sól væri að sjá. Sumir verða þeir þó, sem þola ljómann og horfa, en aðrir truflast, og því meir, því fjær sem þeir eru guðnum. —
Sumir munu vilja halda því fram, að spekingurinn tali hér í líkingum, en bersýnilegt er, að lýsing þessi á rót sína í vitrun, sem spekingurinn hefir fengið fyrir vitsamband: hefir hann fengið þátt í skynjun einhvers, sem á öðrum hnetti sá lýsandi veru birtast. Og einmitt af því að skyggnir menn hafa oft séð slíkar sýnir (bæði spámaður og skáld þýðir í fyrstu, ef ég skil rétt: sá sem sér sýnir) er það, sem guð og guðanöfn flest þýða: hinn lýsandi. Getum vér nú litið á þetta náttúrufræðings augum, og í sjálfu sér er það ekkert furðulegra, að til skuli vera lýsandi menn, heldur en lýsandi liðdýr og smokkfiskar, eins og enoploteuthis-tegund ein, sem kvað geisla frá sér furðulega fögru bláu, rauðu og hvítu ljósi.
Nokkurri birtu bregður yfir þessa furðusýn „hins hugsaða heims”, sem Plótín segir frá, ef vér athugum lýsingu Swedenborgs á því, hvernig drottinn birtist á annarri stjörnu. Vér sjáum, að það er samskonar atburður, sem sagt er frá, og stórlega eftirtektarvert er það, að eftir sögn Swedenborgs birtist drottinn á líkan hátt í „andaheimnum”, eins og í þessum heimi, á annarri stjörnu. Segir Swedenborg í ritinu um jarðstjörnur o.s.frv. (On the Earths in the Universe ec.; frumritið er hér því miður ekki til) mjög fróðlega frá því, hvernig hann hafi séð drottin birtast á annarri jarðstjörnu. Í austri kom í ljós ský, sem færðist nær og varð bjartara eftir því sem það lækkaði. Loks sást þar mannsmynd í blossandi geislum, umkringd af smáum stjörnum jafnbjörtum. „Þannig birtist drottinn frammi fyrir öndunum sem ég var að tala við,” segir Swedenborg (Earths, 171. gr.). Segir hann þessu næst frá því, hvernig góðir og illir andar eru aðgreindir — því að þó að sögustaðurinn eða leiksviðið sé þarna annar hnöttur, þá eru leikendurnir, dramatis personæ, að því er Swedenborg hyggur, andar. Aðgreining „andanna”, sem verður þegar „hinn skínandi” birtist, er einnig minnst á í lýsingu Plótíns, þó að öðruvísi sé þar til orða tekið. Swedenborg sér því næst, að hin skínandi vera fer að vitja lægri hluta þeirrar jarðar, og dofnar þá ljóminn meir og meir, uns veran hættir að skína. Þetta atriði er mjög eftirtektarvert og eitt af því sem sýnir, að Swedenborg er ekki að segja frá því, sem eingöngu hafi verið höfuðórar. Swedenborg hefir þarna ekki hugmynd um, hvað það er, sem hann er að segja frá. Þegar hin skínandi vera er komin til þeirra, sem lifa í illindum og vanþekkingu, þá dregur svo úr lífsafli hennar, að hún megnar ekki að lýsa. Hér ræðir um samskonar staðreynd og þá, sem getið er um í sögu Krists með orðunum: þar gat hann engin kraftaverk gert sakir vantrúar þeirra. Af svipuðum ástæðum var það, sem Swedenborg sjálfur gat engin kraftaverk gert, og dró úr mætti völunnar frú Blavatsky til að gera slíkt, eftir að rannsóknir Hodgsons, sem gerðar voru af svo megnum skilningsskorti á því sem rannsaka átti, höfðu orðið til þess, að margir eða flestir héldu, að brögð hefðu verið í tafli, og blekktir þeir sem þóttust sjá hana gera kraftaverk. — Smá kraftaverk eru annars algeng, og þeir sem helst eru lítiltrúaðir á slíkt, læknarnir, gera margt af því tagi. Er slíkt ekki dularfullt í augum þeirra, sem þekkja lífstarfsíleiðinguna (bioinduktion) og „hið mikla samband” og eitthvað af þeim lögmálum, sem þar koma til greina. Sá sem eitthvað hefir af þeirri þekkingu, getur sagt: fáið mér nokkra menn, sem hafa hið rétta hugarfar, halda ekki (og það þar sem síst skyldi), að það sé rangt, sem er rétt, treysta mér svo sem þarf, og vér munum koma til leiðar slíku, sem kallað hefir verið kraftaverk. Og að vísu er það ekki rangnefni, því að þar ræðir um afl, sem mun verða mjög mörgum sinnum stórvirkara en rafmagn, þegar menn læra með það að fara. Þar sem verið er á hinni vondu leið, vita menn ekki, hvernig traustið magnar. Hafa menn oft hér á jörðu magnað hina verstu menn með trausti sínu og aðdáun, beinlínis komið sér upp nokkurskonar djöflum, sem fóru yfir löndin báli og brandi, eða lögðu þúsundir á kvalabekk, til þess að kremja þá og brenna, eins og gert var í húsi því á Spáni, sem þeir kölluðu hið heilaga (Santa casa). Og hinsvegar hafa þeir svo lamað hina bestu menn með vantrausti sínu, jafnvel þegar þeir ekki beinlínis ofsóttu þá, og lagst þannig á móti því, að vaxið væri í áttina til hins guðlega. Og því er sem er. Vegna skortsins á mannþekkingu mest, og fylgisleysis við þá sem helst voru fylgis verðir, er mannlegt félag þessi skrípamynd þess sem verið gæti.
Nú víkur aftur að sögu Swedenborgs. Skýið, sem hann hafði séð, segir hann, var hópur af englum með drottin í miðju, og kom hann til þess að hjálpa þeim sem þegið gætu hjálpina, til þess að gera með sér þess konar félag, sem Swedenborg nefnir societas coelestis; en einkenni þess félagsskapar mun einmitt vera það, að menn eru farnir að skilja tilgang lífsins, og víxlmagnan sú og samstilling, sem áður hefir verið getið um, er þar komin í það horf, sem þarf að vera, til þess að orka eins geti verið allra og allra eins. Það er auðsjáanlega þesskonar félag, sem Plótín er að lýsa í áðurnefndri ritgjörð um fegurð hugarheimsins, 4. kafla. Jafnvel hinir frægustu heimspekingar, eins og Henri Bergson, hafa ekki tekið eftir því að það er hið sama, sem báðir eru að lýsa, Swedenborg og Plótín, þó að annar kalli það hinn andlega heim, mundus spiritualis, eða eins og í það skipti, sem hér ræðir um, annan hnött, en hinn, hugarheiminn, kosmos noetos, eða himininn þar (panta gar ekei ouranos Enn. V, VIII, 3). „Auðvelt er þar að lifa,” segir Plótín, „og sannleikurinn er þeim (guðunum) móðir og fóstra og vera og næring; og þeir sjá allt, eigi einungis það sem á sér upphaf, heldur einnig það sem er (án upphafs og endis; hið fullkomna). Og þeir sjá sjálfa sig í öðrum (þetta kynni að lúta að því, að þeir sem langt eru komnir á öðrum hnöttum, vita sennilega, þegar menn á jörðu hér og víðar, í svefni, fá einhvern þátt í veru þeirra og meðvitund). Því að allt er gagnsætt og ekkert myrkt eða andstætt, en hver og einn sér inn í alla og allt. Því að ljósið er bjart ljósinu. Og hver og einn hefir allt í sjálfum sér og sér aftur allt í öðrum, svo að allstaðar er allt, og allt er allt og hvað einstakt er allt og ljóminn er óendanlegur … Og sólin er þar allar stjörnur og sérhver stjarna sól og allar” (V, VIII, 4).
Þannig lýsir goðmálugur maður ástandinu, merkilega fullkomnu mannfélagi á öðrum hnetti, án þess þó að skilja, hvað um ræðir í raun réttri. Og er þó lýsingin merkileg. Taka ættu menn eftir því, hversu fróðleg setningin er um sólina og sólirnar, og mikilsverð sem sýnishorn þeirrar vitneskju, sem fæst fyrir vitsamband. Því að það sem þannig kom fram í meðvitund Plótíns, mun hafa verið vitneskja sambandsverunnar um þetta, sem Brúnó uppgötvaði löngu seinna, að hinar óreikulu stjörnur, er þeir nefndu svo, eru sólir. Fyrri hluti setningarinnar kynni að eiga rót sína að rekja til þess, að jarðstjörnurnar eru afsprengi sólnanna.
Enn segir Plótín (V, VIII, 3): „Guðirnir, sem þar eru (í himni hugarheimsins), fyrirlíta ekki mennina (sem eru í þeim himni) og ekki neitt annað af því sem þar er, vegna þess að það er slíkt, sem þar er (eða af því sem þar er), heldur fara um allt landið þar og hvern stað, þegar þeir sofa (eða hvílast).” Hér til er samanburðar saga, sem Swedenborg segir úr andaheiminum. Andar nokkrir tóku á sig hvíld hálfa stund, og þegar þeir vöknuðu aftur, kváðust þeir hafa verið á himnum og séð óumræðilega hluti.
Þegar vér höfum skilið eðli drauma og vitum, að þeir verða fyrir það, að meðvitund annars (og annarra) kemur fram í hinum sofandi heila, sjáum vér að slíkar sögur muni ekki vera tilbúningur. Og áður á löngu líður, mun aðferð sú, sem hér ræðir um, mikið verða notuð á jörðu hér, til þess að rannsaka lífið á öðrum stjörnum; mun þá vitað verða það sem þarf, til þess að vísindalega sé að verið. Umfram allt verður að læra hið rétta traust á vitringnum, og vita, að þetta má gera. Vér megum búast við því, að á öðrum hnöttum séu sumstaðar þeir sem kunna svo að taka í sig annarra meðvitund, að þeir viti jafnvel vorar leyndustu hugsanir. Þeim sem þekkja sumar undirstöðuuppgötvanir í sálufræði, er ljóst hvernig slíkt getur orðið. Og eins munu þeir sem langt eru komnir að visku í öðrum stöðum, geta látið oss hafa þátt í sinni meðvitund, þegar fáviska vor verður ekki til fyrirstöðu. Mun þá verða öldin mjög ólík þeim heimsku- og hörmungatímum, sem nú eru. Hjálpin stendur til boða, ef menn vildu þiggja. En í Vítunum gengur svo illa að skilja þetta. Jafnvel í hinum vægari Vítum eru það stríðir straumar, sem halda verður gegn, sá sem séð hefir hið rétta, og ætlar sér að breyta hugarfarinu. Því verra sem Vítið er, því örðugra á sannleikurinn uppdráttar, því meir er spyrnt á móti viðleitninni á að auka þekkingu og visku, og því ríkara er hugarfar slíkt, sem kom fram í því að brenna Brúnó, en tigna Calvin.

