(The story of a new departure in psychology, biology and cosmology).
I
Á þessum vikum verða 20 ár síðan ég ásetti mér að fara að rannsaka eðli drauma. Og það er vert að geta þess, að ég ásetti mér um leið, að halda þeirri rannsókn áfram, meðan ég lifði. Má af því marka, hversu miklar vonir ég gerði mér um árangur sem orðið gæti af slíkri rannsókn, og eins að ég bjóst við erfiðleikum, og ætlaði að koma í veg fyrir að mér féllist hugur, þó að lítið yrði ágengt í fyrstu. Það sem ég gerði mér vonir um, var aukinn skilningur á eðli meðvitundarinnar. Og fór þar eins og oftar í rannsóknum mínum, að árangurinn hefir orðið ákaflega miklu meiri en ég gerði mér vonir um.
Ég hefi nú ráðið gátuna, sem mér þótti svo torsóttleg fyrir tuttugu árum. Eðli drauma er mér nú kunnugt orðið. Mér er það alveg ljóst, að ég skipti um meðvitund, þegar ég vakna. Í svefni fæ ég þátt í lífi einhvers annars. Þetta veit ég engu síður vel, en að vatnið er vott, og eldurinn heitur. En þó var það löng leið, sem fara varð, áður ég gæti gert mér þetta ljóst, og ég hygg að lesendum mínum verði greiðast um skilning á málinu, ef ég reyni til að segja nokkuð af aðalatriðum þeirrar sögu.
II
Rannsóknir þær, sem leiddu til þess, að ég réð þá gátu, sem hefir verið kölluð Palagonitformation, byrjuðu á því, að ég uppgötvaði líkingu. Ég sá að Palagonitbreccian er lík jökulurð. Þessi sami hæfileiki til að sjá, hvað er líkt, og hvað ólíkt, leiddi til þess að ég fór af alvöru að rannsaka eðli drauma. En þá var það þar, uppgötvun á mun, sem var fyrsti aðalviðburðurinn í rannsóknum mínum. Haustið 1901 hafði ég af talsverðri alvöru farið að lesa rit Schopenhauers, spekings, sem ég á mjög mikið að þakka. Og með hans tilstyrk var það, sem athygli mín vaknaði fyrst á þeim eftirtektarverða mun, sem er á svefnvitund og vökuvitund. Og seinna skildi ég, að það er þessi munur, sem á að vera aðalrannsóknarefnið, og fyrst verður að gera grein fyrir, ef vita skal eðli drauma.
Hver þessi munur er, má skýra þannig:
Maður horfir út um glugga og sér hest. Þessi stórmerkilega myndavél, sem kölluð er auga, býr til mynd af hestinum, og þetta hefir þau áhrif á heila mannsins, að í meðvitund hans verður mynd af hestinum. Maðurinn gengur síðan frá glugganum og sest í stól og fer að hugsa um hestinn. En nú er innihald meðvitundar hans, frábrugðið orðið því sem var, meðan hann horfði á hestinn. Hugtakið hestur er í meðvitund hans, ýmsar endurminningar um stærð, lit og vaxtarlag hestsins, en mynd af hesti er þar ekki. Nú sofnar maðurinn í stólnum, og dreymir hest. Og nú er aftur orðin breyting á meðvitundinni; nú er ekki eins og þegar hann hugsar um hest, heldur eins og þegar hann sér hest. Að dreyma hest er að sjá hest, en ekki eins og að hugsa sér hest.
Og virðum vér fyrir oss aðra skynjun, þá er eins. Maður sem er á gangi t.d., hefir ýmsar tilfinningar sem ganginum eru samfara. Haldi hann kyrru fyrir, og hugsi um hvernig er að vera á gangi, þá eru ekki slíkar tilfinningar í meðvitund hans, heldur endurminningin um þær. En að dreyma gang er aftur eins og að vera á gangi.
Þetta er sá merkilegi munur, sem ég sá að byrja varð á að rannsaka. Draumurinn er líf en ekki endurminning um líf, eða hugsun um líf. Þarna var þessi erfiða gáta, sem mér var svo mikill hugur á að ráða.
Nú veit ég að margir munu segja, að maðurinn sem vér hugsuðum oss, þurfi ekki að horfa á hest, til þess að mynd af hesti sé í meðvitund hans, myndin geti verið í huga hans, of hann aðeins hugsar sér hestinn (visualisation of an idea). En þessu neita ég. Þetta er ímyndun, sem sprottin er af því, að menn hafa ekki glöggvað sig á þessu máli. Þarna kemur einmitt fram sá misskilningur, sem mest hefir verið því til fyrirstöðu, að framfarir gætu orðið í sálufræði. Menn hafa blandað saman mynd og glöggri endurminningu, einmitt af því, að heir höfðu ekki lært að skoða huga sinn eins vandlega eins og þyrfti, til þess að átta sig á þessum efnum.
III
Nú leið svo langur tími, að ég var að velta því fyrir mér, hvernig gæti orðið skilið, að draumurinn er ekki umhugsun og endurminning, heldur eins og áður er sagt. En jafnvel þó að ég héldi að ég væri kominn eitthvað á skilningsleið, þá fann ég, þegar ég reyndi betur fyrir mér, að þar var ekki leiðin fram. Svo lítið varð mér ágengt, að ég var farinn að verða vondaufur um, að mér mundi nokkurntíma auðnast að ráða þessa erfiðu gátu.
Segir þá næst af því, hvernig ég kornst þó að lokum á hina réttu rannsóknarleið.
Ég hafði tekið eftir því, að í huga minn voru, við og við, að koma orð og orðatiltæki, oftastnær leið og Ijót, á þann hátt, að undarlegt var. Orðum þessum eins og skaut upp í meðvitund minni, án þess að ég hefði hugsað þau. Og ég mundi náttúrlega ekki hafa veitt þessu neina eftirtekt, ef ekki hefði ég haft langa æfingu í að athuga. Náttúrlega var þetta athvarf fáfræðinnar, sem menu hafa kallað undirvitund, við hendina þessu til skýringar. Það hefði mátt telja sér trú um, að það væri skýring, ef sagt væri, að orðunum hefði skotið upp úr undirvitundinni. En þó reyndist ég of giftusamur rannsóknari, til að lenda í þeim ógöngum. Önnur leið var það sem ég reyndi. Mér kom í hug, hvort þessi orð og orðtæki mundu ekki vera komin í huga minn úr öðrum hugum, líkt og loftskeyti berast. Og þegar ég fór að prófa þetta, þá fann ég, að þarna var ég kominn á leiðina fram.
Til sérhvers orð í meðvitundinni, svarar sérstakt ástand heilans. Og ef nú getur flutst orð frá huga til huga, þá er það af því að ástand eins heila, getur haft þau áhrif á annan heila, að sama ástand verði þar. Eða með öðrum orðum, ástand eins heila getur framleitt sig í öðrum heila. En ef svo er, þá getur alveg eins flutst frá einum heila til annars, það ástand sem samsvarar mynd í meðvitund þess, sem heilann á. En það verður sama sem að einn maður geti séð með augum annars. Eða með öðrum orðum: Það sem ein augu sjá, getur komið fram, eigi einungis í þeim heilanum sem augun fylgja, heldur einnig í öðrum.
IV
Ég hefi hér í fáum orðum sagt það, sem ég var ekkert fljótur að gera mér fullkomlega Ijóst. En þó fór svo, að ég skildi glöggt, að þarna var fundin leiðin til að ráða þessa gátu, sem mér hafði svo torsóttleg virst. Ástand eins heila og eins taugakerfis, getur komið fram í öðrum heila og öðru taugakerfi. Af þessu er draumlífið sprottið.
Nú fór að verða greitt um skýring á ýmsu því sem áður hafði virst óskiljanlegt. Og síðan ég komst á þessa leið sem mér var sagt, hefir alltaf verið að vaxa skilningur minn á rannsóknarefni mínu. En það er órækur vottur urn, að það er hin rétta leið, sem verið er á.
Ég fór nú að leita fyrir mér, hvort ekki mætti finna neitt, sem beinlínis sannaði, að draumlífið væri þátttaka í vökulífi annars. Og að vísu hefi ég fundið það, sem eru fullgíldar sannanir fyrir því, að draumvitundin er einmitt annars manns meðvitund.
Löngu áður en ég komst á hina réttu rannsóknarleið í þessu máli, hafði ég veitt því eftirtekt, að útlit mitt í draumi, gat verið eins og ég væri annar maður. Og mér hafði komið í hug, að þetta mætti skýra sem endurminningu frá forfeðrum, sem þannig hefðu verið í sjón. Þetta var tilgáta, hypotesis. Ég kunni þá engin ráð til þess að komast að því, hvort þessi tilgáta væri rétt, og nú veit ég, að hún er röng. En sú skýring sem ég hefi nú fundið, er ekki tilgáta, heldur uppgötvun, undirstöðusannleikur, sem mun standa óhaggaður um eilífð.
Leiðin til skilnings er sem nú skal sagt. Ef draumlíf mitt er vökulíf annars manns, draumgjafans, þá á það, sem mér þykir í draumi vera mitt útlit, að vera frábrugðið því sem er í raun og veru; því að það sem mér þykir í draumi mitt útlit, er þá hugmynd annars rnanns, draumgjafans, urn sitt útlit. Og langvinn athugun hefir fullvissað mig um, að þetta er einmitt þannig. Alltaf þegar ég í draumi þykist vita nokkuð greinilega um útlit mitt, eða réttara sagt, sé útlit mitt, þá er það ekki mitt útlit sem mig dreymir.