XXXI

Til er bók, sem heitir; Through the Mists, or Leaves from the Autobiography of a Soul in Paradise. Recorded for the Author by Rbt. Jas. Lees, 5. pr. 1916 (1. prentun 1898). Er sú saga af lífinu lengra fram, til komin líkt og Sólarljóð, og frásögn Franchezzos, sem áður var á minnst, og fróðlegt mjög að bera hana saman við sögur Plótíns og Swedenborgs. Kveðst Lees aðeins skrásetja söguna, en höfundurinn, segir hann, sé sál í Paradís. Og að vísu fáum vér í bók þessari fróðlegar fréttir af lífi á öðrum hnetti. Sálin segir þarna (bls. 353) frá hátíð nokkurri í andaheiminum (sem Lees hyggur vera). Er þar fagurt og fjallasýn mikil; rís þar í fjarska tindur við tind. Sálin nýtur þarna leiðbeiningar veru nokkurrar frá æðra tilverustigi. Myhanene (en svo heitir vera þessi) kom við mig, — segir sálin, — og vakti eftirtekt mína á ljóshnetti, sem kom upp á bak við fjöllin og féll í áttina til okkar, hratt sem stjörnuhrap. Minnir þetta mjög á það, sem Plótín segir um uppkomu hinnar skínandi veru í hugarheiminum. Sálin snýr sér nú að leiðtoga sínum, til þess að spyrja hann, hvað þetta sé; verður hún þess þá vör, að hann hefir breyst, og er ennþá bjartari en áður. Ljóshnötturinn hefir verið hópur af björtum verum með foringjann í miðju, og hefir Myhanene magnast við tilkomu hinnar skínandi fylkingar. Ber þessu vel saman við lýsingu Swedenborgs, sem áður var um getið. En þó er sá eftirtektarverði munur, að englahöfðinginn er hér ekki drottinn sjálfur eða Kristur. Omra heitir englahöfðinginn, og er það að vonum, að nafnið sé arabískt. Erindi hinnar skínandi fylkingar er að velja úr „sálir” þær sem hæfar eru til fullkomnara lífs, og hafa þær burt með sér til ennþá fegri staða í „andaheiminum” en þessi er. Sést það undir eins á því, hvernig mönnum verður við komu hinnar skínandi fylkingar, hverjir hæfir eru. Ber hér enn á mjög merkilegan hátt saman við sögu Plótíns úr hugarheiminum, og Swedenborgs af öðrum hnetti. Má vel skilja, þegar menn vita af magnaninni, bioinduktioninni, að afskipti hinna fullkomnari af hinum ófullkomnari, muni vera eitthvað í þessa átt, þar sem stefnt er af þekkingu til hinnar miklu samstillingar og lífheildar (Überorganismus; Hyperzoon). Hinir lengra komnu hjálpa þeim sem þeir geta, en sumum verður ekki hjálpað; hugskot þeirra eru of full af röngum ímyndunum, og þegar þeir verða fyrir áhrifum af hinum lengra komnu, þá fer einmitt eins og Plótín segir, þeir verða truflaðir (tarattontai) verða ennþá ruglaðri en áður. Það er samskonar atburður, sem um ræðir, þó að í stærra sal sé, eins og þegar einhver í einhverju inferno, hefir þrátt fyrir allt, áttað sig á stefnu og tilgangi lífsins, fundið þau sannindi, sem ekki hafa sögð verið í neinum trúarbrögðum og ekki í neinni heimspeki, gert þær uppgötvanir sem þarf, til þess að öld vísindanna hefjist fyrir alvöru, og breytt verði um til þeirrar stefnu sem liggur fram, endalaust fram til fegra og betra lífs — og þegar svo þeir sem heyra slík tíðindi eða lesa, ímynda sér, að þessi maður fari með eitthvert rugl, og sé ekki með öllu viti. Skilja þeir svo ennþá minna í lífinu en áður, og geta að vísu um stund lamað þann sem hefir reynt til að hjálpa þeim, en leggja þó sjálfir á slysabraut verri en áður, fyrr en þeir vitkist. Væri ef til vill þess vert, að vekja eftirtekt á því, hvernig margt það, sem að einhverju leyti gnæfir hátt í þjóðfélagi voru, hefir fengið hörð slög, síðan farið var, en án þess að nokkrum skilningi væri að mæta, að vekja máls á þýðingarmeiri sannindum en áður höfðu sögð verið á jörðu hér; síðan farið var að segja frá einmitt þeim uppgötvunum, sem breyta stefnunni, þegar rétt er tekið undir.
Vér höfum séð, hvernig fornspekingurinn Plótínos, náttúrufræðingurinn og goðorðsmaðurinn Swedenborg 1500 árum síðar, og andatrúarmaðurinn Lees um aldamótin 1900, tala allir um nokkurskonar val til fullkomnara tilverustigs, á þann hátt, að skilja má, að ekki er um hugarburð eingöngu að ræða. Samstefna þessara tíðinda úr ýmsum heimum, eykur mjög líkurnar til þess, að af sönnu sé sagt, þó að margt sé missagt og fleira vansagt. Og á mjög eftirtektarverðan hátt, gerði þessi sami sannleikur vart við sig í átrúnaði forfeðra vorra. Valhöll heitir bústaður Óðins, og var skipuð mannvali því sem þangað hafði verið kosið. Og eins Vingólf (Vin-gólf). Þeir sem fallið höfðu í val, fóru í þessa staði og nefndust þeir Einherjar. Hugmyndir forfeðra vorra voru rangar og ónógar, þeir vissu ekki, að Æsir eru lengra komnir menn á öðrum hnetti. En þó benda þessi nöfn á mjög merkilegan hátt til þess, hvað átt er við. Að Einherjar hafi svo heimskulega skemmtun, sem sagt er, þykir mér ólíklegt. Mun annað þarfara vera þar að vinna með Óðni. Þykir mér hitt líklegra, að orðið Einherjar lúti að samtökum og samstillingu hins fullkomnara mannfélags. Sögunni um að Einherjar kjósi val með Óðni, ber vel saman við það, sem áður var sagt úr ýmsum heimum. Mun fróðlega mega um þetta rita, þegar tekst að gera undirstöðuatriðin ljós, og goðafræðin verður orðin að náttúrufræði, zóologi og biologi. Þá verða líka til ný vísindi, sem munu skýra, hvernig sambandið við aðra hnetti fer eftir loftslagi, landslagi og hnattstöðu. Menn munu skilja, hvers vegna trúarbrögðin urðu með einum hætti á Egyptalandi, öðrum í Indlandi, þriðja í Perú, eigi einungis eftir mannætt, heldur einnig af þeim ástæðum, sem vikið var á. En menn munu einnig skilja betur miklu en áður, hvers vegna sumt í kenningunum vestan hafsins, varð svo líkt því sem trúað var á Egyptalandi og austar. Menn munu skilja, hvers vegna Tíbet og Spáni svipar svo merkilega saman í trúarefnum. Menn munu rannsaka, í sambandi við jarðfræði og landafræði, muninn á persneskri og arabískri „opinberun”, og einnig að því leyti, sem hann kemur fram í þessum sögum, sem á ensku hafa verið nefndar Arabian Nights (1001 nótt); því að ýmsar af þeim sögum eru síður af Austurlöndum en af öðrum hnöttum. Í stuttu máli, þokunni mun létta, og menn munu fara að skilja sögu mannkynsins.
Sál þessi í Paradís, sem Lees kveðst rita fyrir, lýsir landslagi í „andaheiminum” að sumu leyti betur en „andinn” Franchezzo gerir; en þó vantar gróðurlýsingar slíkar, sem eru hjá þessum síðarnefnda anda, og ekki er heldur, eins og í lýsingu Franchezzos, minnst á vora jörð sem stjörnu, í margra milljóna mílna fjarlægð frá bústað andanna. Myhanene fer með „sálina” að sýna henni landið. Er það hjallaland, fagurt mjög og stórkostlegt; eru þar bústaðir hinir glæsilegustu. Bústaður Omra blasir þar við þeim, fjarri mjög, í mikilli geisladýrð, og getum vér skilið af slíkum lýsingum, hvernig muni vera til komin nöfn á bústöðum goðanna, slík sem Glitnir og Breiðablik. Landslagslýsing „sálarinnar” kemur lesandanum til að hugsa um land eins og Mexicó, sem hinn ágæti landfræðingur Carl Ritter taldi framtíðarvænlegast land á jörðu hér, og er þar þó enn í aumasta lagi fólk, fleiri drepnir og kvaldir til dauða en trúa mundi sá er tölurnar sér. Má sín þar meira fáviska fólksins, sem flest kann hvorki að lesa né skrifa og hefir fyrir leiðtoga lítt menntaða presta og jafnvel ennþá síður menntaða ræningja, heldur en gæði lands og lofts. En þó kynni einnig þarna, fram að koma spá Ritters, sú sem þegar er farin að rætast að nokkru á Bandaríkjunum. Virðist svo þar á jörðum, sem verið er á framfaraleið, sem menn rannsaki mjög nákvæmlega sögu sinnar jarðar og landslag allt, uns þeir hafa áttað sig á, eigi einungis því sem hefir gerst, heldur einnig því, sem er að gerast, og vita æ betur og betur, hvað í vændum er. Komist jarðfræðin síðan svo langt, að menn læri að stjórna jarðöflunum eftir villd sinni. Skapi menn þá landslag meir og meir eftir mannkynsþörfum, og þó þannig, að fari saman fegurð og nytsemi. Er ekki ólíklegt, að í Mexicó verði í fyrra lagi reynt eitthvað stórkostlegt í þá átt, þó að nú sé þar Víti verra, en víðasthvar annarstaðar er á jörðu hér, þegar ekki þjakar ófriður við aðrar þjóðir eða eftirköst ófriðar.