Fleiri fullgildar sannanir fyrir því, að draumvitundin er í raun réttri, meðvitund annars manns, mun ég minnast á síðar.
V
Þegar ég fór nú að rannsaka draumlífið af endurnýjuðum áhuga og auknu viti, fann ég, að draumunum má skipta í 2 aðalflokka. Sumir draumarnir eru þannig, að mér þykir sem allt sem mig dreymir, sé mér kunnugt úr vöku. Draumar þessir eru meira og minna ruglingslegir, og þegar ég fór að læra að athuga þessa drauma, sá ég að þar er um tómar missýningar að ræða; ég segi ekki misskynjanir, svo að ég haldi mér nákvæmlega við það sem ég hefi einkum rannsakað, en það eru draumsýnirnar. Mér tókst að átta mig alveg á því, að sýnin sem fyrir mig bar í draumnum, var ekki það sem ég þóttist sjá.
Og þetta var alveg sérstaklega þýðingarmikil uppgötvun. Því að þarna fékk ég óyggjandi sönnun fyrir því, að draumsjónirnar eru ekki búnar til af huganum sjálfum, heldur komnar inn í hugann að utan. Og missýningarnar verða eftir því lögmáli, sem öllum er kunnugt úr vöku. Fyrir nokkru sá ég t. d. mann standa í dyrum sem ég gekk fram hjá, og horfði ég dálitla stund á manninn þannig, að mér sýndist vera annar maður en var. Mér sýndist vera þarna maður sem ég bjóst við að sjá þar; en nú var þar maður, sem ég bjóst alls ekki við að sjá, og heili minn bjó í fyrstu til ranga mynd af því sem í augað kom. Allir þekkja slíkt af eigin reynslu. Og af slíkum sökum verða missýningar í draumi.
Missýningadraumar eru það sem mig dreymir oftast, og eftir því sem ég hefi getað næst komist, er sama að segja um flesta aðra. En svo eru aðrir draumar, talsvert ólíkir þeim, sem nú var af sagt. Þessir draumar eru ekki ruglingslegir. Meðvitundin er þá glögg, svo að þó að ég sofi, þá er nálega eins og ég vaki. En allt sem fyrir mig ber, er mér ókunnugt úr vöku. Og eigi einungis það, heldur get ég um margt af því skýlaust skilið, að það á sér alls ekki stað á þessari jörð. Mig dreymir t. d. að ég sé að horfa á stjörnurnar, og geti glöggIega greint þær, en stjörnumyndirnar sem ég sé, eru ekki til á himninum, eins og hann kemur oss fyrir augu hér á jörðu. Ljósboga sé ég á himninum, sem minnir á norðurljós, en ljósmagnið er líklega, að minnsta kosti tvöfalt við björtustu norðurljósin, sem ég hefi í vöku séð. Sjóinn dreymir mig, og ég sé skip sem bruna áfram með svo miklum hraða, að varla mundi minni en 50-60 sjómílur á klukkustund. Stórkostlega flota sé ég af loftförum og loftskipum, sem eru ólík því, sem ég hefi nokkurn tíma séð í vöku. Og það er vert að geta þess, að ég sá flugvélar í draumi, mjög greinilega áður en ég hafði nokkra flugvél í vöku séð. Hús sé ég stór og mikil sem fjöll, og þó að öðru ekki síður stórkostleg. Ég hefi séð hæsta húsið á jörðu hér, Eiffelturninn í París, en miklu eru þau hús stærri og stórkostlegri, sem ég hefi séð í draumi. Fjöll og kletta sé ég, ólíkt því sem er á jörðu hér. Og sama er að segja um menn og dýr og jurtir.
VI
Athuganir þær sem nú var af sagt, og aðrar slíkar, eru alveg óskiljanlegar, ef haldið er, að draumurinn eigi upptök sín í meðvitund mannsins sjálfs, og sé sprottinn upp af endurminningum úr vöku, á þann hátt sem sagt var í greininni urn Aristoteles og Bergson. En þegar fenginn er sá undirstöðuskilningur sem hér er verið að segja frá, þegar menn vita, að draumlífið verður fyrir þátttöku í meðvitund annars, þá er allt þetta auðskilið.
Til þess að gera oss þetta ljóst, getum vér farið þannig að: Það sem vér horfum á, vekur hjá oss hugsanir og tilfinningar. Eða með öðrum orðum, myndin sem frá auganu kemur í huga vorn, fær eins og fylgd eða föruneyti af hugsunum og tilfinningum. Gerum nú ráð fyrir, að myndin með þessu föruneyti sínu, flytjist úr einum heila í annan. Það virðist nokkurnveginn ljóst, að hin tilsenda, eða utanaðkomandi mynd, veki fremur eftirtekt viðtakanda, heldur en hugsana og tilfinningafylgd hennar.
Í missýningadraumunum er þetta nú þannig. Sambandið við huga draumgjafans er þar svo ófullkomið að einungis myndin nær að koma fram í meðvitund draumþegans, en ekki, eða einungis lítillega, hugsanaföruneyti hennar. Aftur á móti dregur aðkomumyndin að sér föruneyti líkrar eða skyldrar myndar, sem í vöku hafði komið í huga dreymandans eða draumþegans, og af því verður missýningin. Þannig verður auðskilið, hvernig sá flokkur drauma er til kominn.
Enn má orða þetta þannig. Þegar oss virðist sem allt í draumunum sé oss kunnugt úr vöku, þá er það af því, að sambandið við draumgjafann er ófullkomið; myndirnar úr heila draumgjafans ná að vísu að koma fram í vorum heila, en síður sá skilningur og þær endurminningar, sem myndunum eru samfara. Þar verður vort eigið heilaástand yfirsterkara. Draumsýnirnar umskapast þess vegna eftir vorum endurminningum og voru hugarfari, og verða að missýningum.
Vér skiljum nú einnig glöggt, að draumarnir þar sem vér sjáum það sem er oss ókunnugt úr vöku, verða þegar sambandið við draumgjafann er svo fullkomið, að eigi einungis nær að koma fram í vorum heila, myndin úr heila hans, heldur einnig svo mikið af hugsanaföruneyti myndarinnar, að eigi verður missýning.
Væru enn eftir nokkrar efasemdir um að verið væri á hinni réttu skilningsleið í þessu máli, þá hverfa þær ef vér gætum að því, hvernig draumaflokkarnir renna saman á takmörkum, alveg eins og búast mátti við eftir skýringunni. Sami draumurinn getur talist til beggja flokkanna. Eins og t. d. sá, sem nú skal greina, og er þar auðvitað ekki sagt frá neinum hugsuðum athugunum, — því að það mundi ekki stoða — heldur frá draum, sem mig hefir dreymt í raun og veru. Mér þótti sem ég væri á gangi á götu hér í Reykjavík.
Og sem ég nú geng eftir götunni, skýrist meðvitund mín, og ég fer að taka betur eftir húsunum en ég hafði gert áður. Og þá varð ég þess var, að þessi hús hefi ég aldrei séð áður, ég er ekki í Reykjavík, og ekki í neinni götu sem ég hefi í vöku séð. Svo annarleg eru húsin, að mér er óhætt að taka dýpra
í árinni, og segja, að borg eins og þessa, hafi ég aldrei í vöku séð. Ég held áfram götuna, uns ég er kominn niður að sjó. Og enn skýrist meðvitundin, og er furðulega fróðlegt að veita því eftirtekt, hvernig meðvitundin í draumnum, bæði víkkar, eða færist út, og skýrist jafnframt. Ég verð þess nú var, að það er farið að skyggja. Meðvitund um himininn, hefir áður ekki verið til í draumi mínum. En nú horfi ég á himininn og stjörnurnar, og sé þær greinilega. Mér þykir nú sem ég leitist við að átta mig á stjörnumyndunum, eins og ég geri svo oft í vöku, en enga stjörnumynd sé ég þarna, sem ég þekki. Síðan fer draumurinn aftur að verða ógreinilegri. Það er í augum uppi, hvernig þetta á að skýra. Meðvitund mín í draumnum verður gleggri eftir því sem heilaástand draumgjafans framleiðist eða inducerast betur í mínum heila. Í draumlokin fer sambandið aftur að verða ófullkomnara, og þá verður draumvitundin óskýrari.
VII
Það sem ég hefi gert er að beita við rannsóknina á draumunum, aðferð og hugarfari náttúrufræðingsins. Ég hefi reynt að æfa mig í að athuga sem allranákvæmlegast, bera sem vandlegast saman, og láta fyrirframsannfæringar um það, hvað líklegt væri og hvað ólíklegt, tjóðra mig sem allra minnst. Og þannig hefi ég fundið aðferð til þekkingarauka, sem mun hafa ákaflega miklu stórvaxnari afleiðingar en orðið hafa af því að finna langsjá og smásjá, og er ekki minnstu vitund dulrænni eða síður vísindaleg en notkun þeirra aðdáanlegu rannsóknartækja. Ég lifði við vesalli ástæður en flestir vísindamenn aðrir, og það virtist nokkurn veginn vandlega útilokað, að ég mundi gera nokkrar af hinum stórkostlegri uppgötvunum í náttúrufræði. Og svo fann ég í mínum eigin huga, hið stórkostlegasta rannsóknarsvæði. Andinn sem best hefir að því stefnt að uppgötva heiminn, og átta sig á sjálfum sér, hinn norræni andi, hafði sitt fram, þrátt fyrir alla örðugleika. Óbifanleg undirstaða varð fundin, þar sem allt hafði áður verið hugarburður og þoka. Og svo stórkostleg sem þessi sannindi eru, þá eru þau Ijós og auðskilin hverjum þeim, sem ekki er rammlega tjóðraður af röngum fyrirframsannfæringum.