XXXII

1
Hið mikla samband skýrist enn nokkuð fyrir oss, ef vér lítum á, eins og nú skal sagt. Er nú kostur þess útsýnis, að skilja megi, hversu það sem menn hafa nefnt náttúruna, er einungis eins og dálítil vík af hinu mesta úthafi.
Eins og áður er á vikið, verður að gera ráð fyrir alkrafti. Um hinn óendanlega kraft var haft orðið verundur, sem myndað er eins og höfundur, en sjálft það orð verður ekki notað. Einn þáttur í eðli alkraftarins er að geta eytt hvers konar ófullkomnun, hverri verðimegund hins illa. Þar opnast leið til að skilja uppruna hins illa. Alkrafturinn hrindir frá sér verðimegund hins illa, hinu ófullkomna, en tekur jafnskjótt til að magna það áleiðis til sín. Öll náttúruöfl eru fram komin fyrir nokkurs konar hleðslu eða magnan hins ófullkomna, þess sem Platón kallar hypodoche (það sem tekur við) og Aristoteles hyle. Einnig lífið er fram komið fyrir nokkurs konar hleðslu eða magnan; það sem vér köllum líf, er einn kafli þeirrar leiðar, sem fara verður, til þess að hið ófullkomna geti orðið fullkomið.
Sambandið er ekki beint frá hinum alfullkomna til hins ófullkomna. Millistigin eru mjög mörg. Kemur þetta fróðlega fram í sköpunarsögunni í Timaios, þar sem segir, að heimssmiðurinn (demiúrgos) skapar fyrst aðra guði, og felur síðan þessum sköpuðu guðum að skapa hinar óæðri verur, mennina og dýrin. Gætir slíkra hugmynda víða í fornri speki. En um verulegar framfarir var ekki að ræða. Framfarir verða ekki, svo að gagni sé, fyrr en komið er á vísindaleiðina. Meðan menn hafa ekki annað að fara eftir en opinberunarfræði, aflagaðar vitsambands- og samskynjunarhugmyndir, þá lendir allt í þoku. Til dæmis má taka hugmynd, sem snertir mjög merkilegt atriði í líffræði, Messíasar-hugmyndina. Öld eftir öld, árþúsund eftir árþúsund, tekur sú hugmynd ekki neinum verulegum framförum. Lítið svo til samanburðar á þær framfarir, sem verða í líffræði, þegar vísindalegar uppgötvanir eru gerðar, eða með öðrum orðum, þegar menn fara að skilja sjálfir, komast í raun og veru á sannleiksleiðina. Íhugið þær framfarir, sem verða í grasafræði og dýrafræði á fáeinum áratugum, þegar Robert Brown finnur það sem menn nefndu síðan frumukjarnann, og Mathias Schleiden heldur þar áfram og finnur frumuna (celluna). Til þess að framfarir geti orðið í þekkingu, þurfa trúarhugmyndirnar að hverfa og vísindi að koma í staðinn. Ég á hér auðvitað einnig við trúarhugmyndir eins og þanatismus Háckels, og ignorabimus-kenningu Dubois-Reymonds. Einnig sú trú, sem kölluð hefir verið vantrú, er langt að baki oss hér. Með því að finna lífgeislana og lífstarfsíleiðinguna, er af alvöru hafin heimsfræðin á jörðu hér. Með þeirri uppgötvun er snúið frá vondu leiðinni til hinnar góðu. Einum mannsaldri eftir að vísindamenn hafa tekið til ávöxtunar þau sannindi, sem minnst er á í þessari ritgerð og fleirum, verður allt orðið breytt á jörðu hér. Menn verða farnir að skilja, að hér er leiðin fram.
Uppgötvanirnar í eðlisfræði hafa búið oss undir að skilja lífgeislanina og lífstarfsíleiðsluna. Með því að skoða vorn eigin huga, gerum vér uppgötvanir furðulegri en nokkrar, sem áður hafa gerðar verið. Vér finnum, hvernig annarra „sálir” leitast við að nota heila vorn og taugar, vér skynjum, ef vér gætum nógu vel að, hvernig annarra „sálir” koma að meira eða minni hluta í staðinn fyrir vora, alveg reglulega, hvenær sem færi býðst. Vér lærum að ganga alveg úr skugga um það sem ótrúlegra virðist en allt, sem ótrúlegt hefir þótt, að meðvitundir, sem fram koma í heila vorum, eru meðvitundir manna, sem heima eiga á öðrum hnöttum. Oss lýkst upp útsýn til þeirrar furðulegu hugsunar, að allar meðvitundir eru meganlega (potentialiter) í einni, eða geta verið í einni. Þegar svo er komið, verður oss auðskilið eðli fyrirburða, sem hafa vakið undrun og von og ótta, þúsundum ára saman, og verið aðalundirstaða margvíslegrar trúar og hjátrúar. Fyrirburðir spiritismans hætta að vera dularfullir. Þegar vér sjáum, að saga heimsins er magnanarsaga, lífið fram komið við nokkurs konar magnan eða hleðslu, tilraun óþrotlegs kraftar til að laga eftir sér, það sem óæðra er, þá skiljum vér, að lífið hlýtur að halda áfram; það er ekki trúaratriði framar. Áður en mörg ár eru liðin, verður í hverju vísindafélagi talað um framhald lífsins, og framfarirnar í líffræði munu svara til þess sem varð, þegar hinir ágætu menn Brown og Schleiden höfðu gert uppgötvanir þær sem áður var vikið á. En þó mun nokkur fyrirstaða verða enn, bæði af dultrúarmanna hálfu og vísindamanna. Hvorirtveggja munu halda fyrst um sinn, að verið sé á móti sér, hvorumtveggja mun dyljast fyrst í stað, að það er leiðin fram, sem fundin er, leiðin til að breyta frá hinni illu stefnu til hinnar góðu, frá dysexelixis til diexelixis. En þó mun sú fyrirstaða ekki verða löng. Er gott til þess að hugsa, að stýrt verður hjá þeim skelfingum af manndrápum, sóttum og hverskonar eymd, sem yfir mundu dynja, ef haldið yrði fram þeirri stefnu, sem enn ræður.

2

Fróðlegri þykja oss nú goðasögur ýmsar og þjóðsögur, en áður hefir verið, þar sem vér vitum, að þar er sagt frá lífinu á öðrum hnöttum. En þó er það svo lítið, sem sagt er í slíkum sögum, og svo rangt. Hann er orðinn býsna þreytandi þessi eldforni misskilningur, og erfitt þeim, sem er farinn að sjá fram á, hvað vita mætti og vinna mætti, ef samhugur fengist, skynsamlegt hugarfar í þessum efnum. Þegar það er fengið, þá má fá þátt í visku þeirra, sem lengra eru komnir, en best hefir verið á jörðu hér, og í orku þeirra. Þá má skoða, líkt og sjálfur væri þar staddur, lífið á öðrum hnöttum. Aukast að afli og visku. Segja frá hlutum, sem aldrei hefir verið sagt frá áður á jörðu hér, ennþá stórkostlegri hlutum en þeim, sem vitranamennirnir hafa verið að kalla óumræðilega. Óumræðilegir voru þessir hlutir einungis af því að vitranamennirnir voru ekki vísindamenn, vissu ekki. Þeir á öðrum hnöttum hefðu vissulega haft ástæðu til að spyrja með nokkurri óþolinmæði, eins og gert er í Völuspá: Vituð ér enn eða hvat? En vitað er nú. Vitað er nú hvernig hin beinu lífgeislanaáhrif annarra á oss, ákveða drauma vora, hvernig þesskonar áhrif, ákveða samband „anda”miðilsins og hvað „andi” segir fyrir hans munn, séð er fram á aðferð til þess að fá ljóst meðvitundarsamband við aðra hnetti. Og meira en það. Vitað er, að þeir á öðrum hnöttum geta gert oss heimsóknir á jörðu hér, ef rétt hagar til „hérna megin”. En þá fyrst er sambandið komið í rétt horf, þegar slíkar heimsóknir geta orðið.

3

Menn hafa verið ákaflega langt frá því að skilja, að guðir fornmanna eru lengra komnar verur á öðrum hnöttum. Hvergi verður þess vart í ritum Nietzsche, að hann hafi nokkurn tíma grunað þessi höfuðsannindi, og er það þó einmitt der Übermensch, æðri mannvera en mannkynið er á jörðu hér ennþá, sem öll hans heimspeki stefnir að, af stórmikilli andagift, eins og kunnugt er. Aldrei lætur hann sér hugkvæmast, að meir-en-mannstiginu hafi þegar náð verið á öðrum hnöttum — og það á ýmsan hátt — og þá auðvitað heldur ekki, að slíkir meir-en-menn hafi haft nokkur áhrif á sögu mannkynsins hér á jörðu. Fróðlegri er í þessu efni franski spekingurinn Guyau, sem prófessor Ágúst H. Bjarnason hefir skrifað góða doktorsritgerð um. Segir Guyau, að verið geti, að til séu í alheimnum óendanlega mörg mannkyn, og ef til vill megi telja sum þeirra guði í samanburði við mennina hér á jörð. (A. H. B. bls. 190). En svo segir hann, að þó að á öðrum hnöttum væru verur, oss mönnunum óendanlega miklu framar að öllum þroska, þá gæti verið, að þær næðu ekki að gera vart við sig á jörðu hér sakir þess að hnettirnir, sem þær byggðu, væru svo fjarri. (A. H. B. bls. 191). Að guðir Ásgarðs og Olymps séu einmitt þesskonar verur, fullkomnari mannkyn, sem heima eigi á öðrum hnöttum, kemur heldur ekki Guyau til hugar. Það má segja um hann líkt og Nietzsche, að hugsun hans fer að nokkru leyti til þess að smíða skáldleg orðtæki og samlíkingar, en er ekki nógu þrautseig í leitinni eftir veruleikanum, eftir því sem er. Guyau kemur ekki til hugar, hvort það gæti ekki átt sér stað, að það væru ekki hinar æðri verur á öðrum hnöttum, sem sambandið milli hnattanna strandaði á, heldur ófullkomleiki mannanna hér á jörðu. Hversu vel sem Marconiskeyti er sent, þá kemur ekki fram, ef útbúnaðurinn til að taka á móti því er enginn eða í ólagi.
Íbúum annarra hnatta mun veita auðvelt að koma á sambandi við vora jörð, þegar nógu greindarlega verður við tekið af vorri hálfu. En ekki stoðar, þó að einhver einn viti hið rétta í þessu efni, ef annarra hugarfar er svo andstætt, að menn halda jafnvel, að sá sem fundið hefir merkilegri sannindi en áður hafa kunn verið, sé ekki með öllum mjalla. Verra getur ekki fyrir vísindamanninn komið, sem vísindamann, en ef haldið er, að þó að hann hafi varið ævi sinni mest til að leita þekkingar og visku, þá sé hann þeim mun fávísari en aðrir menn, að hann fari með rugl. Slík trú miðar til þess að ónýta ævistarf vísindamannsins, og skapar honum, samband við staði, þar sem hin illa stefna ræður. Gera menn með slíku mikið ógagn, eigi einungis þeim sem er að reyna að hjálpa þeim og sýna þeim hina réttu leið, heldur einnig sjálfum sér.