Og lítum nú enn á, hversu fallega það kemur í ljós, þegar vér virðum fyrir oss hina glöggu drauma, að þar er annars meðvitund komin fram í heila vorum. Mig dreymir t. d. hús, og á svölum hússins stendur maður sem er að halda ræðu. Mér verður nú ljóst, að ég á í huga mínum heilan hóp af endurminningum, sem tengdar eru við þetta sem ég sé; en þegar ég vakna, hverfa þessar endurminningar fljótt, miklu fyrr heldur en myndirnar, eða réttara sagt, endurminningin um þær myndir, sem komið höfðu í huga minn. Þetta endurminninga-föruneyti myndanna hverfur svo fljótt, af því að í mínum huga, vantar tengslin úr huga draumgjafans til þess að halda í þær; en draumsýnin sjálf, varð fremur tengsluð við það er ég hafði séð í vöku. Annað dæmi er þannig. Mig dreymir, að ég sé að ganga upp fjall. Ég hefi í vöku aldrei séð fjall eins og það, og aldrei land eins og það, sem breiðist út fyrir augum mínum er ég geng upp fjallið. En ég get glögglega áttað mig á því, að í huga mínum er sægur af endurminningum, sem tengdar eru við þetta fjall og þetta land sem ég sé. En þegar ég vakna, hverfa þessar endurminningar ákaflega fljótt.
Með því að athuga slíka drauma, má gera sér fullkomlega ljóst, að slíkar endurminningar eru föruneyti draumsjónanna eða draummyndanna, en skapa þær ekki. Draumakenningar eins og Bergsons eða Freuds, hefðu aldrei komið fram, ef menn hefðu æft sig nógu vel í að athuga draumana.
VIII
Þá kem ég að því stórkostlegasta, sem leitt hefir verið í Ijós, með því að beita hugarfari náttúrufræðingsins við rannsóknirnar. Og að vísu hefir tekist að leiða það fram í ljós fullkominnar vissu.
Dultrúarmaðurinn mundi vilja skýra hina glöggu drauma þannig, að sál dreymandans væri farin úr líkamanum, og væri nú í andaheiminum, eða á einhverju af þessum tilverusviðum, sem guðspekisinnar hyggja vera milli tungls og jarðar, og jafnvel niðri í jörðinni. Dulræna er misskilningur á merkilegum hlutum, og þessum misskilningi, sem heitir astralplan og önnur slík tilverusvið, gæti nú vel verið lokið. Það er alveg ljóst, að þegar ég sé í svefni sýnir, sem enginn getur augum litið á þessari jörð, þá er það af því að draumgjafinn sér slíkt, þar sem hann er. Draumgjafinn er því ekki á þessari jörð. En þá hlýtur hann að vera á einhverri annarri. Í svefni höfum vér á jörðu hér, samband við menn á öðrum stjörnum. Þó að árangur þessi af athugun vökumannsins, sé svo stórkostlegs eðlis, að hann mun gjörbreyta högum alls mannkyns, þegar farið verður að færa sér hann í nyt, þá er það samt fullkomlega víst, að áreiðanlegri niðurstaða í náttúrufræði er ekki til en þessi, né betur fengin.
IX
Mjög hafði mér fundist um, þegar ég sá til sanns, að draumlífið er í raun réttri vökulíf annars manns. Og þegar mér var fullkomlega ljóst orðið sambandið við aðrar stjörnur, þá var ég um stund, það sem ef til vill mætti kalla yfirkominn af undrun. Þegar lesandi minn er farinn að vita fyrir víst, að það er satt, sem hér er sagt, þá mun hann lifa nokkuð líka undrun sjálfur. Og náin framtíð mun leiða í ljós, að það er ekki að ástæðulausu, sem undrast er. En svo mjög sem ég hafði furðað mig, þá lá við að ég undraðist ekki síður, þegar ég lærði að skilja það, sem nú skal nokkuð af sagt. —
Skáldið Þorsteinn Erlingsson var einn af merkilegustu mönnum, sem ég hefi kynnst. Ennið á Þorsteini var eitt af því, sem tiltakanlega vel hefir sýnt mér, hversu merkilegt efni er í þessu niðurbælda fólki, sem land vort byggir. Ég hefi talað við ýmsa af hæstu toppunum í vísindum og ritmennt vorra tíma, og virt þá fyrir mér vandlega. En á engum þeirra sá ég enni sem væri eins aðdáanlega vaxið og á Þorsteini Erlingssyni. Þorsteinn var sá maður hér í Reykjavík, sem ég helst heimsótti, og ég fór nú að veita því eftirtekt, að mig dreymdi greinilegar en vanalega, ef ég hafði talað við Þ. E. daginn áður. Þá einhverju sinni, er ég hafði talað einnig við annan mikinn gáfumann, séra Guðmund Helgason, áður í Reykholti, dreymdi mig þennan tiltakanlega ljósa draum, sem varð tilefni ritgerðar, sem ég hefi kallað „Á annarri stjörnu.”