4

Það er eitt af því sem vandamest er í vitefnum á jörðu hér, að átta sig á því, að framsóknar- eða framvindustefnur heimsverðandinnar (the lines of evolution) eru tvær. Jafnvel hinn mikli kennari 19. aldarinnar, sem færði svo aðdáanlega út vit mannkynsins, Herbert Spencer, skildi þetta ekki. Og Henri Bergson, sem í l’Évolution créatrice af of miklu vanþakklæti talar um það sem hann kallar le faux evolutionisme (hina skökku framsóknarkenningu) de Herbert Spencer, hefir heldur engan grun um þessi höfuðsannindi.
Framvindustefnurnar eru tvær. Annað er hin góða stefna, lífstefnan, guðstefnan (the gimlic or life of evolution) stefna vaxandi samstillingar allra krafta, ávalt aukandi vits og afls og fegurðar. Diexelixis má kalla þesskonar verðandi. Exelixis er á grísku sama sem evolutio á latinu, og dia, gegnum, algerlega, alla leið; diexelixis: sú framvinda, sem er ávalt í sannleika framför, alfremd. Hitt er hin illa stefna, stefna hinnar vaxandi þjáningar, helstefnan, Vítisstefnan (the infernal line of evolution). Dysexelixis má kalla þá framvindu, sem er í raun réttri ekki framför. Það er sú stefna sem ræður á jörðu hér, og er áður í þessari ritgerð sitthvað um þetta sagt, sem ég ætla ekki að taka upp aftur. Herbert Spencer, sem var maður stórlega náttúrufróður, vekur athygli á því í líffræði sinni (Biologie, 114. gr. í, s. 373, þýðing Vetters) að meir en helmingur af öllum dýrategundum (á jörðu hér) eru spellverur, parasítar, lifa á því að spilla lífi annarra. Og má þó hið sama segja um mjög mörg fleiri dýr en þau, sem parasítar eru eða hafast við á eða í þeim dýrum sem þau nærast á. Og svo eru hinar ennþá voðalegri spellverur jurtaríkisins, sýklarnir. Samt heldur hinn ágæti spekingur, að hér sé verið á framfaraleið, að sigur hins lífhæfasta verði sama sem sigur hins besta. Hann sér ekki, að hér á jörðu hefir ekki að því stefnt, að hið besta sigri. Lífið á jörðu hér er fyrirtæki, sem ekki er farið að heppnast ennþá; spillilíf er hér, og þetta nær einnig til mannlífsins. Vítisstefnan er það sem ræður hér, dysexelixis. Kemur þetta greinilega í ljós í hinum miklu hryðjum mannkynssögunnar, þó að íhugun daglegs lífs, og dýralífsins á jörðu hér, nægi alveg til þess að koma oss í skilning um það. Svo öfugsnúinn er hugsunarhátturinn í Vítunum, að margir þar mundu helst kalla parasíta eða sníkjugesti mannfélagsins þá er vinna einmitt það sem vandfengnastir eru menn til að vinna. Morðingjum og ræningjum er í Vítunum miklu auðveldara að afla sér vina og fylgis, heldur en þeim sem skapa nýjan skilning. Á slíkum stöðum hefir einmitt sá sem sannast segir, sá sem fundið hefir það sem þarf til þess að breytt verði stefnunni, sá sem spáð hefir verið um af svo litlum skilningi þúsundum ára saman, fæsta með sér.

5

Skilningurinn á hinu mikla sambandi er það sem vantar í Vítunum. Allt, sem orðið gæti til þess að skapa þann skilning, lendir lengi mjög í trúarbrögðum og ýmiskonar hjátrú. Þeir sem best ryðja leiðina að réttum skilningi, eru menn eins og Oken og Lamarck, Scrope og Lyell og Leopold v. Buch, Brown og Schleiden, Darwin og Spencer. Fleiri ágæta menn ætti við að nefna hér, þó að ekki sé það gert að sinni. Á aðdáanlegan hátt færir framsetning Spencers oss aukinn skilning á sambandi hlutanna og lögmálum framvindunnar. En að hverju stefnt er, var þessum ágæta speking þó ekki ljóst, hið mikla samband skildi hann ekki. Hann áleit vísindunum takmörk sett, en svo er ekki, þar sem hin góða stefna ræður. Og upphaf hinnar góðu stefnu er einmitt að finna, hvernig færa má vísindin út yfir þau takmörk, sem þeim eru sett í Vítunum. Heimspeki Henri Bergsons er tilraun til þess að komast út fyrir þessi takmörk. Og líkt mætti segja um William James og fleiri rithöfunda þessara síðustu tíma. Og Hegel og Schelling og Schopenhauer áður. En þó að tilraunir þessar séu allar merkilegar, þá hafa þær allar mistekist. Til þess að komast út yfir takmörkin, upp þangað sem útsýn fæst yfir alfremd lífsins, diexelixis, þurfti að gera uppgötvanir í vísindum, einmitt þær uppgötvanir, sem hér hefir verið nokkuð af sagt, og mönnum munu þykja því ótrúlegri, sem hugarfarið er dysexeliktískara.

6

Nú má skilja trúarbragðasögu mannkynsins miklu betur en áður; hafa trúarbrögðin háð verið landslagi og loftslagi miklu meir og með öðrum hætti en menn hafa vitað. Hundruðum milljóna hefir þótt saga Gyðinga merkilegust. Og að vísu er hún mjög merkileg. Heiðríkja Egyptalands og auðnarinnar átti sinn drjúga þátt í því að Ísraelslýður fékk samband við mjög merkilega veru, sem lengi var nefnd Jehóva. Urðu Gyðingar undir stjórn veru á öðrum hnetti. Spámennirnir og dómararnir voru þeirra goðorðsmenn, og skal því síst neita, að margt merkilegt orð er til eftir þá. Eins og til dæmis þar sem Samúel segir við SáI: Guðs andi mun koma yfir þig, og þú munt spá með þeim, og munt verða annar maður (Sam. I, X, 6). Það eru orðin um að Sál mundi verða annar maður, er merkileg þykja vísindamanninum, sem kunnugt er orðið um eðli spádóma. Þegar Sál mætir hóp af spáandi spámönnum, þá samstillist hann þeim og meðvitund annars kemur fram (inducerast) í honum, svo að einnig hann fer að spá; á þann hátt verður hann annar maður, annar talar fyrir hans munn. Hámarki nær þessi framvinda Gyðinga í Jesú frá Nazaret. Þar er sambandið við mjög merkilega veru svo náið, að Jesú finnst, sem hann og þessi vera séu í rauninni eitt. Hélt Jesú, eins og kunnugt er, að hann væri „sá sem koma átti” eftir trú Gyðinga, Messías sá, sem svo oft hafði verið spáð um; en ólíkur var hann þó því sem menn bjuggust við. Höfðu menn helst hugsað sér, að sá sem koma ætti, mundi verða herkonungur mikill og sigursæll, nokkurskonar aukinn Davíð eða Salómon. Og á vorum dögum er eins að sínu leyti. Milljónum skipta þeir líklega, sem eru með einhverjar Messíasar eftirvæntingar, en allir búast þeir við, að sá sem kemur, muni verða trúarbragðakennari, líkt og Jesú eða aðrir, sem uppi hafa verið fyrir löngu. Skyldar hugmyndir Messíasarvonum Gyðinga, hafa gert vart við sig hjá Indverjum og Persum, og víðar. Eru það allt saman aflagaðar vitsambandshugmyndir, og er nú ekki erfitt að skilja, hvernig á þeim stendur. Er það augum uppi, að slíkar vonir eiga rót sína í því, að breyta má frá Vítisstefnunni til hinnar góðu stefnu, diexelixis getur komið í staðinn fyrir dysexelixis. En mikill misskilningur er það að halda, að sá sem fyrst kennir mönnunum þessi höfuðsannindi, muni vera í tölu þeirra sem hafa strauminn með sér á jörðu hér, einn af þeim sem mikils eru metnir og mikils mega sín, þar sem dysexelixis ræður. Það má ekki gleyma því, að þar sem Vítisstefnan ræður, hefir sá maður orðið að sækja til fjörsins gegn öllu því sem þroska hans er andstæðast, og er einmitt við því að búast, að í Helvíti sé sú rödd máttlítil, sem heyrast mun um allan heim, þegar hið helvítlega, dysexeliktiska, er sigrað. Því minna sem hugarfarið er mótað af dysexelixis, því betur munu menn skilja mig. Og gæti þeir vel að því, hvaðan þeir standa að, sem lesa þetta með óvild eða hatri.

7

Afar merkileg er sagan af sambandi Grikkja við verur á öðrum hnöttum, og merkilegar þær bókmenntir, sem þar áttu upptök sín. Kvæði Homers og Hesiods svara hjá Grikkjum að nokkru leyti til biblíunnar. Gætir hjá Grikkjum skáldanna og heimspekinganna meir en spámannanna. En í þeim fræðum, sem nefnd voru gnósis (þekking), og í nýplatónskunni, lögðu saman Gyðingar og Grikkir, og koma þar þó einnig til greina indversk fræði og persnesk.
Guðstjórn var hjá Grikkjum. Því að það er ekki ofsagt, að þeir hafi í rauninni verið undir stjórn guðs þess, sem þeir nefndu Apollón. Véfréttin í Delfoi var fræg víða um lönd. Leituðu menn þar ráða guðsins, en hann svaraði fyrir munn hofgyðjunnar, Pyþíu. Er nú ljóst í aðalatriðum, hvernig þessu hefir verið farið. Pyþía var miðill, og spyrjendurnir ásamt hofgoðunum (prestunum), framleiddu (induceruðu) í henni meðvitund guðsins, — sem ef til vill hefir átt heima á þeim hnetti, sem Homer segir svo fróðlegar sögur af — og sköpuðu svörin. Má stundum greinilega sjá, hvernig lögmál það sem getið er um að framan, kemur fram í svörunum. Eins og t.d., þegar Kærefón spyr, hver vitrastur maður sé á Grikklandi, og Pyþía segir, að Sókrates sé það. Goðasvarið var ekki rétt, Demokritos, Anaxagoras og fleiri voru þar vitrari menn. En Kærefón var lærisveinn Sókratesar og skapar svarið með áhrifum sínum á miðilinn. Önnur véfrétt merkileg var í Þrakíu, og eftirtektarvert mjög, að hún var sett, þar sem fjöllin voru hæst; einnig þar var það kvenmiðill, sem svörin veitti, en Dionysos guðinn, sem talaði fyrir munn miðilsins (Herodot, VII, 111).
Merkilegur verður árangurinn, sem fæst, þegar menn geta losað sig við eigi einungis það, sem nefna mætti hinni prótomóra misskilning, heldur einnig heteromóra misskilninginn, og fara að rannsaka þessi efni á vísindalegan hátt; er sérstaklega vel fallið til slíkra rannsókna á Balkanskaganum og í eyjunum milli Grikklands og Litlu-Asíu; heitir þar Patmos ein. Mun margt býsna fróðlegt koma á daginn, þegar menn fara að ná sambandi við verur, slíkar sem Grikkir kölluðu guði sína; munu þar verða langar frásagnir.

8

Víkur nú sögunni til Geirmanna og Norðurlandabúa, hinna nánustu frænda vorra og forfeðra. Áttu þeir aðstöðu verri miklu, en austar var í löndum og sunnar, af því að loftslagið gerði sambandið við guðina stórum örðugara. Varð ekki í Norðurheimi nein slík aðalsambandsstöð, eins og verið hafði í Delfoi, en mikið traust höfðu menn þó einnig norður hér, á kvenmiðlum, sem menn nefndu völur eða völvur. Hygg ég, að nafnið vala sé ekki leitt af orðinu völur, stafur, heldur af því, að spákonurnar þóttust stundum líða í lofti með valkyrjum og ásynjum.
En þó að sambandsástæður væru verri, þá varð samt í trú forfeðra vorra merkilegra sumt, en í hverri trú annarri. Læt ég að sinni nægja að nefna Valhöll og Einherja, söguna af móðerni Heimdallar og sögu Baldurs. Er sú sögn merkilegust, því að hún bendir svo greinilega til þess, að lausnin (apolytrósis) er í því fólgin að sigrast á þjáningum og dauða. Einnig megingjarðir og ásmegin má hér nefna; er það úr sömu átt og sögurnar af Einherjum og móðerni Heimdallar, og lýtur að orkusambandinu, hinni guðlegu samstillingu kraftanna, sem miðar að því, að allra kraftur geti orðið í hverjum einstökum.
Hinn goðmálugi maður, goðorðsmaðurinn, sá sem gat flutt lýðnum orð guðanna, varð leiðtogi mannfélagsins og forfaðir konungsins. Kemur þetta spámannseða miðilseðli þjóðhöfðingjans víða fróðlega fram í Noregskonungasögum. Í sögum Haraldar hárfagra t.d. er kafli, sem virðist svara til sögunnar af freistingu Jesú í öræfum, og á rót sína í sambandsórum, eins og sú saga. Það munu verið hafa höfuðórar Haraldar (paranoiahugmyndir), að Dofri hafði gefið honum fyrirheit um, að hann mundi eignast allan Noreg, og minnir það á, hvernig Satan, eftir sögunni, lofar að gefa Kristi öll ríki veraldar, ef hann tilbiðji sig. Er þesskonar samanburður jafnvel fróðlegri en í fljótu bragði sýnist. Ennþá fróðlegri í þessu efni er „postulakonungurinn” Ólafur helgi, grimmur harðstjóri og höfðingi mikill á dysexelixis eða Vítisvísu, en spámaður, fær vitranir og gerir kraftaverk. Þá sýnir ekki síst saga Íslendinga miklu fróðlegar, en tekið hefir verið eftir, goðorðsmanninn sem veraldlegan höfðingja; má þar benda á breytingu þá sem verður á þýðingu máltæknisins „að fara með goðorð.”

9

Samband það við fullkomnari verur, sem öll trúarbrögð hafa svo árangurslítið verið að leita eftir, þarf að komast í rétt horf. Uppgötvanir þær, sem hér hefir verið vikið á, sýna, hvernig stefna skal. Því lengra sem upp á við sækir, því vandasamara verður. Menn beri saman þá aukning þjáningar, sem verður, þegar hálfapinn vex fram til að verða api, og þjáningaraukann frá apa til manns. Á þeirri hálfu milljón ára, sem gera má ráð fyrir, að liðin sé, síðan apaniðji varð að manni, mannsstiginu er náð á jörðu hér, hefir þjáðst verið margfaldlega meir en um allan aldur lífsins áður, sem gera má ráð fyrir, að sé að minnsta kosti þúsundfaldur við aldur mannkynsins. Eftir að mannsstiginu er náð, heldur þjáningin áfram að aukast, meðan dysexelixis ræður og ekki er rétt stefnt. En þar sem skilningur hefir fengist, þar sem sambandið við hinar fullkomnari verur er komið í rétt horf, þar fer allt að takast, þar verður að öllu leyti farið að stefna að því, að lifa samkvæmt tilgangi lífsins, þar kemur diexelixis fyrir dysexelixis. En því lengra sem komið er dysexelixis, því verra sem Vítið er, því öfugar er lifað við tilgang lífsins, því örðugra uppdráttar á vitringurinn, því meira er gengi hins ráðríka og hins grimma; hinir fávísari ráða fyrir forlögum þjóðanna, og meir og meir ólgar hatrið milli einstaklinganna, stéttanna og þjóðanna. Því verra sem Vítið er, því vísari vegur er það til að verða einn síns liðs, að verja lífi sínu um fram allt til þess að leita sannleikans, eins og menn gera því fremur, því fremur sem þeir eiga skilið að heita vísindamenn.