Ég lærði nú að skilja, að það eru ekki einungis gáfumennirnir, sem hafa áhrif á drauma mína, heldur allir. Og áhrifin eru bein. Ég þarf ekki að tala við manninn til þess að verða var við þau. Það er nóg að ég sitji eða standi nálægt honum, eða gangi fram hjá honum. Og það sem mig nú stórfurðaði svo á, var að finna hvernig aðrir skapa drauma mína. Ekki svo að skilja, að þeir séu draumgjafarnir. En þeir hafa svo mikil áhrif á það, hver draumgjafinn verður. Það er eins og þeir stilli mig til sambandsins. Hver maður er annars stillir, eða determinant, þegar ræðir um sambandið við þá, sem aðrar stjörnur byggja. Ég hefi reynt það ákaflega oft, hvort það gæti eigi orðið minn eigin vilji, mitt eigið hugarfar, sem sambandinu réði. En þær tilraunir hafa aldrei tekist. Alltaf hefi ég fundið, að það var annarra hugarfar sem sambandinu réði, og einkum hugarfar þeirra gagnvart mér. Áhrif frá öðrum ráða því mest, hvort mig dreymir vel eða illa. En mig dreymir sjaldan vel. Draumgjafinn er oftast nær maður, sem er í helvíti, þ. e. a. s., þar sem er ófegurð, eymd og kvöl, eins og er á jörðu hér, eða ennþá verr. Það hefir aldrei komið fyrir mig, að stillirinn yrði mér draumgjafi, en þó hefir í Nýal verið sagt frá athugunum, sem sýna, að slíkt getur átt sér stað. Og oft hefi ég getað áttað mig á því, hvernig hugsanastefnur stillisins komu fram í mínum huga, og eins getað gengið úr skugga um, að orðaflutningur á sér stað frá huga til huga. Rannsóknarsvæði það, sem hér opnast er ákaflega stórkostlegt og þýðingarmikið, og slíkar athuganir eru framúrskarandi greindaræfing, en vandgerðar. Lífgeislanin og íleiðslan verður mönnum alveg ljós, þegar þeir fara að kunna að gera þær athuganir, sem hér koma til greina, og vissulega er stórfurðuleg þessi gegngeislun frá manni til manns. Sérhver er gegngeislaður af öðrum, og gegnumgeislar aðra. Sérhver stillir aðra og stillist af öðrum, til sambands við lífið á öðrum stjörnum. Og að vita þetta er svo afar þýðingarmikið, til þess að skilja, hvernig stefnt er til hinnar æðri lífheildar. Hin æðri lífheild, hyperzóon, svarar til hvers einstaks manns, líkt og þetta afarsamsetta metazóon, þessi lífheild, sem kallast maður, svarar til fyrstlingsins eða frumunnar. Og það er hin guðlega vera, að þessi samstilling einstaklinganna, sem verður fyrir víxlgeislan og víxlileiðing, takist fullkomlega. Munurinn á viti og öðrum hæfileikum slíks fullkomlega samstillts og samstillandi einstaklings, og svo á mannsviti, verður ennþá meiri en sá, sem er á viti og öðru atgervi mannsins, og fyrstlingsins, sem sveimar í vatninu ósýnilega smár, og án þess að hafa nokkra minnstu hugmynd um sjálfan sig og þennan merkilega heim.
X
Arthur Schopenhauer, sem djúpvitrastur hefir verið þýskra spekinga, sagði, að leiðin til þess að ráða gátu tilverunnar, væri að skoða sinn eigin huga. Og að vísu hafði spekingurinn rétt fyrir sér, en skoðaði sjálfur aðeins ekki nógu djúpt og vandlega. En ef vér rannsökum nógu rækilega þetta undarlega hugarástand, sem kallað er draumur, þá komumst vér á leiðina fram. Og oss eru ekki þau takmörk sett, að geta einungis rannsakað vora eigin drauma. Vér finnum, ef nógu vel er að gætt, leið til að rannsaka einnig annarra drauma, meðan verið er að dreyma.
Ekki allfáir tala sofandi, en þó ekki þannig, að þeir svari, ef á þá er yrt. En til eru þeir, sem má tala við, þó að sofandi séu; og þar er líkingin orðin svo mikil við ástand það sem kallað er trance, miðilssvefn, eða sambandsástand andamiðilsins, að það verður erfitt að finna muninn. Miðilsástandið er ekkert annað en afbrigði (varietet) vanalegs svefns og svefnmagnanar. Miðillinn hefir þá merkilegu og dýrmætu gáfu, að geta talað við aðra, þó að hann sé steinsofandi. Þannig gefst oss kostur á að rannsaka draumana, meðan verið er að dreyma. Og vér getum nú athugað þar mjög glögglega, að draumurinn er meðvitund annars. Tiltakanlega fróðlegt er að athuga, hvernig raddfæri miðilsins eru smátt og smátt að stillast eftir draumgjafanurn. Fyrir þann sem hefir áttað sig á eðli draumlífsins, er sambandsástand miðilsins ekki vitund dularfullt. En ef menn lesa ritgerð eftir hinn nafnkennda ameríska sálufræðing, William James, sem heitir, minnir mig, Reminiscenses of a psychical researcher — ég hefi nefnt hana í ritgerðinni „Á Bröttubrekku”(Lögrétta) — þá geta menn séð, hvað einn af fremstu sálufræðingum vorra tíma, hefir verið algerlega laus við að botna nokkuð í sambandsástandi miðilsins. Svo fjarri skilningi hafa menn komist, að ímynda sér, að miðillinn væri að leika, og færði sér í nyt, af djúpri umhugsun og miklum skarpleik, upplýsingar sem hann hefði aflað sér í því skyni að blekkja fundarmenn. Á því stigi vanþekkingar er verið á vorum dögum, rétt við þröskuld hins nýja tíma, og er það sannast að segja, að stjörnufræðin var fyrir daga Koperniks, talsvert lengra komin, að sínu leyti, en sú sálufræði og líffræði, sem þekkir ekki sambandsástand og íleiðslu (bioinduktion).
XI
Ef nokkuð vandlega er að gætt, þá má fullvissa sig um, að miðillinn er steinsofandi, þó að hann svari spurningum vorum. Og það má ganga alveg úr skugga um, að það er meðvitund annars, sem talar úr miðlinum, og að þessi annar er íbúi annarrar stjörnu, eins og vér getum svo vel glöggvað oss á, að draumgjafinn er, í vanalegum svefni, langoftast. Dæmi hefi ég þó nefnt í ritgerð hér áður, sem sýna mjög fróðlega, að bæði í vanalegum svefni og miðilssvefni, getur draumgjafinn verið maður á þessari jörð. En þó mætti telja mjög mikilvægar líkur til þess, að einnig í slíkum dæmurn, sé hinn jarðneski draumgjafi aðeins stillir, sem óvanalega mikið ber á, og forboði sambands við draumgjafa, sem er íbúi annarrar stjörnu.
Enn getum vér á miðilfundinum gert þá afaráríðandi uppgötvun, að fundarmennirnir, the sitters, skapa miðlinum sambandið, mjög líkt og verður í vanalegum svefni. En þó er nokkur munur, og mjög eftirtektarverður. Miðillinn virðist hafa nokkur föst sambönd, sem koma, her sem fundarmaðurinn er. Slík sambönd eru t. d. Feda, sem svo mikið getur um í „Raymond”, Kathleen, hjá G. Vale Owen, og „telpan”, hjá hinum ágæta miðli, sem ég hefi sagt nokkuð af hér áður. Hið nýja samband, sem nýr fundarmaður skapar miðlinum, eða stillir miðilinn til, verður þá ekki beint við miðilinn, heldur við þessa föstu sambandsveru hans. Epigenetisk induktion mætti slíkt heita, og er allt þetta efni mjög ákaflega rannsóknarvert. Veiki sú, sem kölluð er hystería, virðist eiga rót sína í óheppilegu fastasambandi, óheppilegri induktion, og er þar afar eftirtektarvert, að veikin byrjar oft þannig, að mann dreymir, að hann meiði sig. Vér vitum nú, að þetta er sama sem að sofandinn fái samband við draumgjafa, sem einmitt þetta kemur fyrir, og sambandinu milli taugakerfanna er svo ekki slitið með svefninum. Lækningin er innifalin í því, að stilla öfluglega til góðs sambands. Og þannig verða þessar svo kölluðu huglækningar, sem svo mikið er talað um nú, og prófessor Ág. Bjarnason hefir haldið eftirtektarverða fyrirlestra um í vetur. Lækningar þessar eru nokkurskonar „kraftaverk”, lífgeislalækningar, bioradioþerapi. Í 72. kafla Eglu, segir frá því aðdáanlega, hvernig lækna má hysteri. Jötuninn, sem hafði annars svo margt verk ófagurt unnið, kemur þar skemmtilega fram. Lækning Egils er innifalin í því, að hann stillir hina hysterísku stúlku til góðs sambands, en losar hana frá sambandinu við þann draumgjafa, sem veikindunum olli. Ákaflega eftirtektarverð eru þau orð sögunnar, að stúlkunni hafi þótt sem hún vaknaði úr svefni, og er trúlegt, að svo hafi einmitt verið; en meðvitundarskiftin sem urðu, þegar slitið var sambandinu við veikivaldinn, eru það sem líkinguna gera. Og má af slíku nokkuð ráða, hvað sagan er sönn.