10

Mjög eftirtektarverðar eru dulrænuhreyfingar þær sem komu upp í Ameríku á öldinni sem leið, endurvakning hinnar fornu trúar á samband við framliðna, nokkru fyrir miðja öldina, og þeosofiska eða guðspekihreyfingin nokkru eftir 1870. Er þar að nokkru leyti um endurreisn fornrar goðatrúar að ræða. Að því er guðspekisinnar ætla, eru til í Himalayafjöllum menn, sem þeir nefna meistara, og miklu lengra eru komnir að visku og mætti en annað mannkyn; hafa þeir mikla og merkilega stjórn á högum mannanna á jörðu hér. Meistarar þessir svara beinlínis til goðanna, sem fornmenn hugðu eiga heima á fjöllum uppi. Hugðu forfeður vorir, að goðheimur væri á jörðu hér, og að vísu væri hans að leita í þá átt, sem Tíbet er og Himalaya frá Norðurlöndum. Má hér einnig minna á trú Grikkja á Olympos, á lýsingu Sókratesar á sælustaðnum og kvalastaðnum, sem hann hyggur vera á jörðu hér, á sögu Platóns af Atlantis, hinu merkilega menningarlandi, sem átti að hafa sokkið í sjávardjúp og guðspekirithöfundar kunna svo margt af að segja. Er næsta fróðlegt að sjá, hvernig menn lenda árþúsund eftir árþúsund í sama misskilningnum, meðan ekki er komið á vísindabrautina.
Rétt hafa guðspekisinnar fyrir sér í því, að „meistararnir” séu ekki tómur hugarburður. En ekki eiga þeir heima í Himalaya, heldur á öðrum hnetti. Verður auðvelt að sanna þetta með tilraunum, þegar menn fást til þess að hafa rétta rannsóknaraðferð. Áhrifin frá „meisturunum” hafa viðtakendur, hinir goðmálugu menn og völvur þeosofa, þýtt mest eftir indverskri speki, en þó einnig dálítið eftir þeim skilningi á sambandi hlutanna og framvindu, sem Darwin og Spencer hafa gert svo mikið til að vekja og efla. Félag það, sem þau stofnuðu H. S. Olcott, Vesturheimsmaður, sem unnið hefir stærra verk í Austurlöndum en tekið hefir verið eftir ennþá vesturfrá, og hin rússneska völva frú H. P. Blavatsky, er fyrir margra hluta sakir merkilegt, og ekki síst vegna þess, hve mikið hefir borið þar á þeirri trú, að bráðlega væri von á einhverjum mjög þýðingarmiklum kenningum. Náttúrlega hafa menn haldið, að það væru trúarkenningar, sem koma mundu fram, og ekki áttað sig á því, hvers konar tímamót fyrir höndum eru, þau nefnilega, að hefjist af alvöru öld vísindanna. Því nær sem er verið guðsríki, því minna er um trúarbrögð, deilur og styrjaldir. En því nær sem er verið Víti, því meir minnir ástandið á 17. öldina á jörðu hér, og á hina 20. eins og hún mundi verða, ef ekki yrði breytt stefnunni. Virðist þar ekki vænlega horfa, þar sem sú hugsun, sem hugsa þarf áður breytt verði stefnunni, kemur ekki upp, þar sem mátturinn er og dýrðin, in infernis, og hefir í fyrstu allt mannkynið á móti sér. Skilningurinn á lífinu þar sem dysexelixis ræður, og langöflugustu samtökin miða til manndrápa, er svo lítill, að menn grunar ekki, að með þeirri hugsun, sem þeir ef til vill kalla vitfirring, er stefnt burt frá öllum fjandskap, stefnt til þess að forða mönnum frá hinum mesta voða, stefnt til þess að forða mönnum frá því að lenda aftur og aftur, um aldir alda, í dysexelixis.

11

Það er eitt sem sýnir, að „meistarar” þeosofa eru enginn hugarburður, þó að ekki eigi þeir heima hér á jörðu, að þeir hafa lagt hið mesta kapp á að brýna fyrir þeim, sem þeir náðu sambandi við, goðorðsmönnum stefnunnar, að mjög þyrfti að styðja uppgötvanir þær og kenningar, sem í vændum væru. Og þeir gerðu þetta einmitt um það leyti, sem hér á landi voru gerðar þær uppgötvanir, sem verða undirstaða betri framtíðar. Misskildir hafa þeir auðvitað verið til muna, og kemur það drjúgum fram í félaginu Stjarnan í austri, sem stofnað var fyrir áeggjun „meistaranna” í ársbyrjun 1911, sama árið, minnir mig, sem kom út saga H. G. Wells, sem heitir „Í landi hinna blindu” — hefir Wells margt spámannlega ritað — og tvær eftirtektarverðar doktorsritgerðir eftir Íslendinga, önnur, sem heitir „Den sympathiske Forstaaelse”; nægir þar fyrirsögnin til að sýna, að þar er verið nálægt afarmerkilegu efni, og hin, þar sem tekinn er til rannsóknar einn af þeim fáu heimspekingum, sem hafa verið nógu stórhuga til þess að minnast á samband við aðra hnetti, eins og áður er á vikið. Og að vísu mun það ekki vera alveg rétt sagt, að félagsstofnunin hafi orðið fyrir áeggjan „meistaranna”; áhrifin frá þessum merkilegu mönnum á öðrum hnetti, miðuðu að því að reyna til að vekja athygli manna á því, sem von væri á, fá menn til að skilja, að það væri einmitt ekki trúarsetningar heldur uppgötvanir í vísindum, og að þess manns, sem kæmi með hinar nýju hugsanir, væri ekki á Austurlönd að leita. En vissulega er sú hugmynd, að stofna fjölmennt félag til að styðja merkileg sannindi, sem látin yrðu í ljós, eftirtektarverð og ágæt, ef framkvæmd gæti orðið að, og hefði slíks oft þurft með á jörðu hér; gallinn er aðeins sá, að það er svo hætt við því, að fara mundi eins og franskur maður segir, ef ég man rétt, einhversstaðar í Stjörnublaðinu (Herald of the Star), að þó að “hinn mikli kennari” væri með félagsmönnum Stjörnunnar, þá mundi enginn af þeim þekkja hann. Hafa þau orð allan ganginn í þekkingaraukasögu mannkynsins með sér. Um enga menn hefir verið eins rangt dæmt á jörðu hér, og engum hefir eins vanþakkað verið eins og þeim, sem best hafa unnið sannleikanum.

12

Maðurinn er sambandsvera, frumufélag. Milljarðar af frumum eru þar tengdar og samstilltar, og má því sambandi og þeirri samstillingu eigi raska til muna, ef ekki á heilsa mannsins og líf að vera í voða. Menn ættu að hugleiða miklu betur en gert hefir verið, hversu afarmerkilegur árangur hefir orðið af því sambandi, sem hinar örsmáu lífagnir, frumurnar, hafa gert með sér. Breytingarnar sem orðið hafa frá hinni örsmáu ögn af lifandi efni, sem var fyrsti forfaðir mannsins á jörðu hér, eru nærri því óskiljanlega miklar, og vel má oss fara að gruna, er vér íhugum sögu jarðarinnar og ættarsögu mannsins, að mikið sé þar í vændum, sem slíkt er farið fyrir. Oss má vel fara að gruna, að framsókn lífsins á jörðu hér sé aðeins dálítil byrjun, að sú leið, sem lífið hefir farið, sé aðeins örlítill hluti þeirrar leiðar, sem fyrir því liggur. Leiðin er farin með vaxandi hraða. Svo ótrúlega fjarri sem kambríska öldin er oss — tíminn, sem liðinn er síðan krabbadýrin kambrísku voru á lífi, skiptir sjálfsagt milljónum alda — þá mun þó lengstur kafli lífssögunnar á jörðu hér, vera þar fyrir framan.
Hversu furðuleg leið það er, sem farin hefur verið, og þó ekki hin rétta leið. Því að saga lífsins á jörðu hér hefir verið saga vaxandi þjáningar. En nú erum vér farnir að skilja, hvað um er að vera. Það sem vér köllum líf, er árangur af viðleitni óendanlegs kraftar á að eyða megund (möguleika) hins illa, laga hið ófullkomna eftir sér, koma á sífellt fullkomnari samstillingu. Það sem stefnt er til, má vissulega kalla hið mikla samband. Milljarðar af frumum hafa fyrir samband sín á milli orðið að líkama, sem er ótrúlega miklu merkilegri en eðli hverrar einstakrar frumu virðist gefa ástæðu til að ætla að orðið gæti. Og sambandsviðleitninni er haldið áfram á hærra stigi. Eins og stefnt var til sambands milli þúsunda milljóna af frumum, þannig er stefnt til sambands milli þúsunda milljóna af frumufélögum. Og veran, sem kemur fram, mun verða ótrúlega miklu merkilegri en eðli hvers einstaks frumufélags, hvers einstaks manns, virðist gefa ástæðu til að ætla, að orðið geti. Og það er stefnt til sambands eigi einungis milli hundraða og þúsunda milljóna á einum hnetti, heldur milli alls hins óumræðilega fjölda af lifandi verum í óteljandi sólhverfum og vetrarbrautum. Og einstaklingseðlið mun ekki hverfa, heldur fullkomnast fyrir sambandið.