Sé lífstarfið sem íleitt er, nógu öflugt, þá geta jafnvel sár og alvarleg veikindi læknast, og það á svipstundu. Það eru til sögur af slíku, sem erfitt er að rengja. Enginn má þó skilja orð mín svo, sem ég ætli að fara að vekja upp hina fornu trú á kraftaverk. Íleiðslulækningarnar eru ekki vitund yfirnáttúrlegri heldur en t.d. skurðlækningar. Það er alltaf einkum í svefni, sem sóttir batna og sár gróa, og það er einmitt vegna þeirrar magnanar sem í svefni verður. Og íleiðslulækningarnar munu ekki útrýma læknunum, heldur margfalda mátt þeirra. Það er einmitt af því að ekki var vísindalega að verið, sem kraftaverkalækningar hafa svo sjaldan tekist. Og af því að menn þekktu ekki samband hlutanna, því héldu þeir að um yfirnáttúrlega atburði væri að ræða. En nú er það samband kunnugt orðið, og menn geta orðið lausir við þá leiðinlegu trú, að það sé til guð eða guðir, sem gætu tekið burt sorg og kvöl hins þjáða mannkyns, en vilji aðeins ekki gera það. Slíkt halda menn í helvíti, og vita ekki hversu ferlega þeir guðlasta. Það er einmitt það, sem að er í helvíti, eða þar sem er sorg og þjáning, að það er verið fyrir utan takmörk hins guðlega. Það er einmitt það sem er að heiminum ennþá, að hinu guðlega eru þar takmörk sett. Þar sem vantar samstillinguna, við hinn guðlega kraft, getur sá kraftur ekki að notum komið. En guðlegan kraft kalla ég viðleitnina til hinnar fullkomnu samstillingar, sem er hin guðlega vera. Hvað hin guðlega vera sé, hafa menn satt að segja ekki haft neina rétta hugmynd um, á jörðu hér, eins og skilja má af því, að menn eru að tala um guð, sem refsar og slær. Það mætti eins tala um, að snjóaði úr sólinni.
Þegar nú mannkynið fer að vilja þiggja þá byrjun, sem hér er verið að gera, þá mun takast að sigra þau takmörk, sem hinu guðlega hafa verið sett í heimi vorum. Og breytingin mun verða meiri, heldur en ef vér hefðum aldrei sól séð, og sæjum konung dagsins rísa á himin í fyrsta skifti.
XII
Við því má ekki búast, að viðleitnin til að koma á hinni réttu stefnu á jörðu hér, komi í fyrstu stórkostlegar fram en þetta, sem hér má sjá; tilraun mjög þreytts manns til að koma af nokkrum ritgerðum. Og ennþá erfiðara er þeim í helvíti en áður, sem farinn er að vita, hverju koma mætti til leiðar, ef samstilling fengist við hina réttu hugsun. Auðvelt mun mér verða að ná líkamskröftum mínum og ráða við þá örðugleika, sem nálega hafa gjörspillt æfi minni, þegar gagnvart mér, verður farið að taka á greindinni, svo sem nauðsyn er á. En þar hefir mjög mikið á vantað. Svefnsambönd þau sem hugarfarið til mín hefir skapað mér, hafa verið í ótrúlegasta lagi, fábjánar, vitfirringar, verur sem hafa svo ófullkominn heila, að varla geta menn kallast. Ég er, nú orðið, farinn að kunna nokkurn veginn vel til að rannsaka slíkt. En með tilstyrk góðs miðils, get ég farið nærri um það, hver sambönd séu mér eiginlegri en þau sent hið vanalegasta hugarfar hefir skapað mér. Ég get ráðið þetta af því, hver sambönd miðillinn fær, eða vanasambandsvera hans, fyrir mitt tilstilli. Í eitt skipti fékkst þannig samband við Íslending frá 11. öld, og er það þannig að skilja, að sitthvað í hugarfari stillisins, muni vera frá því áður en Ísland komst undir kirkju og konung. Í annað skipti varð „epigenetískt”, eða með millilið, samband við slíka veru, sem menn í fornöld mundu hafa kallað guð. Og það eru engar ýkjur, að horfur urðu þar nokkru fróðlegri en ég hefi reynt eða frétt af áður.
Því miður hefir ekki verið kostur á að halda þessum tilraunum áfram ennþá. En þó hefir glögglega mátt skilja, að með tilstuðlan góðra miðla, gæti maður, sem dálítið veit í líffræði, og ekki trúir á andaheim eða annað líf, skrifað þannig sögur af lífinu á öðrum stjörnum og framlífi frægra fornmanna og annarra, að ná mundu til milljóna, jafnvel þó að í fyrstu væru á íslensku saman settar.