13

Margt dularfullt orð hefir sagt verið og ritað, sem horft hefir í áttina til hins mikla sambands. Hefir það allt verið af sambandsviti sagt, en meir þó af vanskilningi og misskilningi. Fræg er þessi indverska setning, sem Schopenhauer hafði svo miklar mætur á: Tat tvam asi: þetta er þú. En setningin er ekki rétt. Fyrstlingarnir sem lifðu fyrir framan kambrísku öld, og fyrir lá að eiga menn að afkomendum, voru ekki menn sjálfir. Og Jón er vissulega ekki Guðmundur ennþá.
Munurinn á því sem hér segir, og öllu sem sagt hefir verið áður í þessa átt, er sá, að hér er talað af þekkingu. Fyrir þekkingu á samorkunni, vitsambandinu, lífstarfsíleiðingunni (bioinduktion), má nú skilja, hvernig samband getur orðið milli frumufélaganna. Allri dulvísi, mystik, er hér lokið. Hér er komið á vísindaleiðina, séð fram á, hvernig diexelixis getur orðið. Þegar rétt er stefnt, eykur hver öðrum afl. En þá er öfugast stefnt, þegar menn vilja magnast á því að lama eða hefta þroska annarra og spilla lífi þeirra. Sumir tala mikið um að fórna sjálfum sér, og verður það varlega að gera, því að framkvæmdin vill oft verða á þá leið, að menn leggja mikið kapp á að láta aðra fórna sjálfum sér. En viljinn á að vera heilbrigð sjálfd, sem sækir rétt fram til hinnar miklu samstillingar, er nauðsynlegur og á mikinn rétt á sér.

14

Hræðilegri en orð ná til er saga lífsins, ef Vítisstefnunni, stefnu hinnar vaxandi þjáningar, er haldið. Og fegri en unnt er að ímynda sér hér í dysexelixis, ef hin góða leið er tekin. Og nú er leiðin séð til hins mikla sambands. Hér er leiðin fram. Hér er það sem breyta verður stefnunni, svo að stefnt verði til fullkomnunar. Einnig jörð, eins og þessi, á að vera heimkynni guðlegs lífs. Lesandinn tekur vonandi eftir því, að orðið „guðlegur” þýðir hjá mér annað dálítið og meira en áður hafa menn látið það þýða; það er hér líffræði-orð. Guðleg fullkomnun er það, að allar meðvitundir séu í einni og ein í öllum. Má glöggt skilja, hvernig það getur orðið. Og nú má skilja hvernig allur hinn mikli heimur getur orðið vort heimkynni, og allt heimsins afl vort afl. En sá heimur, þar sem kraftur sá sem lífið er af, hefir unnið fullkominn sigur, verður mjög breyttur heimur.
Aðalatriðið er að skilja það sem í engum trúarbrögðum hefir kennt verið, að hér er leiðin fram. Þar er sá skilningur fyrst, sem vekur ódauðlegan framfarahug. Hér er Helvíti, þegar rangt er stefnt, og hér, einnig hér, verður Himnaríki, þegar hin rétta leið er farin.

15

Vilji menn hafa full not ritgerða þessara, verða þeir að lesa vandlega, og oftar en einu sinni. Mörg setning mun verða misskilin fyrst í stað, einmitt af því að þar er stefnt til að breyta skoðunum, sem eru mjög algengar og miklu ráða í hugunum.
Ef menn lesa rétt, láta sér skiljast, að það sem hér segir er í aðalatriðum rétt, þá munu þeir brátt verða varir við, að nokkur kraftur fylgir góðu máli. Milli góðra lesenda munu vakna hollir straumar, sem greiða munu fyrir sambandi þeirra við góða staði. Og skemmtilega mun þetta koma fram. Hugarfarið verður allt betra en áður. Það verður betur skrifað, betur ort, bæði í orðum og tónum, betur hugsað, einnig um það sem til framkvæmda horfir beinlínis. En mjög mun fara á aðra leið, ef menn lesa með þeirri sannfæringu, sem öfugust er. Þá munu menn fá samband við staði, þar sem þau sannindi, er miða að því að snúa högum mannkyns í rétt horf og forða því frá glötun, eru álitin rugl og markleysa. Eru það illir staðir. Er þar slysasamt mjög og friðartímabilin varla annað en undirbúningur undir nýjar styrjaldir.
Finni menn til óvildar, þegar þeir lesa, skulu þeir hafa það til marks um að þeir misskilja alvarlega. Þó að hér sé stofnað til hinnar mestu breytingar, þá er ekki verið að undirbúa byltingar. Hér er verið að hugsa um að gera mikið úr mönnum, en ekki lítið. Hér er verið að hugsa um það mest, að fá menn til að þiggja þá hjálp, sem í boði er, og ekki er vanþörf á. Þegar sambandið fæst við þá sem vitrari eru miklu og betri og máttugri en mennirnir á jörðu hér, þá er náð því takmarki, sem menn hefir um svo margar þúsundir ára órað fyrir, að hin mesta þörf væri á að ná. Þá mun jarðarbúum vaxa vit og þróttur. Þá munu menn koma auga á ótal úrræði, þar sem þeir eygja nú ekkert.
Grunlausir ganga menn leiðina til glötunar. Hatrið ólgar milli einstaklinganna, milli stétta hinna einstöku þjóðfélaga, og milli þjóðanna. Nú þegar eru menn teknir að undirbúa næstu styrjöld á ennþá stórkostlegri hátt en þessi hafði verið undirbúin. En styrjaldirnar svara í mannfélagi til sóttar í Líkama. Þá brýst ferlegast út í framkvæmd allur misskilningurinn á lífinu, allar hinar röngu hugmyndir. Þá er þverast stefnt gegn því sem þarf að vera, ef tilgangi lífsins á að verða náð. Þá er fjarst verið því, að stefna áleiðis til þeirrar lífheildar, sem verður, þegar enginn hugsar rangt um annan og enginn vill öðruvísi en vel. Fyrir löngu hefir menn grunað, að friður allra manna á milli, mundi verða böls-endir, einkenni annars ástands á jörðu hér, og góðs. Hitt hafa menn ekki vitað, þó að undarlegt megi virðast, að trúarbrögð geta ekki fært mannkyninu friðinn. Einungis þekkingin getur það, sú þekking, sem er ekki takmörkuð af neinum trúarbrögðum, sú þekking, sem gerir mönnum skiljanlegt, svo að þar þarf engrar trúar við, hvernig framtíð þeir skapa sér, sem vilja verða frægir og miklir á því að baka öðrum böl, og hvernig einungis þar, sem lokið er öllum vilja á að gera öðrum illt, verður stefnt til hins mikla sambands.
Köflum I. og II. sleppt.